Ömmurnar slá í gegn

Hádegisfyrirelstrar RIKK undir fyrirsögninni Margar myndir ömmu, hafa algerlega slegið í gegn, en á fyrirlestrunum segja fræðimenn frá ömmum sínum. Hátt í tvö hundruð mættu á síðasta föstudag þegar Guðni TH Jóhannesson sagnfræðingur var með ömmufyrirlestur dagsins. Þá var búið að flytja fyrirlestrana úr Þjóðminjasafninu í sal í Öskju náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Hann reyndist líka of lítill þannig að bæta þurfti við stólum og verður hádegisfyrirlesturinn á föstudaginn í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Þar mun Dagný Kristjánsdóttir flytja fyrirlestur um ömmur sínar og varpar fram spurningunni. „Hvað vildu þær – hefðu þær verið spurðar?“

Margar skýringar á vinsældunum

Kristín Pálsdóttir verkefnisstjóri hjá RIKK

Kristín Pálsdóttir verkefnisstjóri hjá RIKK

RIKK er Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og var fyrirlestrarröðin Margar myndir ömmu, sett á dagskrá í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hér á landi. Kristín Pálsdóttir verkefnisstjóri hjá RIKK segir að það séu sjálfsagt margar skýringar á því hvað fyrirlestrarnir hafi orðið vinsælir. Það sé bæði stemming fyrir þessu vegna afmælis kosningaréttarins og sú persónulega nálgun sem notuð sé í fyrirlestrunum veki áhuga hjá mörgum.

Fyrirlestrarnir í stærstu sölunum

„Svo koma ættingjar fyrirlesarans til að heyra um formæður sínar“, segir hún. Það verði nokkurs konar ættarmót í kringum fyrirlesturinn, en stór hópur kvenna mæti líka alltaf þegar hann geti. Það séu sérstaklega þær sem hafi áhuga á kvenréttindum og vilji heyra sögu þessara formæðra, það hafi verið minna fjallað um þær en forfeðurna. „Okkur dettur þetta helst í hug“ segir Kristín. Hún segir líka að fyrirlestrarnir hafi spurst út og gestunum fjölgi stöðugt. Fyrirlestrarnir verða framvegis ýmist í sal 132 í Öskju eða sal 102 á Háskólatorgi, nema fyrirlesturinn hennar Dagnýjar á næsta föstudag sem verður í hátíðarsalnum. Þetta eru stærstu salirnir sem eru í boði á vestursvæði Háskólans

Fólk hvatt til að skrásetja sögur formæðra

Kristín segir að það hafi verið mikill áhugi hjá fræðimönnum að taka þátt í þessu verkefni og það sé ætlunin þegar líður á árið að fara með fyrirlestrana út á land. Þá hafi Þjóðminjasafnið, RIKK og Sagnfræðistofnun efnt til samstarfs um að taka við sögum af ömmum og almenningur sé hvattur til að skrásetja sögur formæðra sinna og skila þeim inn.  Hægt er að velja hvort skrifað er frjálst eða hvort fólk nýtir sér leiðbeiningar um hvernig best sé að bera sig að við að skrifa um ömmurnar.

 

 

 

 

Ritstjórn mars 3, 2015 16:44