Á heimasíðu þvagfæraskurðlækna, Þvagfæraskurðlæknir.is, er að finna fróðleik um vandamál sem hrjáir margan manninn og þar með marga konuna. Þetta vandamál er nokkuð algengt og sýna sumar rannsóknir að u.þ.b. helmingur karlmanna eldri en 40 ára glími við þetta vandamál að einhverju leyti. Orsakirnar geta verið ýmiss konar en má í grófum dráttum skipta í fjóra flokka að því er kemur fram á vefnum þvagfæraskurðlæknir.is.
Fyrst eru hormónatruflanir nefndar en skortur á karlhormóninu, testósteróni, getur leitt af sér minnkaða stinningu og getur lækningin falist í því að sjúklingi sé bættur upp þessi skortur með testósterón-sprautum eða geli.
Næst eru truflanir af sálrænum toga nefndar. Oft er hræðsla við slælega frammistöðu í kynlífi hluti vandans. Kynlífsráðgjöf er meginuppistaða meðferðar en tímabundin notkun stinningarlyfja getur mögulega brotið upp vítahring og hjálpað til.
Þriðja atriðið sem nefnt er hefur með taugakerfið að gera. Taugasjúkdómar eins og t.d. MS en einnig skurðaðgerðir í grindarholi sem hafa í för með sér skemmdir á taugum geta orsakað risvandamál. Langvinn sykursýki getur valdið skemmdum í úttaugum og valdið skertri stinningu.
Truflanir í æðakerfi er nefnt í fjórða lagi. Þá er ýmist um að ræða skert blóðflæði til getnaðarlimsins, t.d. vegna æðakölkunar eða svokallaðs bláæðaleka þar sem of hraður leki blóðs úr limnum hamlar stinningu.
Þá geta ýmiss konar lyf haft áhrif sem og óhófleg neysla áfengis eða tóbaks.
Hvað er til ráða?
Á vef þvagfæraskurðlækna kemur fram að miklu máli skipti að fá greinargóða lýsingu á eðli vandamálsins. ,,Er löngun til kynlífs til staðar? Hvernig er sambandið við makann? Er morgunstinning eðlileg? Hvernig er neysla áfengis eða annarra vímugjafa? Eða reykingar? Hvaða lyf notar viðkomandi?
Almenn líkamsskoðun er framkvæmd þar sem læknir skoðar sérstaklega eistu, blöðruhálskirtil og getnaðarlim sem og oftast eru teknar blóðprufur þar sem mælt er s-testósterón ásamt blóðsykri.
Meðferð
Almennar ráðleggingar til manna með stinningarvandamál geta falið í sér að taka á þeim áhættuþáttum sem til staðar eru – t.d. að hætta reykingum, grenna sig, minnka áfengisneyslu, með aukinni hreyfingu og bættum svefnvenjum og mataræði. Algengt er þó að sértækari meðferðarúrræðum sé einnig beitt.
Ef stinningarvandamál má rekja til testósterónskorts getur meðferð falist í því að mönnum er bættur upp sá skortur með testósteróngjöf. Er þá um að ræða að sjúklingur noti annað hvort testósteróngel sem smurt er daglega á húð eða að efninu sé sprautað í vöðva. Viðkomandi einstaklingur er síðan undir umsjá læknis sem stýrir gjöfinni í samræmi við blóðmælingar.
Stinningarlyf hafa gerbreytt allri meðferð risvandamála. Hér er um að ræða ýmist töflur eða lyf í sprautuformi sem eiga það sammerkt að auka blóðflæði til getnaðarlimsins og stuðla að bættri stinningu.
Algengast er að byrjað sé á töflum og hér á landi eru til 2 tegundir, annars vegar sildenafil sem virkar í u.þ.b. 10-12 tíma og hins vegar tadalafil (Cialis) sem virkar í allt að 36 tímum. Ekki má nota lyf þessi ásamt svokölluðum nítrötum (nitroglycerin, sprengitöflum) eða skyldum lyfjum né heldur ef einstaklingur glímir við alvarlegan hjartasjúkdóm.
Stinningarlyf í sprautuformi, svokölluð prostaglandíni (Caverject), er sprautað inn í getnaðarliminn þar sem það eykur blóðflæðið og framkallar stinningu. Er það gjarnan notað þegar stinningarlyf í töfluformi hafa ekki borið árangur.
Skurðaðgerðum vegna stinningarvandamála hefur með aukinni notkun stinningarlyfja fækkað mjög. Ef lyfjameðferð virkar ekki sem skyldi er stundum gripið til þess ráðs að setja í getnaðarliminn svokölluð ígræði (prótesur) en þetta eru í raun hólkar sem hægt er að dæla í vatni til að ná fram fyllingu og þar með stinningu limsins.”
Örvæntið ekki!
Eins og sjá má af þessum upplýsingum frá þvagfæraskurðlæknum eru til ýmis ráð við risvandamálum en þegar öllu er á botninn hvolft er er það oftast ellikerling sem er að stríða mannfólkinu svo leiðinlega en talið er að stutt sé í lyf sem auka kynlöngun kvenna.
Grínistinn Bette Midler átti góðan brandara þegar samþykkt var umdeilt bann við fóstureyðingum í Bandaríkjunum fyrir skömmu þegar hún sagði:
“Time to ban Viagra. Because if pregnancy is ‘God’s will’, then so is your limp dick,” sagði hún þegar hún hæddist að rökum dómstólsins.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.
Upplýsingar eru fengnar af vef þvagfæraskurðlækna, www.þvagfæraskurðlæknir.is