Tengdar greinar

Hvenær er tímabært að taka niður giftingahringinn?

„Maðurinn minn lést í júní eftir langa baráttu við Parkinson sjúkdóminn. Ég hafði gengið í aðstandendahóp hjá Parkinson samtökunum og við hittumst einu sinni í mánuði til að sýna hvert öðru stuðning. Við vorum á svipuðum aldri, að ganga í gegnum sömu  erfiðleikana og það tókst með okkur góð vinátta. 10 árum síðar, voru sex af átta konum í hópnum orðnar ekkjur og deildu þannig nýrri lífsreynslu“. Þannig hljóðar upphafið að grein á vefnum sixtyandme, sem fylgir hér á eftir í lauslegri þýðingu.

Þegar maðurinn minn féll frá fékk ég mikið af samúðarkveðjum sem var yndislegt. Ég fékk líka spurningu sem hreyfði sannarlega við mér, en ég var spurð hvort ég væri búin að taka niður giftingahringinn. Ég ákvað að bera málið undir vinkonur mínar úr aðstanendahópnum sem einnig höfðu misst maka. Voru þær búnar að taka niður giftingahringinn?

Fékk fjögur mismunandi svör.

Sú fyrsta sem eg spurði er alltaf vel klædd, með fallega skartgripi, hringa, eyrnalokka og hálsmen, meira að segja þegar við hittumst óformlega. Hún svaraði: „Auðvitað geng ég með giftingahringinn minn“.  Ég gerði ráð fyrir að hringurinn væri bara hluti af þeim skartgripum sem hún gengur yfirleitt með, en hún bætti við. „Ég kæri mig ekkert um að karlmenn séu að nálgast mig“. Hún hafði átt langt og gott hjónaband og hafði engar fyrirætlanir um að fara að vera með nýjum manni, sérstaklega ekki einhverjum sem væri eldri en hún og gæti misst heilsuna.

Næsta sem ég spurði átti líka langt hjónaband að baki og hún sagðist stundum vera með hringinn og stundum ekki. Það færi mikið eftir því hvernig hún væri stemmd og við hvaða tækifæri það væri. Stórum hluta skartgripa hennar hafði verið stolið fyrir mörgum árum, þannig að hún hafði ekki úr jafn miklu að moða og áður. En samt sem áður, hún átti hálsmen sem var í miklu uppáhaldi hjá enni, en hún og maðurinn hennar höfðu keypt það saman á ferðalagi sem þau fóru eitt sinn í. Menið minnti hana á hann. Hún var nánast alltaf með það, en ekki giftingahringinn.

Þegar ég spurði þriðju vinkonuna, virtist hún jafn hissa á spurningunni og ég var sjálf þegar ég fékk hana fyrst. Hún var búin að vera ekkja miklu lengur en ég og sagði að það hefði aldrei hvarflað að henni að hætta að nota hringinn. Hún leit ekki á hann sem tákn eins og hinar tvær gerðu. Henni var jafn eðlilegt að setja á sig hringinn og að bursta í sér tennurnar. Hjónabandið hafði verið snar þáttur í því hver hún var og var það ennþá, þannig að hringurinn var eðlilegur hluti af því.

Ég lagði spurninguna fyrir þá fjórðu, hún var að vísu ekki búin að missa manninn sinn, en gekk ekki með neina  hringi, heldur ekki giftingahringinn. Þegar ég spurði hvers vegna, hnussaði hún. „Það er útaf gigtinni“. Hún kom hringnum ekki lengur uppá fingurinn og henni var sama. Hún sagðist hafa fengið mjög slæmt ofnæmi fyrir nokkrum árum, hún bólgnaði öll upp og það þurfi að klippa hringinn til að ná honum af henni. Hún hafði ekki séð ástæðu til að fá sér nýjan, hafði enda um nóg að hugsa að hlúa að karlinum sínum

Hvað á kona að gera?

Þegar ég hlustaði á vinkonur mínar, velti ég vel fyrir mér því sem þær sögðu. Ég get ekki ímyndað mér að ég muni taka saman við nýjan mann, eftir hjónaband sem stóð í 42 ár og báðir voru mjög ánægðir með. Þannig að sú hugmynd að nota hringinn til að halda öðrum frá, höfðaði til mín. Maðurinn minn var farinn að nota  einn af mínum hringum skömmu áður en hann lést, þegar hann var orðinn svo magur að hann passaði á hann. Mér þykir vænt um hringinn og hann minnir mig afar sterkt á hann. Ég mun hugsanlega halda áfram að bera þann hring sem minnir mig á það góða sem við áttum saman en ekki erfiðan sjúkdóminn.

Hugmynd mín um sjálfa mig hefur verið á þá lund að ég sé manneskja sem þykir vænt um fjölskylduna sína. Hluti af því er að ganga með giftinahringinn.  En áhugamál mín eru að breytast og ég get ímyndað mér að það geti orðið óþægilegt að vera alltaf með hann á sér. Til að mynda ef ég fer til framandi landa.  Kannski skil ég hringinn þá eftir í kommóðuskúffunni og sýni heiminum og sjálfri mér nýtt andlit.

Það kann hins vegar að breyta öllu ef ég verð slæm af gigt. Ég get notað giftingahringinn minn á vinstri hendi eins og er, en efstu liðirnir á öllum fingrunum eru bólgnir.

En hvað sem öllum breytingum líður, er best eins og sakir standa, að bíða bara og sjá til.

Ritstjórn nóvember 23, 2022 06:00