Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar
Ég er ekki með manngleggstu mönnum og lendi stöku sinnum í vandræðum vegna þess. Minn betri helmingur bjargar mér yfirleitt, áður en ég verð mér til skammar, þótt undantekningar séu frá því. Stundum kannast maður við andlit, án þess að átta sig á því um hvern ræðir. Svo er sjálfsagt með marga. Þá er annað hvort að spyrja – eða taka sénsinn og heilsa kumpánalega og vona að maður sleppi með það.
Við hjónakornin fórum síðastliðið sumar á slóðir Íslendinga í Bandaríkjunum og Kanada, fróðlega og skemmtilega ferð með rúmlega fimmtíu ferðafélögum í rútu. Margra daga ferð saman í bíl og á mörgum hótelum leiðir óhjákvæmilega til nýrra kynna, maður er jú manns gaman. Nokkrir í þessum hópi nefndu það við mig að þeir könnuðust við ásjónu mína en komu mér ekki fyrir sig. Þetta var fólk sem ég þekkti alls ekki. Ég sagði á mér deili, eins og maður gerir í slíkum samskiptum. Þá rifjaðist upp fyrir þessum ágætu ferðafélögum okkar hjóna að þeir höfðu séð mynd af mér í blöðum í gegnum tíðina, en þekktu mig ekki að öðru leyti. Á 40 ára blaðamennskutíð var það meðal hlutverka minna að skrifa helgarpistla í víðlesin blöð – á blómatíma prentmiðla, sem nú mega muna fífil sinn fegurri. Það að sjá mynd af sama andlitinu árum og jafnvel áratugum saman festist í kolli sumra, en annarra ekki, eins og gengur. Sú frægð fölnar þó fljótt, ef frægð skyldi kalla, því blaðið með öllum sínum myndum endar í ruslatunninni fljótlega eftir útkomudag. Eina von þess sem skrifar er að álitlegur hópur gluggi í skrifin áður en blaðið fer í tunnuna. Mikill munur er á því, eftir starfsstöð eða ritstjórnum, hve nærri almenningi blaða- og fréttamenn komast. Tiltölulega lítið ber á þeim sem skrifa í hin prentuðu blöð meðan ljósvíkingar eru í daglega í stofum landsmanna. Sjónvarpið skilar fréttamönnum sínum landsfrægð, blaðamönnum prentmiðla síður.
Það er því að vonum að andlit þess sem skrifaði í blöð á árum áður hverfi úr minni fólks og ekki ástæða til að sýta það. Margir þeirra sem störfuðu samtíða mér í stétt blaðamanna eru komnir á eftirlaun eða komnir nærri eftirlaunaaldri. Aðrir eru fallnir frá. Einum fylgdi ég fyrir skemmstu, gömlum skólabróður úr menntaskóla og blaðamanni á öðru blaði en ég starfaði sem lengst. Útförin var í senn falleg og virðuleg. Fjölmenni var í kirkjunni. Ég kom tiltölulega seint til athafnarinnar og settist á aftasta bekk. Tveir menn sátu nær gangi kirkjunnar. Þeim veitti ég ekki sérstaka eftirtekt. Að vísu dáðist ég að því, án þess að líta til hans, að sessunautur minn, mér á hægri hönd, fór hátt og snjallt með faðirvorið, meðan aðrir muldruðu, og söng útfararsálmana af kunnáttu og með djúpri röddu. Aðra kirkjugesti sá ég framar, fólk sem ég kannaðist við, félaga úr stétt fjölmiðlamanna og Blaðamannafélaginu. Hinn látni hafði látið til sín taka á þeim vettvangi. Auki þess mátti sjá, meðal margra annarra, kunnugleg andlit úr stjórnarráðinu, enda hafði hann starfað við upplýsingastörf í ráðuneyti mörg síðustu ár starfsferilsins.
Svo sem venja er við útfarir stóðu kirkjugestir upp við moldun og stóðu áfram meðan kistan var borin út. Sem fyrr segir var ég þriðji maður frá gangi á aftasta bekk kirkjunnar. Eftir að nánustu aðstandendur hins látna höfðu fylgt kistunni út fylgdu aðrir gestir í kjölfarið. Við sem aftast stóðum biðum þess að ganga síðust út. Þeir sem ég þekkti nikkuðu til mín þar sem ég stóð en eftir því sem fleiri gengu út úr kirkjunni undraðist ég hve margir heilsuðu mér, fólk sem ég þekkti alls ekki, og breytti þar engu hvort kalla megi mig mannglöggan eður ei. Sumir sendu mér innvirðulegt augnaráð eða jafnvel bugtuðu sig, svo sem menn gera fyrir framan sjálfan páfann, hans heilagleika. Mér datt meira að segja í hug að einhverjir hefðu kysst á hring á fingri mínum ef ég hefði staðið fremst í bekknum. Til þess kom þó ekki, sem betur fer, því fólk komst ekki alveg að mér.
Ég verð að viðurkenna að mér var nóg um viðbrögð fólks, ég sem stóð í þeirri meiningu að ég væri öllum gleymdur. Það að skrifa vikulega pistla í blöð kallaði varla á þessi viðbrögð, en hvað um það, ég kunni ekki við annað en að heilsa á móti, kinka kolli hæversklega en þó af fullri virðingu enda staddur í útför.
Það var ekki fyrr en við vorum þrír eftir til útöngu, ég og mennirnir tveir á aftasta bekk, að ég tók eftir því að sessunautur minn í kirkjunni, þétt við hlið mér, var Karl Sigurbjörnsson biskup.