Framtíðin björt á þriðja aldursskeiðinu

Sara Sif og Sonja Sif med ömmu í Kaupmannahöfn.

Drífa Hilmarsdóttir stofnaði barnafataverslunina Bíumbíum fyrir 8  árum ásamt dóttur sinni og tengdasyni sem þá höfðu verið búsett erlendis í nokkur ár. Í hópinn þeirra bættust tvö börn á þessum tíma en fyrir átti unga parið eitt barn. Eftir þessi átta ár voru þau farin að hugsa um að gaman væri að breyta til og þegar þau fengu tilboð í verslunina ákváðu þau að slá til. ,,Þetta gerðist allt mjög hratt og var rosaleg breyting,“ segir Drífa. ,,Síðasti desember var til dæmis sá fyrsti í lífi mínu sem ég var í fríi og gat notið jólahátíðarinnar í botn og ég hafði ekki heldur tekið almennilegt sumarfrí allan þennan tíma,“ segir Drífa og brosir. ,,En óneitanlega voru í mér svolítil ónot því ég var orðin 65 ára og vissi sem var að ég myndi ekki geta gengið inn í vinnu hvar sem er og hvað átti ég þá að gera.“

Skellti sér á vit ævintýranna

Drífa fótbrotnaði á þessum tíma og ákvað að vera róleg heima fram yfir jólin og var auðvitað að velta framtíðinni fyrir sér. Þá var það að hún heyrði af Magnavita náminu og það höfðaði þannig til hennar að hún ákvað að stökkva til og skella sér á vit ævintýranna. Hún var ein af þeim fyrstu sem skráðu sig og sér ekki eftir því. ,,Síðan ætla ég bara að sjá til hvað ég geri og ég er svo lánsöm að hafa getað hagað málum þannig að geta verið róleg nú þegar þriðja aldursskeiðið er hafið,“ bætir hún við.

 

Sér eftir að hafa ekki gengið menntaveginn frekar

Drífa segir að ef það væri eitthvað sem hún vildi geta breytt sé það að hafa ekki gengið menntaveginn meira en hún gerði. ,,Ég kláraði stúdentsprófið aldrei alveg en átti mér draum um að fara í arkitektúr. Ég fór þess vegna í tækniteiknun en hélt svo til Danmerkur í útstillingahönnun. Eftir heimkomu réði ég mig til IKEA í uppsetningum í húsgagnadeildinni. Ég hef unnið mikið við slíka vinnu síðan, setti upp sýningabása fyrir Icelandair og fleiri fyrirtæki. Ég hafði óhemju gaman af þessari skemmtilegu vinnu en allt tekur enda og ég fór yfir í innkauptageirann þangað til við ákváðum að stofna barnafataverslunina.“

Drífa hefur eflt sjálfa sig í gegnum tíðina með því að sækja ótal kúrsa og námskeið, til dæmis í Endurmenntun HÍ.

Magnavita námið

En nú er Drífa að mennta sig fyrir framtíðina þar sem hún er sjálf í fyrirrúmi. Drífa segir að Magnavita námið sé skemmtilega fræðilegt og akademískt. ,,Þarna kemur saman fólk með ólíka reynslu og allir hafa eitthvað fram að færa. Leiðbeinendurnir eru mjög hæfir, með margra ára háskólanám að baki, bæði hér heima og erlendis og miðla af þekkingu sinni. Þarna er komið inn á viðfangsefni sem ég hef ekki mikið spáð í fram að þessu,“ segir Drífa og nefnir heimspeki sem dæmi. ,,Það er svo ótrúlega gaman að ögra sjálfum sér svona. Ég er að læra eitthvað nýtt á hverjum degi.“

Forgangsröðun í lífinu

Drífa segir að eftir því sem hefur liðið á ævina hafi hún lært að forgangsraðað skýrar. ,,Ég lít á Magnavita námið sem fjárfestingu. Þegar við erum komin á þennan aldur, sem ég er á, er enn mikilvægara en áður að forgangsraða. Stéttarfélögin eru líka farin að taka þátt í þessu námi svo þetta er alveg gerlegt. Og þegar tilgangurinn er betra líf er ekki spurning að námið er hverrar krónu virði,“ segir Drífa, hæstánægð með að hafa látið slag standa. ,,Við förum til dæmis í heilsupróf í upphafi og enda námsins. Þá eru færð rök fyrir öllum þáttum og manni sýnt svart á hvítu hvað við þurftum að bæta í líferni. Ég greindist til dæmis með of háan sykurstuðul í öllum þáttum ásamt fleiri í hópnum. Þetta ástand er undanfari sykursýki 2 svo ávinningurinn bara af þeim þætti er ótvíræður. Sykursýki er lífsstílssjúkdómur og eitthvað sem við getum bætt. Við fáum síðan flottar ráðleggingar sem byggjast á rökum og þá er ekki hægt annað en taka mark á.“

Gaf mér nýja sýn á tilveruna

Drífa segir að í Magnavita náminu með henni sé fólk á aldrinum  57 til 72 ára. Námið byggist á lotum þar sem nemendur mæta einu sinni í viku og kennslan fari yfirleitt fram

Drífa prófaði að fara í golfferð og þótti gaman en er ekki viss um að íþróttin muni heltaka sig.

þannig að leiðbeinandi kemur þrjá þriðjudaga í röð. ,,Sem dæmi vorum við á námskeiði sem kallast ,,tilgangur lífsins“ og þar var leiðbeinandi Guðfinna Bjarnadóttir,  ,,heimspeki“ þar sem leiðbeinandi var Haukur Ingi Jónasson og ,,að fjölga heilbrigðum æviárum“ sem Lukka Pálsdóttir stýrði. Síðan er annað sem nefnist ,,hreyfing og líkamleg heilsa“ sem Gauti Grétarsson sér um. Við mætum til Gauta í persónulega greiningu og til að læra æfingar. Fyrir utan þessa mikilvæg þætti er farið í fjármál, erfðamál o.s.frv. Allt námið er tekið mjög markvisst og fyrir mig gaf þetta nám mér nýja sýn á framtíðina.

Ég var hætt að vinna og fann fyrir svolítilli angist yfir því hvað tæki nú við en nú veit ég betur hvernig hægt er að gera þennan tíma sem ánægjulegastan. Það var svo gott sem Guðfinna Bjarnadóttir, ein af stofnendum Magnvita, sagði við okkur í upphafi námsins að manneskja sem nær áttræðisaldri í dag gæti hafa átt 15 ár þar sem henni hefur ekki liðið vel og þar skori lífsstílssjúkdómar mjög hátt. Það geta verið komin stoðkerfisvandamál, barátta við ofþyngd, sykursýki, skortur á D vítamíni og svo framvegis. Guðfinna  sýndi fram á með rökum að það væri hægt að fjölga góðu árunum í lífi fólks umtalsvert. Þá væri að sjálfsögðu reiknað með að við slyppum við alvarlega sjúkdóma. Sextug manneskja gæti hæglega átt 30 frábær ár eftir eins og staðan er í dag. Þessi fyrirlestur Guðfinnu opnaði augu mín rækilega og fyllti mig bjartsýni og gleði og áhyggjurnar sem ég var búin að koma mér upp fuku út í veður og vind,“ segir Drífa og hlær. ,,Og svo þakka ég líka góða heilsu frábærri leikfimi hjá Sóleyju Jóhannsdóttur vinkonu minni. Allt telur og svo er ég mjög meðvituð um að umgangast frekar jákvæðar manneskjur en neikvæðar. Nú lifir fólk lengur og þá skiptir svo miklu máli að þessi ár sem bætast við, séu góð og að við pössum að hafa markmiðin okkar á hreinu. Það er enginn akkur í að lifa lengi ef okkur líður ekki vel. Margir sjötugir eiga foreldra á lífi sem líka þarf að sinna og svo eru barnabörnin. Við viljum helst gera allt fyrir alla og þess vegna vil gera allt sem ég get til að halda starfsþreki og gleði. Magnavita námið er liður í þeirri áætlun minni,“ segir Drífa og horfir nú bjartsýnum augum fram á þriðja aldursskeiðið.

Sólveig Badursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 9, 2023 07:14