Anne Boleyn þótti meðal fegurstu kvenna við bresku hirðina á fyrri helmingi sextándu aldar. Hún var ævinlega glæsilega til fara og leiddi tískuna á þessum tíma. Ef Anne skreytti sig á einhvern hátt eða breytti sniðinu á kjólnum sínum mátti bóka að öll hirðin hafði tekið það upp eftir henni örskömmu síðar. Hún endaði líf sitt undir fallöxinni en enn í dag er hún tískuhönnuðum innblástur.
„Hún átti engan sinn líka í fáguðum klæðaburði og frumleika í að finna upp á nýjum sniðum sem allar fegurðardísir hirðarinnar hermdu eftir en þær töldu hana spegil tískunnar.“ Þetta ritaði Nicholas Sander prestur um Önnu í bók sinni, The Rise and Growth of Anglican Schism sem kom út árið 1573. Hún var sem sé fyrsti áhrifavaldur sem við höfum heimildir um.
Þegar þetta var um hana sagt hafði hún hins vegar verið hálshöggvin af manni sínum fyrir landráð og ýmsar aðrar sakir. Heimilisofbeldi því síst skárra á sextándu öld en nú. En meðan hún fékk að njóta sín og skína, skein hún skært. Anne var að hluta til alin upp í Frakklandi vegna þess að faðir hennar Thomas Boleyn var slyngur diplómat og dvaldi oft langdvölum við frönsku hirðina við samningaviðræður og fleira. Anne lærði þar að vera ekki hrædd við að setja eigin svip á það sem hún klæddist og breyta til ef henni fannst eitthvað klæðilegra. Enn í dag er þetta auðvitað aðalsmerki góðra áhrifavalda, nefnilega að hika ekki við að fara eigin leiðir og mæla ekki með neinu nema vera vissir um að þeir vilji sjálfir nota það.
Margvísleg Tudor-áhrif
En allt er það gott og blessað og væri sennilega ekki til umræða nema vegna þess að tískugúrúar heimsins telja sig sjá áhrif frá Tudor-tímanum á Englandi í tískunni og að þau megi einkum rekja til Anne eða réttara sagt málverka af henni. Nefna má ferköntuð hálsmál, kjóla og peysur úr brókaði (glitofið silki) og breiðar hárspangir til marks um þetta afturhvarf til sextándu aldar. Nú púffermarnar og vatteraðar flíkur eru einnig nokkuð sem þá sást oftar en ekki á göngum Greenwich-hallar.
Cecilie Bahnsen í Kaupmannahöfn er í hópi þeirra hönnuða sem hafa orðið fyrir þessum áhrifum og sömuleiðis Batsheva. Að auki má nefna skartgripi frá Alighieri í augljósum Tudor-stíl og Balenciaga endurgerði beinlínis stafahálsmen sem Anne er með um hálsinn á einu málverki af henni. Pífurnar frá Ganni eru óneitanlega ættaðar þaðan líka. Síðast en ekki síst verður að nefna skreytt, þykk hárbönd frá Simone Rocha og Prada en þar eru endurreisnaráhrifin augljós.
En áður en við skiljum alveg við Anne Boleyn má til gamans telja upp þau efni sem kjólarnir hennar voru gerðir úr, þar á meðal var eftirfarandi, gulbrúnt flauel bryddað með svörtu lambskinni, hvítt damask, satín bryddað hreysikattarskinn, rústrautt hrásilki. Á innkaupalista hennar fyrir sig og dóttur sína voru til dæmis tveir kjólar úr svörtu flaueli og einn úr svörtu damaski, einn úr hvítu satíni með blóðrauðum ermum og kjóll úr fjólubláu líni bryddaður silfurlíningum. Nú svo voru náttkjólar, útsaumaðir úr silki og satíni, þrjár slár til henda yfir sig á leið út bryddaðar með hreysikattarskinni. Og fleira og fleira. En þetta er aðeins fátt eitt af því sem var á lista drottningarinnar frá janúar til apríl 1536. Þær hafa augljóslega ekki verið fatalausar mæðgurnar. Fáir hafa líklega efni á að skreyta sig jafndýrum efnum og hún gerði en það er mögulegt að bæta ýmsum smáatriðum inn í sinn stíl sem minna á ofgnótt þessa tíma.
Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.