Eldra fólkið í dag, stendur sig betur á prófum sem varða minni og hugsun, en áður var. Þetta kemur fram í rannsókn sem var gerð í Tromsö í Noregi. Satt best að segja stendur eldra fólkið sig álíka vel og mun yngra fólk gerði fyrir 20 árum. Þetta kemur fram á vefnum forskning.no. Þar er fjallað um Tromsörannsóknina sem sýnir að þeir sem eru komnir á efri ár í dag, eru klárari í kollinum en fólk á sama aldri var í byrjun þessarar aldar.
Hafa meiri vitsmunalega getu
Rannsóknin var hluti af doktorsverkefni Bente Johnsen læknis sem er á styrk hjá Háskólasjúkrahúsinu í Norður Noregi.
Nýja rannsóknin er byggð á eldri Tromsörannsókn sem hófst árið 1974 og náði til 45 000 manns en hún sýndi að vitsmunaleg geta eldra fólks hefur aukist. „ Prófum til að meta vitsmunalega getu fólks var bætt við í nýju könnuninni“ , upplýsir Bente.
Hún og félagar hennar hafa í rannsóknum sínum skoðað upplýsingar frá 9500 manns á aldrinum 60 til 87 ára. Vitsmunaleg geta fólks var prófuð árið 2001, 2008 og 2015/2016. Rannsóknin náði til fólks sem var fætt á tímabilinu frá 1914 til 1956.
Það kom í ljós að þeir sem voru fæddir á síðari hluta þessa tímabils, stóðu sig betur á prófunum en hinir sem voru fæddir fyrr.
Prófin sem voru gerð
Þeir sem tóku þátt í prófunum fengu fjórar gerðir prófa. Tvö þeirra voru orðapróf. Þáttakandinn átti að fyrst að leggja 12 orð á minnið. Síðan var orðunum blandað saman við 12 ný orð og þá átti fólk að muna þau fyrri 12.
Í þriðja prófinu áttu þáttakendur að tengja tölur og tákn, en þannig próf sýna meðal annars hversu hratt heilinn starfar auk þess sem þau segja til um vinnsluminni heilans og hversu vel áttað fólk er.
Síðasta prófið, svokallað geðhreyfipróf, gekk út á að ýta á hnapp eins fljótt og menn gátu. „Það próf er notað til að meta hversu fljótt heilinn nær að umbreyta skipun í raunverulega hreyfingu“segir Bente í samtali við forskning.no.
Sjötugir standa sig eins og sextugir gerðu áður
Vísindamennirnir sáu það í rannsókninni að þáttakendur sem voru fæddir á síðara hluta tímabilsins (1914-1956), stóðu sig eins og þeir væru tíu árum yngri en þeir eru. Þeir sem voru sjötugir árið 2016 stóðu sig jafn vel og þeir sem voru sextugir árið 2001. Á öðru orðaprófinu var munurinn ekki bara 10 ár, heldur 20.
Hvernig skyldi standa á því að vitsmunaleg geta eldra fólks fer vaxandi? Vísindamenn segja að það séu tengslu milli lífsstíls og vitsmunalegrar getu.
„Það er menntunin sem gerir útslagið. Hún hefur mest áhrif. Fólk er betur menntað en áður“, segir Bente.
Þeir sem voru fæddir seinna voru hávaxnari en fyrirrennarar þeirra og það skilaði sér einnig í aukinni vitsmunalegri getu, sérstaklega meðal karlamnna.
„Líkamshæð hefur mikið verið notuð í rannsóknum og þykir vera til marks um góða heilsu og góða næringu í bernsku“ segir Bente.