Atli Ágústsson var snemma farinn að vinna og hefur alltaf kunnað afskaplega vel við að hafa nóg að gera. Þegar starfslokin nálguðust kveið hann sannarlega ekki fyrir þeim, því áhugamálin voru mörg og hann sá fram á að hafa nægan tíma til að njóta þess að stunda þau. Það æxlaðist hins vegar svo að þótt hann vissulega stundaði sín áhugamál fór hann fljótlega að vinna við þau líka. Hann er í dag vallareftirlitsmaður hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar á sumrin og að auki fararstjóri hjá Icelandair-Víta golfferðir.
Hann féllst á að spjalla við Lifðu núna um golf og hvers vegna það er svona vinsæl íþrótt.
„Mín reynsla er sú að þótt menn hætti að vinna þurfi starfsferillinn ekki endilega að vera búinn né heldur þurfi þeim að leiðast,“ segir hann. „Ég byrjaði í golfi sextíu og fimm ára gamall og fór þá að fara mikið í golfferðir. Ég hætti að vinna tveimur árum síðar. Mér var svo boðið starf sem vallareftirlitsmaður hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar á sumrin, er að vinna þar í fjóra daga og hef svo frí í sex. Það er fín vinna og tengist auðvitað áhugamálinu. Á jóladag árið 2017 átti ég leið niður í ruslageymslu og hitti þar mann sem býr í sama húsi og ég. Hann sagði: „Góðan daginn, Atli, og gleðilega hátíð. Viltu vera fararstjóri hjá mér?“ Ég sagði bara já takk og fór svo upp aftur og hugsaði með mér; hvað var maðurinn að segja? Þetta var þá framkvæmdastjóri Víta golf og hann vissi að ég hafði farið í margar golfferðir og leist einhvern veginn þannig á að ég gæti verið fararstjóri.“
Einhverja strauma hefur Atli greinilega sent frá sér þarna í ruslageymslunni. En hentar golfið fólki á öllum aldri?
„Já, golf er gott bæði andlega og líkamlega fyrir fólk á öllum aldri,“ segir hann. „Ég byrjaði að spila golf með sambýliskonu og barnabarninu mínu, sem þá var þrettán ára, og hann komst alveg á toppinn í íþróttinni. Ég á líka tvo syni sem eru í golfi og í GKG er fjölmennur hópur fólks sem er komið uppundir og yfir áttrætt og mætir á hverjum einasta degi nema þegar allt er á kafi í snjó. Hreyfingin á vellinum er góð fyrir líkamann og það heldur huganum skýrum að spjalla við aðra spilara og þurfa að telja höggin og muna hvað þeir heita og svona.“
Áttatíu vellir í golfhermi
En er hægt að stunda golf hér á Íslandi á veturna? „Já, ef enginn snjór er þá er það hægt. Svo er klúbburinn minn, GKG, með tuttugu og tvo golfherma. Þeir eru alveg frábærir þar er hægt að spila á um áttatíu völlum um allan heim og alltaf gott veður.“
Svo eru auðvitað golfferðirnar sem gefa fólki tækifæri til að flýja myrkur og kulda, endurnærast í góðri hreyfingu og mildu loftslagi.
„Ég byrjaði að starfa sem fararstjóri á Spáni vor og haust 2018 og aftur 2019,“ segir Atli. „Síðastliðin fimm ár hef ég verið á Tenerife og hef verið þar frá september og alveg fram í mars, kem bara heim í jólafrí. Ég tek á móti fólkinu á hótelinu, raða niður í rástíma og ræsi kylfingana út á morgnana og tek á móti þeim þegar þeir eru búnir að spila annað hvort 9 eða 18 holur. Tvisvar í viku skipulegg ég svo ferðir út að borða. Svo er ég auðvitað til staðar ef eitthvað kemur upp á hjá fólki eða það þarf upplýsingar um eitthvað. Í því starfi sem ég er í núna er einn 18 holu völlur í boði og menn ráða hversu lengi þeir dvelja. Það getur verið frá einni viku og upp í átta. Menn spila þá golf annan hvern dag eða á hverjum degi og fara í skoðanaferðir og gera annað þess á milli. Konan mín, Anna Harðardóttir, er með mér og ég kalla hana aðstoðarfararstjóra en hún hefur sama áhuga á golfi og ég.“
Áhugamál Atla eru mörg og hann hefur verið að læra spænsku með hjálp Duolingo. Hann getur orðið lesið nokkuð og bjargað sér aðeins þegar kemur að því að panta á veitingahúsum og slíkt. En hann talar dönsku reiprennandi enda var fjölskylda hans búsett í Danmörku í þrettán ár. Atli fæddist í Hveragerði en flutti ársgamall til Kaupmannahafnar.
„Ég var fararstjóri í hjólaferðum í Danmörku árin 2004 til 2008. Það var hjá dönsku fyrirtæki. Ég tók á móti erlendum ferðamönnum, kenndi þeim á hjólin, hjálpaði þeim með farangurinn og hjólaði svolítið með þeim líka. Fékk þriggja mánaða frí hjá Landsvirkjun og gerði þetta á sumrin. Ég hafði líka þá reynslu af fararstjórn að ég var formaður Landsvirkjunarkórsins í sautján ár og skipulagði þrjár ferðir til Danmerkur með kórinn.“
Tólf ára sendill í Kaupmannahöfn
Hefur þú þá svona gaman af að ferðast? „Já, ég hef gaman af því en aðallega hef ég gaman af golfi og að umgangast fólk,“ segir hann og brosir.
Atli var aðeins tólf ára þegar hann réði sig í sitt fyrsta launaða starf. Hann gerðist þá sendill hjá rakara á Vesterfælledvej í Kaupmannahöfn.
„Starfið fólst í því að fara í sendiferðir fyrir hann alla virka daga, kaupa í matinn, endurnýja happdrætti og bara allt milli himins og jarðar,“ segir hann. „Launin voru ein dönsk króna á dag og til að hafa einhvern samanburð þá var hægt að kaupa fjórar pylsur með brauði fyrir þá upphæð. Ef mörg verkefni voru á dagskrá voru launin hækkuð í tvær krónur. Samhliða þessu starfi var ég sendill í bakaríi á sunnudagsmorgnum og byrjaði klukkan fimm að færa Kaupmannahafnarbúum nýbakað „morgenbröd“ og fyrir þetta þriggja klukkustundastarf voru greiddar fimm danskar krónur.“
Þótt þessar upphæðir séu ekki sérlega háar verður samt að telja nokkuð gott að tólf ára barn sé með mánaðartekjur upp á um það bil fjörutíu og átta danskar krónur. Þegar fjölskyldan fluttist til Vestmannaeyja árið 1959 fór Atli, eins og aðrir Eyjaguttar og -píur að slíta humar í Ísfélaginu og seinna í allskonar fiskvinnslu.
„Ég lenti í miklu einelti í skóla í Vestmannaeyjum vegna þess að ég talaði ekki íslensku,“ segir hann. „Kennararnir tóku líka þátt í því og ég flosnaði þess vegna upp úr námi og fór ekki aftur í skóla fyrr en ég var orðinn tuttugu og þriggja ára því þá fyrst treysti ég mér út af tungumálinu. Snemma fór sjórinn og ævintýramennskan þar að toga í mig. Á þessum árum var ég messagutti, kokkur og hjálparkokkur á ýmsum bátum og farskipum. Um tíma vann ég sem afgreiðslumaður í verslun móðursystur minnar, Ingrid Sigfússon, Brynjúlfsbúð í Vestmannaeyjum. Já og ekki má gleyma því að ég var söngvari og gítarleikari í hljómsveitinni SÓ og Atli í heilt ár þar sem við vorum fastráðnir í Alþýðuhúsinu í Eyjum.“
Þjónn, vélstjóri og vélfræðingur
En ungir menn þurfa og vilja ná sér í menntun og Atli hóf nám í bifvélavirkjun en lauk því ekki, eins og hann segir sjálfur af ótta við íslenskuna í Iðnskólanum. Hann byrjaði að læra til þjóns en hætti, tók meirapróf og fór síðan Vélskóla Íslands og lauk námi árið 1974.
„Að námi loknu var ég vélstjóri á B/V Guðbjarti ÍS í tæp tvö ár en þá fór ég að kenna í Iðnskóla Ísafjarðar og sinnti því starfi í þrjú ár og er það skemmtilegasta starf sem ég hef sinnt. Vegna eftirágreidda skatta varð ég að afla meiri tekna en kennarastarfið bauð upp á og stofnaði því fyrirtæki sem hreinsaði og stillti miðstöðvakatla á Ísafirði og nágrenni. Í sumarleyfum þessi ár leysti ég af sem vélstjóri á skipum Eimskipafélags Íslands og árið 1978 var ég fastráðinn vélstjóri hjá Óskabarni þjóðarinnar. Starfsævinni lauk ég hjá Landsvirkjun, starfaði þar í rúm tuttugu ár sem fyrsti vélfræðingur í Gasaflsstöðinni í Straumsvík.“
Svo kom að því að Atli náði eftirlaunaaldri og hann hætti störfum 1. maí árið 2012.
„Já, þá sá ég fram á að þurfa að skipuleggja líf mitt upp á nýtt,“ segir hann. „Mér fannst tilhugsunin um að hafa nægan tíma til að stunda öll áhugamálin skemmtileg. Að sumri til gæti maður ímyndað sér daginn svona: Vakna að morgni, þegar mér sýnist, borða morgunmat í rólegheitum, lesa blöðin yfir kaffisopa, hjóla á golfvöllinn minn hjá GKG með nýju golf/hjólakerruna og spila a.m.k. 18 holur í góðum félagsskap. Hjóla svo heim og fá mér hádegissnarl og miðdegisblund og fara svo í langa hjólaferð, heimsækja börnin og barnabörnin og enda í Salalauginni, synda smávegis og slaka á í heita pottinum. Elda svo góðan kvöldverð, horfa á sjónvarpið eða æfa mig á gítarinn eða í spænskunni. Þegar hausta tæki hæfist svo kórsöngurinn, dansinn og tungumálakennslan og ég yrði ekki hissa ef ég mundi fara í golfferðir vor og haust til Spánar.
Svona skemmtilegt gæti lífið verið hjá löggiltu gamalmenni ef heilsa og fjárhagur leyfði. Ég átti aldrei von á öðru en að starfsferlinum væri lokið en það er öðru nær,“ segir hann að lokum en tveimur dögum eftir að viðtalið er tekið flýgur hann til Tenerife og mun standa tilbúinn á draumaeyjunni að taka móti nýjum hópi hressra kylfinga frá Íslandi.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.