Sigurður Ágúst Sigurðsson fyrrverandi forstjóri DAS var í dag kjörinn formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, á aðalfundi félagsins sem var haldinn í Gullhömrum. Mikil spenna ríkti fyrir formannskjörið og var fundarsalurinn þéttskipaður. 356 greiddu atkvæði í kjörinu og hlaut Sigurður Ágúst 215 atkvæði eða 60% greiddra atkvæða. Næst flest atkvæði hlaut Sigurbjörg Gísladóttir, sem var varaformaður fráfarandi stjórnar eða 130 atkvæði. Ingibjörg Sverrisdóttir fráfarandi formaður gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Fjórir voru í framboði til formanns, auk Sigurðar Ágústs voru það Bergþór Kjærnested, Sigurbjörg Gísladóttir og Sverrir Kaaber. Þetta fólk hefur allt gegnt margskonar störfum og trúnaðarstöðum um ævina. Á fundinum voru einnig kjörnir þrír aðalmenn í stjórn FEB og jafn margir varamenn. Úrslit stjórnarkjörsins verða birt á heimasíðu FEB þegar þau liggja fyrir.