Bryndís fagnaði níræðisafmæli sínu þann 22. febrúar síðastliðinn en það voru ekki einu tímamótin í lífi hennar um þessar mundir því nýlega fékk hún í hendur þriðju bók sína um íslenska sagnaarfinn. Bækurnar eru skrifaðar fyrir enskumælandi börn en að mati Bryndísar er ekkert því til fyrirstöðu að íslensk börn lesi þær og bæti við kunnáttu í öðru tungumáli en sínu í leiðinni.
Fyrst af öllu finnst henni samt að hún þurfi að koma að skoðun sinni á Lifðu núna og ritstjórnarstefnu miðilsins.
„Ég er mjög ánægð með hvernig þar er talað um þriðja æviskeiðið sem eðlilegan og góðan veruleika,“ segir hún. „Þegar ég var barn fannst mér gamla fólkið oft vera í varnarstöðu. Það var margt eldra fólki í hverfinu og líka í húsinu heima. Þau voru einskis virði lengur í eigin huga og áliti. „Ég er nú bara gamalmenni,“ var viðkvæðið og mér fannst þetta alveg furðulegt. Amma mín sem bjó uppi á lofti hjá okkur var í eðli sínu kát kona en hún tók undir þennan söng. Hún hafði ung tekist á við mikla erfiðleika því að afi missti heilsuna í spænsku veikinni 1918. Amma stóð sig alla tíð afar vel en þegar kom að þriðja ævisleiðinu, ellinni, sagðist hún vera „bara gamalmenni“. Hún var nú svo mikið gamalmenni að þegar hún varð áttræð hélt hún mikla veislu og var fyrsta manneskjan út á gólfið þegar farið var að dansa gömlu dansana! Hún dansaði fram í veislulok á sínum íslenska búningi. Afi og amma bjuggu uppi á lofti í húsinu sem þau áttu með foreldrum mínum. Afi rak svolitla nýlenduvöruverslun í kjallaranum.“
Rótgróin fátækt horfin núna
Bryndís man tímana tvenna og hugurinn leitar stundum til æskuáranna og stundanna í verslun afa á Laugavegi 70.
„Ég man þá sáru og almennu fátækt sem hér var fyrir stríð. Í hverfinu voru margir svo illa staddir að nútíma fólk getur ekki réttilega ímyndað sér það. Þessi mikla og rótgróna fátækt er horfin núna en þá var hún alls staðar og í öllu. Þá var allt vigtað upp úr pokum í búðinni, kannski 100 g af hveiti og jafnvel 50 g af sykri og allt var þetta skrifað. Ég veit eftir að ég varð fullorðin og fór að tala um þetta við foreldra mína að mikið af þessum reikningum var aldrei innheimt. Afi henti þeim.
Þessar blessuðu konur komu stundum lemstraðar í búðina til afa eftir barsmíðar heima -það var svo mikil drykkja á mörgum heimilum. Fátækt og vonleysi fylgir oft drykkju. Ég stóð oft úti horni, hlustaði á konurnar tala við afa og velti fyrir mér af hverju þetta væri svona hjá þessum konum, allt væri öðruvísi hjá þessu fólki en hjá okkur, aldrei var pabbi minn að drekka brennivín eða lemja fólk. Afi hlustaði á konurnar og sagði svo: „Viltu ekki ganga upp til hennar Þórönnu og fá þér kaffisopa?“ Mér finnst fallegt að hugsa um það að þessi hjón sem voru í raun bláfátæk áttu samt eitthvað aflögu fyrir aðra, töldu sig vera aflögufær.“
Í hverfinu voru margar fiskbúðir og fiskur var daglegur kostur flestra fjölskyldna. Bryndís man vel eftir að hafa verið send til að kaupa í soðið.
„Ég fór með tvær krónur í fiskbúðina og vír var þræddur í gegnum augun á fiskinum og hann var svo stór að sporðurinn dróst við jörðina þegar ég gekk heim. Svo var maður með sár í lófanum eftir vírinn. Amma var mikil driffjöður og öflugur liðsmaður afa en hún bar ekki virðingu fyrir sjálfri sér eftir að hún var orðin gömul kona. Ég bendi yngra fólki stundum á vísu úr Hávamálum þar sem segir að fólk sé ekki ónýtt þótt það sé stundum lasið.
„er-at mður alls vesall
þótt hann sé illa heill““
Hávamál v. 69
Í hópi þeirra virkustu
Viðmælandi okkar er svo sannarlega í þeim hópi sem er virkur og glaður og telur sína rödd skipta máli.
„Ég geri mikið af því að prjóna, hanna sjálf og prjóna svo!“ segir hún. „Ég hef mikla ánægju af þessum samskiptum við garn og liti. Við mig hafði samband kona vestur í Bandaríkjunum. Hún heitir Sunna Furstenau og er stofnandi og driffjöður í samtökunum Icelandic Roots. Þetta er ættfræðivefur en einnig fer mikil fræðsla fram á þeirra vegum. Á nánast hverjum degi er möguleiki á einhvers konar rafrænum fræðslufundi (á Zoom.) Sunna vissi að ég væri kennari og spurði mig hvort ég gæti ekki komið með einhverja fræðslu til þeirra. Ég taldi það alveg möguleika og hef sagt þeim ýmislegt úr Íslendingasögunum, rakið fyrir þau sögur fólks, viðhorf þess og viðbrögð sem oft voru miskunnarlaus og hvernig við sem þjóð fegruðum umhverfi okkar og aðstæður með því að búa til huldufólk og álfa. Í kringum okkur var eitthvað gott og fallegt þótt við skriðum inn í moldarhús. Í hólnum við hliðina á torfhúsi okkar voru híbýli huldufólks. Þar var ljós, nægur og góður matur, söngur og dans. Ég held að þessar sögur hafi hjálpað okkur.
Fólkið sem ég var að spjalla við í fræðsluþáttunum var flest allt afkomendur fólk sem fluttist vestur til Norður Ameríku og kom úr torfbæjunum okkar. Ég var spurð mikið um torfhúsin. Þegar ég var barn var ég mörg, dásamleg sumur í sveit á Lækjarbotnum í Landsveit á Rangárvöllum. Búskaparhættir allir voru afar fornir og lífsvenjur heimilisfólksins sömuleiðis. Allt var eldað á hlóðum, skán var notuð á eldinn og stóðu stabbar af skán í hlóðaeldhúsinu. Þrír fullorðir synir voru á heimilinu og röltu þeir snemma á morgnana út á engjar ásamt með föður sínum og fóru að berja þúfnakollana. Þeir komu heim um tíuleytið og fengu þá hræring og súrt slátur. Aftur var rölt úr á engjar. Klukkan þrjú komu þeir heim aftur og nú var dóttirin á bænum, ung stúlka með í hópnum. Hún sá um að mjólka kýrnar sem voru fjórar talsins, vinna úr mjólkinni og gera það annað heima við sem móðir hennar þurfti hjálp við áður en hún fór svo út á teig. Þegar heim var komið fékk fólkið matinn, sem alltaf var saltfiskur, kallaður soðning, Með fiskinum borðaði fólkið rúgbrauð sem húsmóðirin seiddi yfir nótt í glóðinni á hlóðunum. Með saltfiskinum borðaði fólkið bræðing, sem var hrossafeiti ásamt annarri feiti sem til féll á bænum. Þegar fólkið kom heim um níuleytið á kvöldin fékk það hræring og súrt slátur með nýmjólk útá. Aldrei heyrði ég óskir um einhverja tilbreytingu í mat.
Hvergi á minni löngu ævi hefur mér liðið eins vel og hjá fólkinu á Lækjarbotnum. Þau nálguðust barnið af mikilli hlýju og virðingu. Sú fyrirmynd og það uppeldi sem ég fékk hjá þessu góða fólki hefur reynst mér betri skóli en allar bækurnar sem ég hef lesið um uppeldismál.Ég sagði áður að Vestur-Íslendingana sem ég var að fræða langaði marga að vita hvernig var að búa í torfbæjum eins of afar þeirra og ömmur höfðu gert. Það var gaman að segja þeim frá torfbænum. Framhaldið var svo að þau báðu mig að skrifa eitthvað sem þau gætu lesið fyrir barnabörnum og gefið þeim til að lesa.“
Þriðja bókin komin út
Og Bryndís var við óskum þeirra og byrjaði að skrifa barnabækur á ensku.
„Ég byrjaði á að skrifa bók um Guðríði Þorbjarnardóttur sem sigldi vestur um haf með manni sínum, Þorfinni karlsefni og þau voru þrjú ár á Vínlandi hinu góða. Sunna hafði samband við listakonu af íslenskum ættum, Gay Strandemo og spurði hana hvort hún myndi vilja myndskreyta bókina og kannski fleiri bækur tengdar Íslandi. Með okkur tókst góð og gefandi samvinna þegar hún vann að myndskreytingu bókanna þriggja, því að þrjár urðu þær. Maður Gay, Tracy Will reyndist vera bókaútgefandi og tók hann að sér að annast prentverkið og það annað sem fylgir bókaútgáfu í Bandaríjuum. Öll er þessi vinna þeirra í sjálfboðavinnu- af því að forfeður Gay komu frá Íslandi, segir hún og Tracy er kvæntur konu af íslenskum ættum og vildi því leggja verkefninu lið.
Maðurinn minn var fæddur og uppalinn í afskekktum dal vestur á fjörðum þar sem búskaparhættir voru fornir. Ég fór að spyrja hann í þaula um daglega lífið fyrir vestan og smám saman fékk ég góða mynd af athöfnum barna og fullorðinna þar. Þessar sögur skrifaði ég og kallaði þær Mundi the Boy from the West-Fjords of Iceland og komu þær út á bók.
Mér hefur alveg ofboðið hvernig Hollywood fer með Þór. Hann er hafður öskrandi ofstopapersóna og alltaf með morðvopnið á lofti. Ég setti því saman bók um Þór og legg í henni áherslu á að hann var verndari alls lífs á jörðinni. Faðir hans, Óðinn, fékk honum þetta verkefni og svo var hann sonur Jarðar og hún kenndi honum að yrkja jörðina og ganga um hana í friði. En hann hafði líka þá skyldu að verja Ásgarð og ef jötnarnir réðust þar inn átti hann að taka á móti þeim. Það er mikill munur á því að vera argandi á allt og alla eða verja sig þegar á mann er ráðist. Samtökin Icelandic Roots hafa séð um að greiða þann kostnað við útgáfuna sem ekki verður hjá komist en vinna mín og vinna hjónanna Gay og Tracy er sjálfboðavinna. Verði einhver ágóði af þessum bókum fer hann í skólastyrki. Sjálf fékk ég þrisvar sinnum styrk til að fara til náms í Bandaríkjunum og er mjög ánægð að geta lagt ungu fólki í námi lið.“
Mikils virði að þekkja ræturnar
Bækurnar eru Bryndísi mikilvægar ekki bara vegna þess að hún getur með þessu móti komið til skila fræðslu til fólks af íslenskum uppruna í Bandaríkjunum.
„Ég held að það sé afar mikils virði að hafa tengingu við fortíðina, að fólk sé ekki einhvern veginn rótlaust þar sem það er statt, að það átti sig á að það kemur úr einhverjum jarðvegi. Við erum summan af öllum genunum sem við fengum frá forfeðrum okkar og þess vegna er gott að átta sig á hvernig lífið var hjá forfeðrum og mæðrum okkar. Sumir líffræðingar eru að velta fyrir sér í mikilli alvöru hvort reynsla forfeðranna setjist að í okkur að einhverju leyti,“ segir hún.
Það er vitað að áfallasagan geymist og erfist áfram en Bryndís bendir á að lífið sé meira en áföll.
„Mér finnst þetta hrífandi hugsun,“ segir hún. „Þess vegna finnst mér ættfræðin mjög áhugaverð og á ættfræðivef Icelandic Roots er að finna miklu meira en ættartölunar. Hvar fæddist forfaðir minn? Hvað gerði hann? Hverjum kvænist hann og við hvað vann hann? Þar er langur hali af frásögnum um lífshlaup fjölmargra og þetta finnst mér verðugt efni til athugunar. Þess vegna er ég fús að leggja fram sjálfboðavinnu í verkefnið. Þó að vinnan sé að mestu unnin í Ameríku höfum við á þessu litla skeri gott af henni líka. Í þeim anda er ég ekki hikandi við að bjóða þessar bækur til sölu líka í Eymundsson.
Flest börn á Íslandi nú til dags eru í mjög ágengu umhverfi enskunnar. Þau horfa á myndir og leiki í sjónvarpi og síma og hlusta mörg tímunum saman á ensku. Á þessum miðlum fá þau líklega ekki mikið af samfelldu, vönduðu máli og því er verr. Þau þurfa líka að lesa sögur á samfelldu, eðlilegu máli til að læra eðlilegt tungumál. Það er mér mikið hjartans mál að koma því til skila til ungra foreldra að lestrarkennslan byrjar við vögguna. Hún byrjar þegar raulað er fyrir barnið, lesið fyrir það og talað við það í samfelldu máli, strax og barnið er komið til okkar. Fyrst eru þetta bara notaleg hljóð fyrir barnið en áður en það veit af fara hljóðin að merkja eitthvað og svo raðast saman orð, barnið er að öðlast málskilning! Málskilningurinn ergrunnurinn að lestrarnámi og ánægju af því að lesa. Kæru foreldrar, lestrarkennslan hefst ekki þegar börnin okkar eru sex ára. Hún hefst við vögguna.“
Kennslan hugsjón og ástríða
Alla sína starfsævi sinnti Bryndís kennslu og fræðsla er henni hugsjón og ástríða. Hún fór í kennaranám eftir stúdentspróf og lauk því á einu ári. Hún segir að sumir hafi haft efasemdir um að hægt væri að kenna kennslufræði á svo stuttum tíma.
„Þar er ég alveg sammála. Ég fór beint úr menntaskólanum í kennaranám. Þá var deild við Kennaraskólann og námið tók eitt ár. Karlarnir sem kenndu við skólann voru ekki kátir með þessa tilhögun, sögðu okkur að við gætum aldrei orðið kennarar eftir bara eitt ár í þeirra umsjá en það komu samt margir ágætir kennarar úr þessum hópi. Ég byrjaði að kenna hérna heima en fann mjög greinilega fyrir því hvað ég vissi lítið og fór út að leita að þekkingu. Ég bjó í níu ár í Bandaríkjunum og var bæði að læra og kenna Þó er það ekki svo að ég hafi fengið svör við öllu, nema síður sé.“
Starfsævin var fjölbreytt. Bryndís kenndi við grunnskóla í Reykjavík og í Garðabæ, var níu ár í Bandaríkjunum við nám og kennslu og síðustu starsfsárin (1976-97) skólastjóri Þroskaþjálfaskóla Íslands. Auk þessa vann hún einnig að menntamálum á alþjóðavettvangi einkum hvað sneri að kennslu og þjálfun fjölfatlaðra. Bryndís hlaut íslensku fálkaorðuna fyrir framlag sitt til menntamála fatlaðra árið 1989 og gullmerki Skólameistarafélags Íslands árið 2001.
Er að uppskera afrakstur samverunnar
Eftir að starfsævinni lauk flutti Bryndís tímabundið austur á Hornafjörð og bjó þar með syni sínum og tengdadóttur er þar bjuggu með sístækkandi fjölskyldu. En jafnvel þar gat hún ekki verið iðjulaus og bauð upp á enskunám fyrir þá sem hefðu áhuga.
„Fólkið var sívinnandi, segir hún en kom samt, jafnvel beint úr róðri! Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt” segir hún og ljómar í framan.
En það voru ekki bara Hornfirðingar í leit að aukinni tungumálakunnáttu sem Bryndís kynntist vel á þessum árum. Hún bjó inni á heimili sonar síns og tengdadóttur og býr nú í sama húsi og þau. Það er innangengt milli íbúðanna og samgangur er mikill.
„Drengirnir þeirra eru nú orðnir ungir menn og við eigum margar góðar stundir saman,“ segir hún. „Við hugsum líklega ekki um það þegar börnin eru lítil hvað þau taka inn af því sem við fullorðna fólkið erum að gera með þeim. Ég vildi að fólk staldraði aðeins við og gæfi því gaum. Það skiptir máli hvað maður segir, með hvaða tón, hvernig maður horfir á börnin og segir þeim til – þetta sest að í þeim. Er uppeldi okkar tilsögn, leiðsögn eða óttastjórnun? Öll hegðun okkar við börnin okkar skiptir máli. Það er mikil hamingja fyrir eina alda ömmu að fá að sjá börnin sín og barnabörnin vaxa upp og vera vænar manneskjur. “
Hundurinn vitjar hennar þegar hjartað minnir á sig
En þótt hún líti stundum til baka er hún ekki að dvelja um of við fortíðina. Hún hefur nóg að gera alla daga.
„Ég hafði mjög gaman af að ferðast,“ segir hún. „En svo fékk ég hjartasjúkdóm og þarf að taka tilliti til hans. Góður læknir fylgist með mér og ég hitti hann reglulega. Hann ráðleggur mér af sinni reynslu að fara ekki í flug. Ég fer auðvitað eftir því vegna þess að mig langar að vera hér miklu, miklu lengur.“
Hún fær reyndar hjálp víðar að því annar hundur heimilisfólksins á efri hæðinni virðist finna á sér ef Bryndísi líður illa. Aftur og aftur hefur það komið fyrir að hundurinn kemur til hennar þegar hjartað lætur finna fyrir sér.
„Einu sinni kom hann um miðja nótt,“ segir hún. „Mér leið illa og vaknaði og fann þá að Logi minn var hjá mér og rak í mig trýnið. Hann sefur venjulega inni hjá húsbændunum uppi en einhverra hluta vaknaði hann og kom niður til mín. Við getum ekki skýrt þetta en það gerist aftur og aftur að hann kemur og snertir mig með loppunni þegar hjartað í mér lætur vita af sér.“
Bryndís segist ekki vera hætt að ferðast- á sinn hátt. Hún heimsækir reglulega staði í huganum. Ungur langömmudrengur hafði áhyggjur af því að kannski leiddist langömmu að vera alltaf bara heima. Honum til mikillar undrunar benti hún honum á minjagripi úr ferðalögum fyrri ára uppi á hillu og sagði honum að með þeirra hjálp færi hún hvenær sem hana lysti aftur á þá ævintýrastaði þar sem þeir voru keyptir. Bryndís nýtur þess enn að miðla hugmyndum og lausnum, gefa fólki innblástur og uppörvun, vitnar í Íslandsklukkuna eftir Halldór Laxness og segir: „Á hverju luma ekki vorar göfugu kellingar?“ Og brosir glaðlega.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.