Ásta Steingerður Geirsdóttir skilur lítið í jafnöldrum sínum sem sestir eru í helgan stein, nema ef um heilsubrest sé að ræða. Hún þurfti að hætta að vinna fyrr en hún ætlaði af heilsufarsástæðum en er á leið út á vinnumarkaðinn aftur sjötíu og eins árs. Rætur hennar liggja á Borgarfirði eystra og þangað kemur hún alltaf á sumrin og vinnur við skálavörslu á Víknaslóðum. Þess á milli býr Ásta í Danmörku og á Spáni.
Ásta átti lengi athvarf á æskuheimili sínu Steinholti í Bakkagerði á Borgarfirði eystra. Hún bjó þar meðan Covid-faraldurinn gekk yfir heiminn og þá fór að mála.
„Ég er á leið til Íslands í sumar og Spánar núna,“ segir hún. „Það er ekkert að ástæðulausu að mér var gefin mynd af fiðrildi í afmælisgjöf. Ég er flökkukind. En þegar kórónaveiran var að grassera var ég heima í Steinholti og ílengdist þar ásamt syni mínum og elsta barnabarni. Við bjuggum þarna á mínu bernskuheimili næstu tvö árin. Þessi kórónuveira gerði mér gott að mörgu leyti, ég fór að mála. Ég byrjaði að mála á gler, en ég hafði gert það áður, svo varð ég leið á því og fór að bera í bakpoka grjót úr fjörunni heima og málaði á það. Fór svo einhvern tíma suður og lenti inni í Söstrene Grene og sá þar akrýlliti og striga og hugsaði með mér; ég kaupi bara eitthvað af þessu.
Keypti litlar trönur, einhverja liti og fleira fór svo inn á Youtube og fann þar dásamlegan listamann sem ég hef verið að skoða síðan. Ég reyndi að læra af honum og ég hélt málverkasýningu á Borgarfirði árið 2022 ásamt kunningjakonu minni sem er þaðan líka. Ég hef aldrei lært neitt í myndlist. Ég veit ekkert hvernig á að blanda liti eða gera nokkurn skapaðan hlut. Þetta bara kemur þegar það kemur. Ég er ekki að mála eftir myndum eða landslagi, en að s.s. koma hugmyndirnar þaðan og héðan.“
Síminn að taka yfir af myndavélinni
Það er ekki eina listsýningin sem Ásta hefur haldið, því hún er áhugaljósmyndari og hefur tekið mikið af myndum á göngu sinni um náttúru Íslands. Hún fann að hana langaði að sýna afraksturinn af vinnu sinni en þá hafði hún unnið markvisst að því að ná tökum á ljósmyndatækninni. Sýningin á ljósmyndum hennar fór víða.
„Ég var búin að vera með þetta í maganum alveg gríðarlega lengi. Svo einhvern tíma hugsaði ég með mér: Ef þú gerir þetta ekki núna, gerir þú það aldrei og þú átt alltaf eftir að sjá eftir því að hafa ekki látið verða af því. Ég átti smásjóð og eyddi honum nánast öllum í þetta verkefni. Þetta voru tíu myndir 40×60 prentaðar á striga, nokkar trxtil og einnig nokkrar á foam. Ég hef svolítið verið að mynda þetta smáa í fjörunni og átti mér leynifjöru. Myndirnar á sýningunni voru allar teknar í henni. Það skapast sérstæðar aðstæður þegar bergvatn seytlar í gegnum hraun og út í sand. Þá verða til svo skemmtilegar myndir, sem næsta flóð þvær síðan í burtu. Ég sýndi á kaffihúsi við Hlemm, Súfistanum í Hafnarfirði, uppi í Firði, á Bláu könnunni og Amtbókasafninu á Akureyri, einnig á Egilsstöðum og lengi hengu uppi í Álfakaffi á Borgarfirði nokkrar myndir.
Nú segist Ásta mikið til vera búin að leggja myndavélunum. „Ég segi bara „helvítis síminn“ er með svo góða myndavél að maður getur náð með macro svo ofboðslega góðum nærmyndum. Það er nánast hægt að fara inn í krónur blómanna. Ég er rosalega mikill nörd með þetta pínulitla og smáa sem fáir taka eftir. Ég ligg kannski alveg ofan í sverðinum til að ná mynd. Það sem er svo pínuponsulítið kemur síðan svo skýrt, þegar linsan er næm, myndavélalinsurnar mínar náðu þessu ekki.“
Er síminn þá orðið þitt helsta ljósmyndatæki? „Já, en mér finnst það samt svolítið leiðinlegt. Mér finnst það ekki nógu fagmannlegt svo ég hafi nú pínulitla fordóma.“
Tók fyrstu myndirnar á kassamyndavél.
Hvenær kviknaði áhuginn á ljósmyndun? „Ég held ég geti sagt nákvæmlega hvenær það var,“ segir hún. „Ætli það hafi ekki verið þegar ég var tólf ára. Þá byrjaði ég að taka myndir á gamla kassamyndavél sem mamma átti. Hún var með tréspólum og filmur í slíkt varð að panta sunnan úr Reykjavík. Hún var orðin svo léleg að ekki var hægt að snúa takkanum til að færa filmuna, þá var notuð töng. En það var hægt að taka portrait og landscape með því að snúa vélinni. Svona vélum hélt maður niður við mitti og horfði í gluggann. Hún lenti á minjasafninu á Egilsstöðum. Ég kom henni þangað svo hún myndi ekki týnast. Þnnig byrjaði þetta nú, seinna fékk ég Kodak Instamatic, þessa með flasskubbunum ofan á. Síðan breyttist tæknin og sífellt komu nýjungar.“
Ásta Steingerður er með gigtarsjúkdóm og því á hlýrra loftslag betur við hana en kuldinn hér á Íslandi. Hún sagði upp íbúðinni sinni 2018 gekk frá búslóðinni og endaði í Danmörku. Ertu með vetursetu í Danmörku eða ertu til skiptist í Danmörku og á Spáni?
„Ég er svo flókin að það er erfitt að útskýra þetta,“ segir hún og hlær. „Þegar ég flutti frá Íslandi ætlaði ég til Spánar, en þegar ég var búin að ganga frá allri búslóðinni, til áratuga, hafði ég bara ekki orku í meira og endaði í Danmörku. Danski veturinn fer ekki vel í skrokkinn á mér og það kostar að vera á svona miklu flakki. Ég var þar í tvö ár en setti svo allt heila klabbið í geymslu og fór til Spánar. Eftir mánaðardvöl þar gekk í gildi útgöngubann, því coronaveiran var farin að geysa. Ég hafði góða aðstöðu og var áfram í nokkra mánuði, eða þar til komið var sumar á Íslandi. Það var svo í nóvember 2022 að ég endaði aftur í Danaveldi. Íbúðin sem ég leigi hér núna er risastór, fyrir eina manneskju en ég borga fyrir hana svipað og ég myndi greiða fyrir herbergi með aðgangi að eldhúsi í Reykjavík. Ég sem lífeyrisþegi á ekki mikla möguleika heima vegna þess að ég á ekki íbúð og leiguverðið er eins og það er.
Sonur minn er búinn að taka yfir bernskuheimili mitt svo ég á ekki lengur það skjól sem það var, en finnst ég þurfi að eiga eitthvert athvarf á Íslandi og er nú nánast búin að ganga frá slíku. Mér finnst að svo margt sem var á mínu bernskuheimili hafi ekkert til útlanda að gera. Ýmsir munir og ýmislegt sem á bara að vera á Íslandi og mér finnst líka gott að geta komið til landsins á hvaða árstíma sem er, eins og að vetri til, vera á skíðum og svona, komið á þorrablót, vera jól og áramót. Ég tala nú ekki um bjartasta tímann, honum verður ekki sleppt. Að eiga vissan stað sem ég get gengið að, þurfa ekki að vera uppá aðra komin væri gott. En svo verð ég bara að vera suður við Miðjarðarhaf þess á milli.
Gleðin meiri í sólinni
Er það þá hitinn sem þú sækir í til að mýkja vöðvana?
„Já og menningin líka.“ segir hún. „Fólk er bara miklu glaðara. Stundum þegar ég kem heim til Íslands eftir margra mánaða dvöl þarna niðurfrá finnast mér allir svo þungir og daprir. Mér finnst mikill munur þarna á. Sólin er að s.s. mun meira ríkjandi þarna og maður verður glaðari þegar sólin skín. Ég sé meira að segja mikinn mun milli Íslands og Danmerkur, einkum hvað eldri borgara varðar að þessu leyti. Í þessum bæ sem ég bý er ég tíu mínútur að hjóla út í náttúruna og niður að sjó. Mér finnst ég eiginlega frekar vera í sveit en bæ. Það er mikill plús að hafa þetta allt í seilingarfjarlægð. Þetta er bær á stærð við Akureyri eða Hafnarfjörð. Það er ofboðslega gott að búa hérna. Mig vantar bara félagslegu tengslin, þau bara skipta svo miklu máli. Það er alltaf erfiðara að mynda tengsl þegar maður er orðin fullorðin og eftir að fjölskyldan mín, sem hér var flutti, þá leiðist mér. Það gengur náttúrlega alls ekki, það slítur mig burtu héðan.
Svo nenni ég bara ekki að læra meiri dönsku. Þetta er frekar óaðlaðandi tungumál, sem mér þykir samt vænt um. Auk þess nær maður aldrei þessum kontakti sem maður vill hafa, á öðru en eigin móðurmáli. Ég er að verða sjötíu og eins árs og langar að vera í meiri tengslum við landa mína. Þess vegna ætla ég að reyna að skipta þessu, með veru á Íslandi og Spáni. Þar sem ég hef lengst verið þarna syðra er t.d. íslenskt félagsheimili og eitthvað um að vera allan ársins hring. Það eru þorrablót, góugleði, aðventukvöld, danskennsla, kennt að mála ásamt mörgu, mörgu fleiru og alltaf verið að fara í ferðalög. Þar hittir maður landa sína. Hérna fer ég bara í bingó með fólki sem ég þekki lítið og ekki er nú mikið skrafað þegar verið er að spila.“
Ásta hefur verið við skálavörslu á Víknaslóðum á sumrin. Ertu hætt því?
„Nei, alls ekki. Ég fer þangað á hverju einasta ári. Í ár verð ég í Húsavík. Yngsta barnabarnið mitt sem er sjö ára er að fara með í fimmta skiptið, hún var mjög ung, á þriðja ári, þegar hún fór fyrst. Hún býr í Reykjavík og hún bara elskar þetta og getur varla beðið. Hún er sko aðstoðarskálavörður. Hún er svo mikið náttúrubarn og svo ómetanlegt að geta farið með hana í burtu frá borgarlífinu. Í sumar kemur hún með sína eigin myndavél og ætlar að reyna sig í að taka myndir á hana í Húsavík, hún hefur nefnilega auga fyrir þessu smáa, sú stutta. Það þykir mér dásamlegt.
Hún hefur líka komið til mín þegar ég hef verið í Steinholti undangengin ár. Þá er mikið brallað og sagðar sögur. Ég spinn upp sögu fyrir hana og nú gerir hún slíkt fyrir mig. Þetta allt er líka svo gott fyrir mig. Að geta farið út að leika mér….í snjónum eða í fjörunni. Hvað getur maður beðið um betra. Núna erum við að skrifast á. Ég ákvað að kenna henni slík samskipti, gerði svo mikið í að nasa uppi myndskreytt bréfsefni, vax og signet. Hún hefur líka fengið slíkt.
Ég myndi ekki vilja missa af því að fara á Víknaslóðir. Þar fæ ég alltaf dásamlega frelsistilfinningu.“
Verður alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni
Hún hefur alla tíð gengið mikið á fjöll. Er það eitthvað sem verður haldið áfram í sumar?
„Ég hef að vísu ekki verið nógu góð til slíks í nokkur ár en ég er að koma til og búin að ráða mig í vinnu á Borgarfirði í sumar. Ég datt út af vinnumarkaði mun fyrr en ég hefði viljað, af heilsufarsástæðum, var byrjuð að vinna fyrir nokkrum árum en þá henti mig óhapp. En, nú er ég komin á gott ról og ætla að fara að vinna eitthvað aftur. Ég er ekki búin að fá húsnæði, en á von að úr rætist. Ég ætla nú samt, til vonar og vara að taka með mér braggatjaldið mitt og verið getur að ég búi bara í því í sumar. Verður maður ekki alltaf að reyna að hafa lífið svolítið spennandi og skemmtilegt. Eins gott að viðri vel ef svo fer“
Það er ekki hægt að segja að það sé lognmolla í kringum þig eða að þú sért farin að hugsa til þess að setjast í helgan stein?
„Nei, nei, nei, ég þarf alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Ef lognmolla ríkir dett ég bara niður. Ég verð alltaf að hafa einhverja gulrót sem ég get hoppað á, eitthvað sem ég ætla að gera og get hlakkað til. Eftir að ég hætti að vinna myndaðist mjög leiðinlegt tómarúm hjá mér. Ég hef oft ætlað að koma mér upp rosalega góðri rútínu og fara að gera allt eftir skipulagi, en það verður einhvern veginn aldrei neitt úr því. Fyrr en varir er allt farið út og suður. Ég held að það sé einhver upplifun hjá manni að finnast maður þurfa að þjóna einhverjum tilgangi.
Ég er með marga drauma í maganum. Mig langar að gefa út bók en veit ekkert hvernig ég á að fara að því. Ég er með ljóð og sögur. Það er ég búin að hugsa um í ótal mörg ár. Ég bíð alltaf eftir að einhver hringi í mig og segi: „Varst það ekki þú sem varst með efni í bók ?“ Grín! Auk þess veit ég ekkert betra en að hreyfa mig, fá til dæmis útrás í dansa. Ég gæti ekki verið án þess að tvista og tjútta. Það er staður á Spáni sem ég fer alltaf á til að dansa. Þar er fólk tjúttandi fram á grafarbakkann. Ég man eftir mér sex, sjö ára dansandi á eldhúsgólfinu í Steinholti, það var eins og frímerki að stærð, en dugði vel. Það var nú líka dansað inn í litla herbergið þar innaf ef pörin voru kannski tvö….eða þrjú.
Á laugardagskvöldum voru alltaf danslög í útvarpinu, þá var slegið upp balli, ég dansaði við mömmu og systur mínar og alltaf sem herra. Þegar ég komst á unglingsár og átti að fara að dansa eins og kona var það erfiðleikum bundið, nema þegar við stelpurnar dönsuðum saman ef vantaði herra og viti menn, þetta háir mér enn í dag,“ segir Ásta að lokum
Á facebook síðunni Gallery Steinholt – Ásta Steingerður er hægt að sjá þær myndir sem Ásta hefur málað síðastliðin fjögur ár.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.