Kannski eiga ekki allir minningar um að hlusta á fullorðna fólkið tala um drauga og yfirskilvitlega atburði í felum undir eldhúsborðinu. Enn man ég hrollinn sem stundum hríslaðist niður eftir bakinu á manni og hvað það var erfitt að ganga um í mykri lengi á eftir. Mandla eftir Hildi Knútsdóttur vekur einmitt sömu tilfinningar. Þetta er sérlega haganlega smíðuð bók, vel uppbyggð og spennandi.
Eva er öldrunarlæknir og tiltölulega nýflutt aftur heim til Íslands eftir búsetu í Kaupmannahöfn. Dag nokkurn tekur hún eftir horuðum flækingsketti fyrir utan gluggann á herbergi eins heimilismannsins á hjúkrunarheimilinu sem hún starfar á. Gamli maðurinn biður hana að opna glugga og hleypa dýrinu inn. Og þar með gerir kisi sig heimakominn og hann fær nafnið Mandla. Kisi er í fyrstu horaður en tekur svo að fitna en enginn sér hann nokkru sinni borða. Auk þess viðist hann hafa spádómsgáfu því hvenær sem hann heimsækir vistmann líður ekki á löngu þar til sá deyr.
Af einhverjum ástæðum hafa kettir náð að skapa sér mikla sérstöðu í hugum manna. Meðan hundar hafa orð á sér fyrir að vera vinalegir og tryggir eiga kisur að hafa alls konar öfl á valdi sínu. Þeir svörtu geta skotist yfir veg og spáð þér hörmungum og dauða og þeir eru sérlegir félagar galdranorna. Í þessari bók er köttur í mjög svo skuggalegu hlutverki. Er það tilviljun að kisi veit hvenær einhver er dauðvona eða hefur hann vald yfir lífi og dauða? Þeirri spurningu er ekki svarað í bókinni og heldur ekki ýmsum öðrum um fortíð Evu læknis. Endirinn er mjög óvæntur og lesandinn hefði gjarnan viljað vita meira. Hildi tekst hér sérlega vel að skapa spennu í litlum hlutum og atvikum og í raun draga upp heildstæða og mjög raunhæfa mynd af fólki og aðstæðum á fáum blaðsíðum. Þetta er mjög góð bók og gaman að lesa hana.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.