Þegar kemur að starfslokum nýta margir tækifærið og ferðast víðar og oftar en þeir hafa gert áður. Það er nærandi og skemmtilegt að uppgötva ný lönd, fallega staði og spennandi menningu en vissulega dýrt. Eitt af því sem getur borgað sig að skoða er hvort stofnanir, fyrirtæki og þjónustuaðilar bjóði upp eldri borgara afslátt.
Í mörgum Evrópulöndum fær fólk sextíu ára og eldra 10% afslátt af fargjaldi almenningssamgöngutækja. Hið sama gildir um aðgangseyri að söfnum, vinsælum ferðamannastöðum, sundstöðum og í sumum tilfellum íþróttamannvirkjum. Á Ítalíu á þetta þó eingöngu við um íbúa frá löndum Evrópusambandsins. Á Spáni fá eldri borgarar, bæði þarlendir og erlendir, einnig afslátt af aðgangseyri að söfnum og almenningssundlaugum. Í sumum tilfellum er einnig hægt að fá afslátt þar í landi af innlandsflugi, gistingu og skoðunarferðum framvísi menn skilríkjum því til sönnunar að þeir hafi náð tilskildum aldri.
Sum félög eldri borgara gert millilandasamninga um afslætti hjá ýmsum fyrirtækjum og félagar í slíkum samtökum hér á landi ættu að athuga áður en þeir halda af stað hvort það eigi við um þeirra félag. Að öðru leyti eru afslættir til eldri borgara háðir samningum fyrirtækja og geðþótta eigenda þeirra. Hins vegar er sjálfsagt að spyrja á ferðalögum úti í heimi þegar menn ákveða að heimsækja staði þar sem slíkir afslættir eru hugsanlega veittir.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.