Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
Þegar ég ferðast með Bandaríkjamenn um fallega landið okkar eru tvö umræðuefni efst á baugi. Annars vegar er það samanburður á þeim löndum sem þeir hafa heimsótt. Sumir eru með allt upp í 30 lönd á listanum. Baðherbergin á Íslandi eru hitt umræðuefnið. Sérstaklega eru það sturturnar sem vekja athygli. Tókst að skrúfa frá heita vatninu? Hvernig virkjar maður sturtuhausinn og hve langt út á gólf rennur vatnið? Flæddi vatn að klósettinu eða fór það alla leið fram á gólf í herberginu?
Þetta eru auðvitað mikilvægar spurningar og mikilvægi þeirra er undirstrikað í skriflegu mati ferðalanganna þegar heim er komið. Oft eru þessir þættir ofar á blaði en hvort náttúruupplifunin hafi staðið undir væntingum.
Þegar þessi salernismál eru rædd við mig reyni ég að bjarga mér með því að vitna í Hávamál þar sem er talað um mikilvægi þess að ferðalangar séu opnir fyrir nýjum áskorunum. Þessi tilraun mín til að afsaka sturturnar á íslenskum hótelum virkar stundum en oftast ekki.
Ég man eftir því þegar ég fór fyrst út í heim, tuttugu ára gömul. Ég fór frá Akureyri til Arkansas í Bandaríkjunum. Mállýskan þar átti ekkert sameiginlegt við þá ensku sem ég lærði í MA, enda skildi ég nánast ekkert. Þarna lenti ég í samskonar basli og ferðamennirnir mínir. Ég kunni ekki að skrúfa frá og tókst ekki að koma vatni í sturtuhausinn í fallega baðherberginu. Sjálfstraustið var í lágmarki og ég gat því ómögulega beðið heimafólkið um að hjálpa mér. Ég skrifaði þetta allt á eigin heimsku.
Útgáfurnar af sturtum á íslenskum hótelum eru endalausar. Íslenskir handverksmenn virðast ekki hafa áttað sig á því að það væri æskilegt að gólfflöturinn í sturtuklefum hallaðist í átt að niðurfalli. Framleiðendur á sturtuhurðum hafa líka séð burt frá því að gott væri að þær næðu niður að gólfi. Það væri líka æskilegt að þurfa ekki að hafa meirapróf í krönum til þess að koma rennsli í gang af hæfilega heitu vatni. Glerhálu gólkflísarnar eru svo annar kapituli.
Ég gisti á fallegu hóteli á Vesturlandi um daginn. Þegar við vorum búin að ljúka morgunþvotti var gólfið rennblautt og þrjú handklæði dugðu alls ekki til við að bregðast við vandanum. Sturtuferðinni lauk með ískaldri gusu þar sem við snérum húninum aðeins of langt. Heima er best, hugsaði ég þegar sturtuferðinni var lokið.
Ég er ekki mikið fyrir reglugerðir. En stundum óska ég þess að það væru til reglugerðir um staðlaðan, einfaldan búnað sem gilti yfir landamæri, um hönnun og hagkvæmni tækja sem ætluð eru fyrir baðherbergi á hótelum. Þá kæmist íslenska náttúrufegurðin kannski ofar á blað en hremmingar ferðalanga í íslenskum baðherbergjum.