Þúsund manns flykkjast í háskóla eldra fólks

Háskóli eldri borgara í Uppsölum (USU) í Svíþjóð hefur starfað í 35 ár og telur nú 3000 félaga. Hann nýtur gríðarlegra vinsælda hjá þeim sem eru 58 ára og eldri, líkt og starfar í anda lýðháskólanna forðum. Þetta er systurskóli Háskóla þriðja æviskeiðsins sem er að ryðja sér til rúms hér á landi.

Fengu áhuga þegar þær fóru á eftirlaun

Í grein um háskólann sem birstist á sænska vefnum UNT er rætt við tvær konur, Anitu Hård af Segerstadt og Britt-Louise Gunnarsson , en Britt-Louise er formaður stjórnar USU og Anita formaður vinnuhóps sem sér um fyrirlestra og leshringi. Eins og margir aðrir fengu þær áhuga á starfsemi USU eftir að þær fóru á eftirlaun. Anita hafði unnið við stjórnendafræðslu, en Britt-Louise var prófessor í norrænum tungumálum.

Þúsund bætast við

Þær hafa ásamt rúmlega 80 sjálfboðaliðum verið uppteknar við það að undanförnu að undirbúa hátíðahöldin vegna 35 ára afmælisins. Eitt af því sem búið er að gera, er að skrifa skýrslu í tilefni afmælisins. „Þar er hægt að sjá að síðustu fimm árin hafa þúsund nýir félagsmenn bæst í hópinn. Það er mikil aukning“, segir Britt-Louise.

Ekki skilyrði að vera með háskólapróf

Þær segja að Uppsala sé ákjósanlegur staður fyrir starfsemina, en þar er hægt að fá aðgang að vísindamönnum og fyrirlesurum í ýmsum greinum. Háskólinn USU fæst við ýmis fög og þeir sem eru félagar búa yfir margvíslegri þekkingu sem getur auðveldað fólki að finna sérfræðinga í áhugaverðum greinum. „Í bæ eins og Uppsölum eru margir sem eiga sér fortíð í akademíunni, en það er alls ekki skilyrði fyrir því að gerast félagi í Háskóla eldri borgara, segir Anita. Þetta er svipað og í Háskóla þriðja æviskeiðsins hér á landi, félagar þar þurfa ekki að hafa háskólapróf.

Fólk vill fylgjast með

Starfsemi USU skiptist í námshringi og fyrirlestraraðir. Það fyllast fljótt plássin á vinsælum námskeiðum sem eru haldin aftur og aftur, Svo sem námskeiðin Á hvaða leið er Rússland? og Nútímalist. „Það er augljóst að fólk á þriðja æviskeiðinu vill fylgjast með. Námskeið sem eru um málefni sem eru efst á baugi í samtímanum eru vinsæl. Í vor erum við að fara af stað með fyrirlestraröð um Mið-Austurlönd“, segir Britt-Louise.

Læra eitthvað alveg nýtt

Nokkur námskeið sem hafa orðið mjög lífseig eru til dæmis Tónlistin mín sem hefur gengið í 18 ár og Það sem ég les. Annað sem er alltaf vinsælt er Sígildar kvikmyndir. „Það er okkar reynsla að ný þekking heillar fólk. Því finnst skemmtilegt að læra eitthvað alveg nýtt, sem liggur utan þess sem það hefur áður kynnt sér“, segja þær stöllur. „En það er líka eitthvað um það að menn hafi einfaldlega áhuga á að dusta rykið til dæmis af frönskunni sem þeir lærðu í menntaskóla“, segir Anita.

Latína á efri árum

Að undanförnu hefur líka orðið mjög vinsælt að læra latínu hjá USU. Það hefur orðið til þess að skólinn hefur líka farið að halda námskeið í grísku. „Þó við séum að stíla uppá nám við hæfi sem flestra viljum við einnig bjóða uppá eitthvað óvenjulegt“, segir Britt Louise. Auk fyrirlestra og námshringja heldur USU þriðjudagsfyrirlesra sem eru öllum opnir og farið er í ferðir sem tengjast fyrirlestrunum sem haldnir eru. Með haustinu hefjast svo málþing „a la Malla Silferstople“ þar sem tekin verða fyrir ákveðinu þemu. Næsta málþing mun fjalla um sjálfsmynd Gyðinga undir fyrirsögninni Hemma í två världar.

 

Ritstjórn maí 20, 2015 13:08