Gjaldfrjálsar skólamáltíðir skipta miklu máli

Síðastliðið haust raungerðist baráttumálið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir öll börn á grunnskólaaldri. Nú býðst þeim öllum heit máltíð í hádeginu, óháð efnahag. Það gefur auga leið að mjög mikilvægt er að sú máltíð sé holl og næringarrík og börnin vilji borða matinn.

Við þurfum að fylgja ráðleggingum landlæknis um mataræði þegar við skipuleggjum þessar gjaldfrjálsu máltíðir. Í nýjustu ráðleggingunum er enn meiri áhersla lögð á neyslu grænmetis, ávaxta, fisks og bauna en ráðlagt er að minnka neyslu á rauðu kjöti og unnar kjötvörur eiga að vera í lágmarki. Í fyrsta skipti taka ráðleggingar bæði mið af hollustu- og loftslagssjónarmiðum.

Holl fæða er í flestum tilfellum líka umhverfisvæn og henni fylgir minni losun gróðurhúsalofttegunda sem stuðla að hlýnun jarðar og ógnar framtíð okkar. Nú sýna rannsóknir að matur og matvælaframleiðsla standa fyrir um þriðjungi losunar CO2 af mannavöldum.

En hvernig förum við að því að fá börnin okkar til að borða hollan og góðan mat sem eflir heilbrigði þeirra?

Nú stendur Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Aldin, samtök eldri aðgerðarsinna gegn loftslagsvá, fyrir málþingi um skólamáltíðir undir yfirskriftinni ,,Hollar skólamáltíðir fyrir loftslagið og líðan barna“ í Öskju, stofu N-132 þann 13. maí næstkomandi kl. 13:00 – 16:30.

Aðalfyrirlesari verður Paivi Palojoki frá Finnlandi en Finnar hafa verið í fararbroddi hvað varðar uppbyggilega umgjörð um skólamáltíðir, en þar í landi hafa gjaldfrjálsar verið í boði fyrir grunnskólabörn undanfarin 80 ár.

Málþingið er opið öllum og við hvetjum sem flesta til að taka þátt í málþinginu og ekki síst skólafólk, foreldra og sveitarstjórnarmenn.

 

 

 

 

Sólveig Baldursdóttir maí 8, 2025 09:50