Edna O’Brien tók fullan þátt í frjálsræðinu sem ríkti meðal blómabarna sjöunda áratugs síðustu aldar. Hún er einn frægasti rithöfundur Íra og skrifaði um konur í blíðu og stríðu af sérstakri næmni. Hún var ófeimin við að ræða kynhvöt kvenna og bækur hennar þess vegna bannaðar af kaþólsku kirkjunni í heimalandi hennar, Írlandi.
Árið 2012 kom út sjálfsævisaga Ednu, Country Girl. Bókin sat á metsölulistum í Bretlandi og Bandaríkjunum ansi lengi. Oprah Winfrey valdi hana bestu ævisögu ársins það ár en titillinn er vísun í fyrstu bók í þríleik sem Edna skrifaði á sjöunda áratug síðustu aldar og fyrsta sagan, The Country Girls kom út árið 1960. Edna O’Brien fæddist í litlu þorpi í Clare-sýslu á Írlandi þann 15. desember árið 1930. Móðir hennar, Lena, þótti sérlega falleg og glæsileg kona og hún var lífsreyndari en flestar írskar konur á þessum árum. Hún hafði búið í Bandaríkjunum í átta ár og unnið um tíma sem þjónustustúlka hjá ríkri fjölskyldu í Brooklyn. Síðar komst hún að sem klæðskeralærlingur hjá stórri verslanamiðstöð. Hún sneið þar og saumaði á sjálfa sig fallega kjóla sem dóttir hennar segir að hún hafi engin not haft fyrir eftir að hún sneri aftur til Írlands, giftist og eignaðist börn.
Í bókinni, The Light of Evening, notar Edna sögu móður sinnar sem uppistöðu í áhugaverðri skoðun á sambandi móður og dóttur. Í upphafi frásagnarinnar hefur móðirin nýlega verið greind með krabbamein í eggjastokkum og hún veit að hún á ekki langt eftir. Dóttir hennar, rithöfundur, kemur til að vera hjá henni og þær gera upp bæði fortíð móðurinnar og eigið samband. Margt í bókinni er byggt á raunverulegum atburðum. Móðirin hafði til að mynda verið búsett í Bandaríkjunum fyrir hjónaband og orðið þar ástfangin af manni sem hún gat aldrei gleymt. Hún er einnig mjög á móti starfi dóttur sinnar og getur ekki sætt sig við það sem hún setur á blað því það stríðir gegn trúarskoðunum hennar. Edna segir í sjálfsævisögu sinni að mörgum hafi fundist hún grimm gagnvart móður sinni í þessari bók en það hafi ekki verið ætlun sín.
„En þótt Edna hafi staðist bæði Marlon Brando og Sean Connery virðist hún hafa haft smekk fyrir karlmönnum sem bera erfiða bagga.“
Erfið æska
Faðir Ednu, Micheal, var á hinn bóginn var af velstæðu fólki kominn en um það leyti sem börn hans fæðast er búið að sóa fjölskylduauðnum. Sjálfur átti hann drjúgan þátt í því, enda drykkfelldur spilafíkill sem sjaldan gaf sér tíma til að dvelja heima hjá fjölskyldunni. Það kom því í hlut konu hans að sjá börnunum fyrir nauðsynjum. Edna var alin upp í strangri trú og stundaði nám í klausturskóla í Galway. Síðar lýsti hún barnæsku sinni sem kæfandi og bældri, fullri af þrá eftir frelsi. Hún sagðist glöð að þessir tímar væru liðnir og kæmu aldrei aftur.
Að þrábeiðni foreldra sinna stundaði hún nám í lyfjafræði í kvöldskóla og gerðist lærlingur hjá lyfsala. Síðar fékk hún lyfsöluleyfi. Það átti þó ekki fyrir henni að liggja að starfa sem apótekari því hún kynntist eiginmanni sínum, Ernest Gébler meðan á náminu stóð. Foreldrar hennar voru á móti sambandinu einkum vegna þess að hann var giftur og þótt hann stæði í skilnaði gátu þau ekki sem kaþólikkar samþykkt ráðahaginn. Edna hljópst á brott með Ernst og faðir hennar og bróðir eltu þau til að sækja brekastúlkuna og koma henni heim. Edna neitar að fara og þeir feðgar snúa aftur við svo búið ráðalausir. Edna og Ernst giftu sig árið 1954 og eignuðust tvo syni, Carlo og Sasha. Í sjálfsævisögu sinni lýsir hún erfiðu hjónabandi sínu. Ernest þjáðist af ritstíflu en á meðan skrifaði kona hans viðstöðulaust. Hann átti ákaflega erfitt með að þola það einkum og sér í lagi þegar bækur hennar urðu undantekningalaust metsölubækur.
Ernest kúgaði konu sína og frægt er að þegar hún rétti honum handritð að fyrstu bók sinni, The Country Girls, las hann það og sagði: „Þú getur skrifað og ég mun aldrei fyrirgefa þér það.“ Það atvik sem hins vegar réði úrslitum um að hún ákvað að skilja við hann var þegar hann krafðist þess að hún framseldi ávísun sem hún hafði nýlega fengið fyrir kvikmyndaréttinn á einni bóka sinna. Þetta var há upphæð en Edna vissi að ef hún léti undan honum fengi hún ekki að ráðstafa einum eyri af fénu. Hún neitaði en Ernst neyddi hana með ofbeldi til að gera það sem hann bað um. Eftir það gekk hún á dyr. Honum tókst með brögðum að fá forræði yfir drengjunum en Edna gat snúið þeim úrskurði sér í hag þremur árum seinna.

Edna O’Brien tók fullan þátt í blómabyltingunni, var hippi og leitaði margvíslegra leiða til að finna sjálfa sig.
Loksins frjáls
Þegar það mál var í höfn hófst lífið loks fyrir alvöru hjá þessari hæfileikaríku konu. Hún lýsir á einstaklega áhugaverðan hátt leit sinni að sjálfri sér bæði sem persónu og rithöfundi. Hún býr í London og kynnist öllum helstu stjörnum þessa tíma, Samuel Beckett er vinur hennar, Roger Vadim og Jane Fonda fastagestir í partíum hennar og bæði Marlon Brando og Sean Connery reyna að fá hana í rúmið með sér. Eitt kvöldið að loknu samkvæmi býðst ungur maður til að fylgja henni heim, enginn annar en sjálfur Paul McCartney. Hún býður honum inn og upp á te en hann fer upp í barnaherbergið, grípur barnagítar og spilar og syngur fyrir Carlo og Sasha lagið: Those were the days, sem þá naut mikilla vinsælda. Síðan spinnur hann upp lag um sjálfa húsfrúnna og textinn var á þessa leið:
Oh, Edna O’Brien,
She ain’t lying,
You gotta listen
To what she gotta say,
She’ll have you sighing,
She’ll have you crying.
Hey,
She’ll blow your mind away.
Edna reyndi ýmsar leiðir til að víkka skilning sinn á sjálfri sér líkt og var í tísku á þeim tíma. Meðal annars var hún í meðferð hjá hinum fræga sálfræðingi, R.D. Laing. Að hans ráði tók hún inn sýru og var gersamlega út úr heiminum í tvo sólarhring og að auki stríddi hún í nokkurn tíma á eftir við mikla vanlíðan og „flashback“. Hún segist oft hafa spurt sig hvers vegna hún gæti ekki verið jafnhreinskiptin og heil í tilfinningum sínum í raunveruleikanum og í skrifum sínum.
En þótt Edna hafi staðist bæði Marlon Brando og Sean Connery virðist hún hafa haft smekk fyrir karlmönnum sem bera erfiða bagga. Hún giftist aldrei aftur en átti í nokkrum langtímasamböndum við hæfileikamenn sem áttu það sameiginlegt að eiga við erfiðleika að etja. Einn var alkóhólisti og dó ungur, annar var kvæntur og kom fram við Ednu og konu sína af mikilli lítilsvirðingu. Hann bjó með Ednu um tíma en gaf henni stöðugt til kynna að það yrði ekki varanleg sambúð. Sagði meðal annars eitt sinn um samband sitt við hana: „Ég er með Madömunni í augnablikinu.“ Á áhrifamikinn hátt lýsir hún sárindunum, niðurlægingunni, óvæntum fundum, stefnumótum sem ekkert varð úr og nagandi afbrýðisemi. Hún segir að sig skorti lymskuna og uppgerðina sem þurfi til að geta átt í venjulegum ástarsamböndum við karlmenn.
Það verður þó aldrei af Ednu O’Brien tekið að hún er frábær rithöfundur. Hún er fyndin, frábær stílisti og með einstaka frásagnargáfu. Hún hefur hlotið ótal verðlaun fyrir bækur sínar og á sér tryggan og stóran lesendahóp. Hún hefur áður skrifað sjálfsævisögulega skáldsögu eða skáldævisögu, eins og menn menn vilja kalla þetta en sú heitir, Mother Ireland. Kaflarnir í ævisögunni, Country Girl, um leit hennar að andlegri upplyftingu hjá hinum og þessum gúrúum eru óborganlegir og eins frásögnin af vináttu hennar og Jackie Onassis. Edna O’Brien lést 27. júlí í fyrra 94 ára að aldri. Hún skrifaði nánast fram í andlátið og þótti ákaflega falleg gömul kona. Hún var líka eftirsótt bæði sem fyrirlesari og gestur í veislum og spjallþáttum fyrir það hversu lipur hún þótti í samræðulist.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.