Rétt skóuð við allar aðstæður

Gönguferðir og útivera eru góð leið til að fá hreyfingu og auka lífsgæði sín. Fyrir ekki svo löngu keyptu menn eina strigaskó fyrir sumarið og notuðu þá við allar aðstæður. Nú er öldin önnur. Sérstakir golfskór, hjólaskór, gönguskór og hlaupaskór skreyta hillur verslana og stundum þrautin þyngri að velja þá réttur.

Hlaupaskór

Sumir skór er sérhannaðir til að henta tilteknum íþróttum. Hlaupaskór eru með púðum er mýkja höggið þegar fæturnir lenda á hörðu undirlagi og fjaðra auk þess vel til auðvelda hlauparanum að halda áfram. Þeir geta rauna einnig nýst göngumönnum vel sem og tennisleikurum, enda gott að fjaðra vel þegar menn klífa fjöll og stökkva eftir bolta. Auk þess eru hlaupaskór hannaðir þannig að þeir veiti aukið jafnvægi og hjálpi hlauparanum að stýra hreyfingunni. Sumir þeirra eru stífari yfir ristina eða með púða til að fóturinn rúlli inná við þegar hann lendir. Ögn hærri hæll dregur úr áhrifum höggsins á fæturna en því lægra sem hællinn lendir því minni áverkar.

Mikilvægast af öllu þegar hlaupaskór eru valdir er að þeir passi. Þeir mega hvergi þrengja að og ráðlagt er að ganga um búðina nokkrum sinnum áður en ákveðið er að taka einmitt þetta par. Ef skórinn smellpassar ekki er hætta á blöðrum, hælsæri, sprungnum tánöglum, mari á fæti og líkþornamyndun strax í fyrsta hlaupi. Það er því ekkert rúm fyrir hégóma eins og vilja að fæturnir líti út fyrir að vera smáir og grannir.Mörg íþróttavörumerki hafa aukið sérhæfingu sína og hannað skó sem eru ætlaðir hlaupum við ákveðnar aðstæður. Þannig eru til skór fyrir þá sem hlaupa á gangstéttum og hörðu undirlagi, þá er hlaupa á skógarstígum eða mjúku undirlagi, fyrir langhlaupara, spretthlaupara og fjallahlaupara sem kjósa að hlaupa í margskonar landslagi. Hver og einn verður að gera það upp við sig hvort hann þarf á slíkri sérhæfingu að halda. Í flestum tilfellum duga venjulegir hlaupaskór vel.

Flatir keppnisskór

Hlaupaskór ætlaðir hlaupurum er keppa í stuttum vegalengdum og hlaupa á sérstökum brautum eru með flatan sóla. Þeir eru hannaðir til að falla vel að fætinum, eru léttir og er ætlað að draga úr þeim tíma sem það tekur að lenda fætinum á jörðinni og ná viðspyrnu að nýju. Þeir veita þó ekki mikla höggvörn og geta því aukið mjög álag á fæturna. Það ætti því ekki að nota þá í neitt annað en stutta spretti á hlaupabrautum.

Takkaskór

Eitt sinn voru takkaskór eingöngu framleiddir fyrir fótboltafólk en þannig er það ekki lengur. Nú eru einnig til hjólaskór og golfskór en sólin á þeim fyrrnefndu er hannaður þannig að hann sitji vel á pedalanum en á hinum til að ná góðu gripi á grasflöt. Þeir sem stunda frisbí, hornabolta og fleiri íþróttir á grasi kjósa sömuleiðis takkaskó.

Hjólaskór eru frekar dýrir en algjörlega þess virði að verja peningum í að búa vel að fótunum taki menn hjólreiðar á annað borð alvarlega. Þeir eru mjög stífir og halda vel við fæturna en það stuðlar að því að draga úr líkum á að fá krampa eða sinadrátt. Þeir falla vel að pedalanum og tryggja að fæturnir renna ekki af honum heldur spyrna vel áfram. Þeir eru léttir og veita fótunum öryggi. Helsti munurinn á hjólaskóm ætluðum til nota utandyra og þeirra er helst eru notaðir í spinning eða hjólreiðum innanhúss eru mismunandi langir takkar. Þeir sem stunda hvoru tveggja ættu því að fjárfesta í tveimur pörum. Fjallahjólaskór eru svo ögn mýkri og með þannig tökkum að hægt er að ganga á stígum eða yfir erfitt landslag þegar þörf er á.

Takkarnir gefa góða viðspyrnu og styðja vel við snöggar hreyfingar og þegar menn breyta um stefnu á augabragði til að villa um fyrir andstæðingi. Þess vegna passa þeir fótboltaleikurum mjög vel. Þeir hafa þó þann ókost að þeir nýtast ekki í neitt annað en að stunda þá ákveðnu íþrótt sem þeir eru hannaðir fyrir.

 Gönguskór

Góðir gönguskór eru einstakur lúxus fyrir þá er hafa gaman af göngum. Það skiptir þá engu hvort menn vilja létta, þægilega skó til að ganga á eftir gangstéttum borgarinnar eða göngustígum útivistarsvæða. Þeir eiga að endast svo það ríður á finna skó sem eru svo þægilegir að menn finna ekki fyrir þeim á fótum sér.

Allir helstu framleiðendur íþróttaskóa bjóða nú upp á góða gönguskó. Þeir hafa þann kost að vera léttari og mýkri en hefðbundnir uppreimaðir fjallgönguskór. Hlaupaskór henta einnig mjög vel til að ganga á.

Fjallgönguskór ná upp fyrir ökklann, eru stífari og þyngri en strigaskórnir. Þeir eru nauðsynlegir í fjallgöngum og lengri göngum yfir úfið landslag, einkum vegna þess að þeir halda vel við ökklann, verja fæturnar og styrka. Sé gengið á góðum fjallgönguskóm þreytast menn síður og finna minna fyrir fótunum eftir langan göngudag.

Margir nota orðið gönguíþróttaskóna sína í fjallgöngur og það er í sjálfu sér allt í lagi. Þeir eru þó ekki eins endingargóðir og henta ekki eins vel í torfærur. Þeir halda heldur ekki eins vel við ökklann. En þeir eru sveigjanlegri, léttari og þægilegri. Þess vegna kjósa margir orðið að nota þá í styttri göngur.

Að finna réttu skóna

Núorðið er úrvalið af skóm ótrúlegt. Þeir eru mjög mismunandi dýrir og ekki alltaf tryggt að þeir dýrustu séu allra bestir. Fyrir kaupandann er aðalatriðið að þeir séu þægilegir. Fætur okkar eru mjög mismunandi að lögun og lengd. Hver og einn verður að prófa skóna vel. Það borgar sig að ganga nokkrar ferðir um búðina í þeim áður en þeir eru keyptir, fara úr þeim og máta aftur og fara í þá í mismunandi sokkum.

Gott að hafa í huga

Þegar búið er að kaupa nýja skó er gott að byrja strax að nota þá. Eftir eina hlaupaæfingu eða langa gönguferð finnur fólk yfirleitt vel hvort skórnir henta því eða ekki. Hið sama gildir auðvitað um takkaskó og aðra æfingaskó. Þeir eru aldrei fullreyndir fyrr en menn hafa notað þá við þær aðstæður sem íþrótt þeirra krefst. Henti skórnir alls ekki má reyna að skila þeim ef ekki sér á þeim eða selja einhverjum öðrum þá.

Aldrei gera ráð fyrir að einhverjir tilteknir skór henti þér. Þótt þú hafir keypt áður frá sama framleiðanda eru iðulega gerðar smávægilegar breytingar á skógerðinni milli ára og nýjar týpur passa stundum alls ekki eins vel og sú gamla. Þess vegna þarf alltaf að máta skó.

Hikaðu ekki við að prófa kven- og karlaskó. Þótt konur velji oftast kvenskó og svo öfugt er allsendis óvíst að þeir séu endilega bestir fyrir þig. Það má vel vera að þínir fætur passi betur í skó ætluðum hinu kyninu.

Farðu alltaf seinnipart dags til að kaupa skó. Fæturnir þrútna yfir daginn og ef mátað er að morgunlagi er mjög líklegt að skórnir verði of litlir þegar líða tekur á daginn. Hlaupaskór eiga að vera rúmir. Þegar menn hlaupa lengjast fæturnir um allt að 1.5 cm svo það verður að vera rúm til að taka við þeirri lengingu. Flestir hlauparar kaupa skó hálfu til heilu númeri stærri en þeir nota allajafna.

Fæturnir eru breiðastir fremst og þegar skór eru mátaðir gættu þess að þú getir hreyft tærnar innan í þeim. Ef þær þrýstast út í hliðarnar eða skóna að framan er hætta á að blöður taki að myndast þegar þú ferð að hreyfa þig í þeim.

Vertu í sokkum eins og þeim sem þú klæðist þegar þú notar skóna, íþróttasokkum, göngusokkum eða ullarsokkum..

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.