Kílóin og töfralausnir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.

 

Nýr borgari fæddur á Akureyri. Hún vó 3.696 g og var 53 cm löng. Nýr borgari fæddur í Reykjavík. Hann var 4.368 g á þyngd og 51 cm á lengd. Svona upplýsingar um nýja borgara fær maður daglega í Morgunblaðinu, málgagni allra landsmanna.

Upplýsingarnar um þyngd og lengd ásamt mynd af viðkomandi og nafni foreldra birtast í litlum klausum á síðunni fyrir aftan minningargreinarnar í áðurnefndu dagblaði. Þetta er ósköp elskulegur siður þegar fæðingartíðni er í sögulegu lágmarki. En hvers vegna þyngd i grömmum og lengd í cm?

Mikið er gott að þessi siður hefur ekki verið tekinn upp þegar við kveðjum þennan heim á blaðsíðunum á undan. Nóg er nú samt af persónulegum upplýsingum í minningargreinunum þó ekki bætist við fróðleikur um fallþunga viðkomandi: Við andlátið vó hún 83 kg og var 167 cm á lengd!

Hæð fólks er kannski ekki viðkvæmt mál en það sama gildir ekki um þyngdina. Tengsl ofþyngdar og heilsu hafa verið margsönnuð en samt má ekki nefna þau. Þá er verið að ráðast á einkalíf viðkomandi. Ég á gamlan vin sem kom í heimsókn. Við fórum að ræða hvað hann hefði lagt mikið af. Honum þótti umræðan ekki góð enda var hann ekki í neinu megrunarátaki. Þetta hafði bara gerst með árunum og kvillum ellinar.

Hans skoðun var sú að ef ekki væri talið pólitískt rétt að tala um ofþyngd þá væri það heldur ekki pólítiskt rétt að tala um skort á holdum. Mér fannst þetta umhugsunarvert. Ég mundi þá eftir samtali við unga konu. Ég hafði orð á því hvað hún liti vel út og að það væri greinilegt að hún hefði grennst. Hún móðgaðist. Sagðist hafa verið í ástarsorg og horast þess vegna. Síðan hef ég ekki hælt fólk fyrir að grennast.

Þegar ég var yngri var ég þræll baðvigtarinnar. Ég segi ekki að ég hafi vigtað mig á hverjum degi en alla vega nokkrum sinnum í viku. Svo fékk ég nóg og tók vogina og henti henni.  Þrjátíu ár eru liðin og ég hef ekki stigið á vigt síðan. Ég ákvað að reyna að hreyfa mig nóg og borða aldrei þannig að ég fengi þá óþægilegu tilfinningu að ég hefði látið of mikið ofan í mig. Ég nota fötin mín sem viðmið og að mér líði sjálfri vel.

Þessi aðferð hefur dugað mjög vel. Hins vegar lendi ég í vandræðum þegar ég er spurð um hversu þung ég sé. Ég hef nefnilega ekki hugmynd um það. Mér er líka alveg sama.

Ég sá í blöðunum á dögunum að danska fyrirtækið, sem framleiðir lyfið Ozempic, var að segja upp 9000 manns. Þetta lyf er fyrir sykursjúka en æ fleiri nota það til þess að ná af sér kílóum.Vaxandi samkeppni á lyfjamarkaðnum var skýringin á uppsögnunum.

Ég er farin að sjá fólk sem er orðið eins og önnur útgáfa af sjálfu sér. Mér finnst það sjást á þeim að þeir hafa farið þessa nýju og áhrifaríku leið til þess að léttast, nota lyfið sem var ætlað upphaflega fyrir sykursýkissjúklinga. Það er einhver fylling horfin sem ég hélt til þessa að væri eðlileg og æskileg. Hver veit svo hverjar aukaverkanirnar kunna að verða þegar fram í sækir.

Sjálfsagt geta þessi lyf orðið einhverjum öðrum en sykursýkissjúklingum til hjálpar. Ég en samt þeirrar skoðunar að hreyfing og hollt mataræði sé æskilegri leið til heilbrigði og vellíðunar. Í því sambandi bendi ég á nýju ráðleggingarnar um mataræði frá Embætti landlæknis. Ég treysti þeim betur en auglýsingum frá lyfjafyrirtækjum um töfralausnir.