Heyra liðskiptaaðgerðir sögunni til?

Fjölmargir Íslendingar þjást af slitgigt og biðlistar eftir liðskiptaaðgerðum eru langir hér á landi. Slitgigt lýsir sér þannig að brjóskið milli liða eyðist og slitnar en það veldur því að liðurinn verður ekki eins hreyfanlegur og bólgur taka að myndast. Þessu fylgja miklir verkir.  Gigt af þessu tagi leggst oftast á hnjá- eða mjaðmaliði en einnig er þekkt að hún komi fram í öxlum og hrygg. Hingað til hefur eina ráðið til að bregðast við þessu verið að skipta um lið en nú er útlit fyrir að ný meðferð taki við.

Þýskir vísindamenn hafa unnið að því að þróa gel sem hægt er að sprauta inn í liðinn og þar myndar það þekju eða grunn sem leggst yfir skemmt brjóskið og vinnur að mörgu leyti svipað og það. Auk þess eru í því mólekúl sem laða að sér stofnfrumur og örva þær til að vinna og mynda nýtt brjósk. Fyrstu tilraunir á mönnum benda til að eftir aðeins tvo mánuði hafi flestir náð að mynda nýtt brjósk að einhverju leyti. Þetta er bylting hreinlega bylting í meðferð slitgigtar en hún er algeng um allan heim bæði meðal eldra fólks og íþróttamanna. Þýsku vísindamennirnir eru langt komnir með þróun á gelinu og sérfræðingar spá því að mögulegt sé að það komi á markað og í notkun á næsta ári að sögn German Orthopaedic Research & Clinical Trials.

Á sama tíma vinnur teymi íháskólanum í Connecticut að því að þróa svipað gel sem einnig er sprautað inn í liðinn og byggir hann upp að nýju. Thanh Nguyen prófessor í vélaverkfræði og líftæknilæknisfræði leiðir rannsóknirnar og í nýlegri grein sem birtist á vefnum UConn Today segir hann að framtíðin í bæklunarlækningum muni felast í rafbylgjum og einfaldri sprautu með Piezoelectric geli. Þetta eru góðar fréttir, ekki bara fyrir þá fjölmörgu sem þjást af slitgigt heldur einnig fyrir heilbrigðiskerfið. Hér er um að ræða mun ódýrari meðferð en skurðaðgerð og allt bendir til að hún sé einnig varanlegri og áhættuminni fyrir sjúklinginn.

„Núverandi meðferðir snúast um að draga úr verkjum ekki að lækna vefina,“ segir Thanh Nguyen í viðtali við UConn Today. „Við vonum að eðlilegar hreyfingar líkams, meðal annars göngur, geti komið af stað litlum rafbylgjum sem örva brjóskið til að vaxa aftur.“ En Piezoelectric Gel inniheldur grunn þrýstirafhrifa en það er efni gert úr lífhverfu plastefni, poly-L-lactic acid, nanótrefjum og magesíum oxíd nanóögnum. Við álag, eins verður við eðlilegar hreyfingar líkamans, eða þegar hleypt er hljóðbylgjum á gelið sendir það frá sér litlar rafbylgjur. Vísindamennirnir vonast til þess að þær eigi eftir að örva frumur í því brjóski sem eftir er í veika liðnum til að endurnýja sig og vaxa aftur. Tilraunir þeirra á stórum dýrum lofa góðu. Þar sem þessar bylgjur eru mjög sambærilegar við eðlilegar rafbylgjur er örva endurnýjun og uppbyggingu í mannslíkamanum er full ástæða til bjartsýni hvað þetta varðar.

Teymið sem rannsakar nýja meðferð við slitgigt.

Betri meðferð en aðrar

Fram að þessu hefur algengasta meðferð við slitgigt verið að sprauta geli inni í liðinn til að auka liðleika hans en það gel eyðist á nokkrum mánuðum og virkar aðeins fyrir hluta sjúklinga. Einnig hafa læknar reynt að verkjastilla sjúklinga með gigtarlyfjum og öðrum bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum. Þegar slitið er orðið mjög slæmt er engin leið önnur fær en að senda fólk í skurðaðgerð og skipta liðnum út fyrir gervilið. Tilraunir hafa verið gerðar með að sprauta stofnfrumum inn í liði en þær hafa ekki gefið góða raun og eru í raun oftast ekki viðurkenndar af opinberum heilbrigðisyfirvöldum.

Enn er þó verið að þróa Piezoelectric gelið og rannsókn Thanh Ngueyns og samstarfsmanna hans mun standa til ársins 2029. Ef áfram heldur sem horfir kann að vera að það ár muni þeir leitast við að fá leyfi til að gera tilraunir á mönnum og eftir það er mögulegt að fá gelið viðurkennt af lyfjastofnunum og síðan koma því á markað. Áður hafði Thanh Nguyen starfað með Yang Liu prófessor við Peking-háskóla að svipuðum rannsóknum. Niðurstöður rannsókna þeirra birtust í Science Translational Medicine og Nature

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.