Ef fólk sefur illa hefur það mikil áhrif á lífstíl þess. Góður nætursvefn er mikilvægur þegar kemur að því að lifa heilbrigðu lífi. Þetta kemur fram í viðamikilli rannsókn sem gerð var við háskólann í Kaupmannahöfn og náði til 35 þúsund fullorðinna Finna. Danska ríkisútvarpið greindi frá.
Slæmur svefn eykur líkur á offitu
Alice Jessie Clark, prófessor við lýðheilsudeild Kaupmannahafnarháskóla segir að þegar fólk sofi illa taki það verri ákvarðanir þegar kemur að heilsunni. Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að svefn hefur áhrif á reykingar, drykkju, hreyfingu og þyngd. Sá sem sefur illa og reykir, eykur reykingarnar. Clark segir einnig að þegar svefn verður óreglulegur aukist hætta á misnotkun áfengis hjá þeim sem höfðu áður drukkið lítið. Þá er samhengi milli ónógs svefns og hreyfingarleysis sem eykur hættu á offitu.
Bein tengsl milli reykinga og svefns
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að góður nætursvefn auðveldaði hollt líferni. Dæmi um þetta er að reykingamenn meðal þáttakenda í rannsókninni, sem sváfu vel og órofið, voru mun líklegri til að hætta að reykja á því tímabili sem rannsóknin stóð heldur en þeir reykingamenn sem sváfu óreglulega. Þeir sem sváfu lítið voru auk þess líklegri til að hanga langt fram eftir nóttu á netinu. Clark segir að rannsóknin sýni fram á að góður svefn sé forsenda þess að við tökum réttar ákvarðanir um athafnir daglegs lífs.