„Þeir sem komnir eru á miðjan aldur eða eldri velja sér gjarnan lítinn sparneytinn bíl sem gott er að leggja í stæði. Margir vilja bíl með rúmgóðu skotti, sérstaklega þeir sem eiga sumarbústað,“ segir Ragnar Borgþórsson, sölustjóri hjá Heklu þegar hann er spurður hverskonar bíla fólk sem komið er á miðjan aldur og eldra vill helst kaupa. Ragnar segir að Skoda Octavia, Skoda Fabia, Volkswagen Golf og Volkswagen Polo séu dæmi um bíla sem eru vinsælir hjá þessum hópi.
Erfitt að alhæfa
Sölustjórum bifreiðaumboðanna ber saman um að það sé erfitt að alhæfa um hverskonar bíla eldra fólk vilji helst kaupa en nefna þó nokkar gerðir sem eru vinsælar. Egill Gylfason sölustjóri hjá Bernhard segir að bílar sem hægt sé að setjast beint inn í séu vinsælir, Honda Jazz og Honda CR-V. „Þetta eru bílar sem fólk getur sest beint inn í og mörgum finnst það þægilegt,“ segir hann. „Þetta eru líka bílar sem bila mjög lítið,“ bætir hann við. Sölustjórarnir eru hins vegar sammála um að yfirgnægfandi meirihluti vilji sjálfskipta bíla. Ragnar segir að sjö af hverjum tíu vilji sjálfskiptan bíl og Egill segir að það sé undantekning ef einhver vilji frekar beinskiptan bíl en sjálfskiptan. Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota tekur undir þetta og segir að Íslendingar upp til hópa vilji sjálfskipta bíla, þeir séu
langvinsælastir. Söluhæstu bílarnir hjá Toyota eru Yaris, Rav 4 og Land Cruiser 150 og 200. „Það er fólk í öllum aldurshópum sem kaupir þessa bíla. Salan hjá okkur er óháð aldri,“ segir Páll.
Bílasalan eykst
Í bílablaði Fréttablaðsins 11. ágúst kemur fram að sala nýrra bíla hafi aukist um 41 prósent það sem af er ári. Það þýðir að það sem af er ári hafa tæplega ellefu þúsund nýir bæst í bílaflotann. Einstaklingar hafa keypt um helming hinna nýju bíla en fyritæki og bílaleigur hinn helminginn. Toyota er söluhæsta bílamerkið, í öðru sæti er Volkswagen.