Býr með 480.000 býflugur í Biskupstungunum

Elín Siggeirsdóttir tölvunarfræðingur ákvað fyrir tveimur árum að hætta að vinna við sitt fag og gerast býflugnabóndi að Rima í Biskupstungum, skammt frá Reykholti. Hún býr nú með 480 þúsund býflugur í fjórum býflugnabúum og segir að enginn bóndi í Biskupstungum hafi fleiri húsdýr en hún! Eiginmaður Elínar Konráð Ásgrímsson ákvað einnig að hætta að vinna sama ár, en þá var hann kominn á 95 ára regluna hjá hinu opinbera.   Þau ákváðu að draga saman seglin og flytja í sveitina. Þau seldu syni sínum hluta af húsi sem þau eiga í Kópavogi og Konráð var kominn á eftirlaun, þannig að dæmið gekk upp.

Fann fyrir kulnun í starfi

Elín og Konráð hófu trjárækt að Rima í kringum 1980 og voru með hjólhýsi á jörðinni yfir sumartímann. Trén uxu á meðan þau sinntu skyldum sínum á höfuðborgarsvæðinu, en voru minna fyrir austan. Það var ekki fyrr en uppúr síðustu aldamótum að þau ákváðu að byggja íbúðarhús á jörðinni, enda höfðu þau í huga að flytja þangað þegar Konráð kæmist á 95 ára regluna. Ástæðu þess að hún ákvað einnig að hætta að vinna, segir hún þá að hún hafi fundið fyrir mikilli kulnun í starfi og sér hafi ekki lengur fundist hún standa jafnfætist því unga og spræka fólki sem hún var að vinna með. En hvernig stóð á að hún ákvað að fara út í býflugnarækt?

Var spennt fyrir bývaxinu

„Við vorum flestar helgar og aðra frídaga fyrir austan og mig langaði að koma mér upp einhverju sem væri ekki mjög bindandi og ég gæti sinnt um helgar“, segir Elín.  „Ég heyrði viðtal við Egil Sigurgeirsson stofnanda og formann Býflugnaræktendafélags Íslands í útvarpinu og eins sá ég blaðaviðtal við hann í einhverju dagblaðanna og fannst þetta mjög spennandi og taldi að það gæti hentað mér vel.  Ég var aðallega spennt fyrir bývaxinu og úrvinnslu úr því. Ég skráði mig á námskeið og fékk fyrstu tvö búin í júní 2011.  Fyrsta sumarið sinnti ég því búunum einungis um helgar. Það gekk þokkalega og uppskar ég rúm 8 kíló af hunangi að hausti.  Árið eftir keypti ég mér eitt bú til viðbótar en hef síðan séð um að viðhalda og bæta við búum sjálf.   Búskapurinn hefur gengið mjög vel.  Ég hef ekki misst neitt bú, hef getað framleitt ný bú og drottingar og fengið góða uppskeru af hunangi og vaxi“.

100.000 þernur í hverju búi

Í hverju búi er ein drottning og 1000 „druntar“ sem eru karlflugurnar. Síðan eru þar þernur um 20.000 að vori og allt uppí 100.000 að hausti. Elín segir að það þurfi að fylgjast vel með að það sé nægilegt fóður og nægilegt pláss fyrir allar þessar flugur til að búin þrífist vel. „Það þarf að fara í búin að minnsta kosti einu sinni í viku til að kanna aðstæður og gera nauðsynlegar ráðstafanir. Þetta getur verið töluverð vinna yfir sumartímann því viðkoman er mikil.   Hver drottning verpir ca. 100.000 eggjum á ári“, segir hún.

Býflugur á Íslandi  gæfar og rólegar

Elín segir býflugurnar stórmerkilegar á margan hátt og eins samfélag þeirra.   Það sé ekki neinn einn sem ráði, heldur virðist allir vita hvað á að gera hverju sinni. Þær stingi í vörn ef á þær sé ráðist en stofninn sem menn séu með hér á Íslandi sé kominn frá Álandseyjum og sé mjög gæfur og rólegur. „Ég hef verið stungin nokkrum sinnum og því miður virðist ég vera með ofnæmi fyrir stungunum því ég stokkbólgna ef ég hef ekki tekið inn ofnæmispillu áður en ég verð fyrir stungu“, segir hún.   „Eins er ég búin að fá mér neyðarsprautu til notkunar í bráðaofnæmi. En það er þekkt að fólk sem jafnvel ekki hefur verið með ofnæmi fyrir býflugnabiti fái allt í einu bráðaofnæmi“.

Búunum pakkað inn yfir veturinn

Á haustin er hunangið tekið sem flugurnar hafa safnað yfir sumarið og ætlað sér sem vetrarforða. Í skiptum fyrir þetta hunang er flugunum gefið sykurvatn sem þær búa til hunang úr. Elín segir að á haustin þurfi að ganga vel frá búunum svo þau verði fyrir sem minnstu ónæði yfir vetrartímann. „Það er gert með því að pakka þeim inn svo ekki gusti um þau en þó þannig að loftræstingin sé næg því þetta eru lifandi verur sem halda 37°c hita á drottningunni og sjálfum sér um leið og gefa þar af leiðandi frá sér raka sem aftur getur myndað myglu í búinu. Eins þarf að ganga þannig frá að engir óboðnir gestir svo sem mýs komist í búin“. Elín segist einungis hafa selt sitt hunang gestum og gangandi en einnig farið á þá markaði sem séu haldnir í grenndinni.

 

 

Ritstjórn júlí 8, 2014 13:18