Sveitarfélög í landinu hafa heimild til þess í lögum að lækka eða fella niður fasteignaskatt hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrsþegum og ýmis sveitarfélög hafa nýtt sér þá heimild, svo sem Reykjavík og Garðabær. Vestmannaeyjarbær hefur gengið lengst í þessum efnum og fellt niður fastgeignagjöld af íbúðarhúsnæði allra sem eru sjötugir og eldri. Innanríkisráðuneytið telur það lögbrot. Bent hefur verið á að það sé ekki endilega sjálfgefið að allir eldri borgarar hafi lágar tekjur.
Væri í samræmi við stefnu stjórnvalda
Jóna Valgerður Kirstjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara telur að það væri til bóta og myndi hjálpa fólki til að búa lengur heima, ef fasteignagjöld yrðu afnumin hjá þeim sem eru 70 ára og eldri, enda sé það almenn regla að menn hætti launaðri vinnu þegar þeir verða sjötugir. Hún segir að það myndi einnig styðja við þá yfirlýstu stefnu stjórnvalda, að aðstoða menn til að búa eins lengi heima og kostur er. Á móti myndi þörfin fyrir innlagnir á dvalar- og hjúkrunarheimili minnka. Jóna Valgerður segir þetta í samræmi við stefnu Landssambandsins, sem á síðasta ári óskaði eftir því að ný stefna yrði tekin upp við álagningu fasteignagjalda af húsnæði sem menn ættu og byggju í. Hún veltir einnig fyrir sér sjálfstæði sveitarfélaga í þessu sambandi. Á landsfundi Landssambandsins í fyrra var því beint til ráðamanna að óska lagaheimilda fyrir sveitarfélögin til að afnema fasteignagjöld af húsnæði eldri borgara.