Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar
„Mikið hefur lífið verið dásamlegt“, sagði öldruð kona sem ég heimsótti á dánarbeði á hjúkrunarheimili. „Svo er hjúkrunarfólkið hér svo dásamlegt“ , bætti hún við. Ég sagði við hana að það væri vegna þess hve hún væri sjálf jákvæð og lífsglöð. „Þú færð til baka það sem þú gefur“, bætti ég við. Hún leit til mín þakklátum augum. Ekki skilja allir við þennan heim með svo jákvæðum huga. Við sem erum svo lánsöm að fá að lifa langan aldur og hamingjusömu lífi með makann okkur við hlið erum þakklát og vitum að slíkt er ekki sjálfgefið. Það var mér áfall þegar ég missti föður minn 21 árs gamall en hann var 56 ára þegar hann lést. Móðir mín var ekkja í 20 ár. Því ég er þakklátur fyrir þau öll þau ár sem ég hef fengið að lifa, sjá börn og barnabörn vaxa úr grasi og fá tækifæri til þess að vinna að hugarefnum í leik og starfi. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það kemur að ævilokum.
Dauði og endalok lífsins eru ekki það sem við leiðum daglega hugann að og flest viljum við sem minnst um þau hugsa. Í mínum huga er dauðinn ekki kvíðaefni. Ég er trúaður og trúi á líf að loknu þessu lífi. Í vetur sótti ég fyrirlestur á Þjóðminjasafninu um greftrunarsiði sem hefur kennt mér mikilvægi hinstu stundar ástvina. forfeðra okkar. Ég áttaði mig þá fyrst á merkingu orðsins „útför“. Forfeður okkar voru búnir til brottfarar til annars heims, útfarar. Dauðinn var ekki endastöð heldur undirbúningur ferðar til annars og betri heims. Ég hafði tækifæri til þess að fylgjast með hvernig undirbúningur „brottfararinnar“ á sér stað þegar ég var stjórnarformaður Útfararstofu kirkjugarðanna. Margt áhugavert kom fram í því starfi.
Margir og vonandi flestir ljúka æviskeiði sínu í sátt við tilveruna. Hins vegar eru aðrir sem yfirgefa þennan heim með eftirsjá og vangaveltum um hvernig þeir hefðu viljað lifa lífinu á annan hátt. Slíkt ætti enginn að gera, heldur horfa til baka á björtu hliðar lífsins og ýta því til hliðar sem betur hefði mátt fara. Fyrir nokkru fékk ég ábendingu um áhugaverða bók sem heitir Algengustu 5 eftirsjár þeirra deyjandi (Top 5 Regrets of The Dying). Bókin er eftir ástralskra hjúkrunarkonu Bronnie Ware. Í átta ár annaðist hún umönnun fólks sem beið endalokanna. Tímabil umönnunarinnar var 3 til 12 vikur fyrir andlátið. Í viðtölum við þessa einstaklinga kom oft fram eftirsjá og hugleiðingar um að þeir hefði viljað haga lífi sínu á annan hátt en gert hafði verið. Bronnie tók eftir því að sömu atriðin voru síendurtekin. Hún stofnaði bloggsíðu „Inspiration and Chai“ (http://bronnieware.com) sem vakti mikinn áhuga. Síðan skrifaði hún ofangreinda bók sem kom út árið 2012 og vakið hefur mikla athygli. Bronnie tók saman 5 atriði sem sem henni fannst vera efst á lista þeirra sem nálgast hinstu stund.
Þessi 5 atriði eftirsjár fara hér á eftir. Útskýringar eru úr blaðaviðtali við Bronnie:
- Ég vildi að ég hefði haft hugrekki til þess að lifa lífinu samkvæmt sjálfri mér en ekki eins og aðrir ætluðust til af mér.
- Þegar endalokið nálgast er auðveldara að átta sig á því að margir draumar hafa ekki ræst og það var eigin sök.
- Ég vildi að ég hefði ekki lagt svo hart að mér í vinnu.
- Bronnie segir alla karlmenn hafa rætt þessa eftirsjá en einnig hafi þetta komið fram hjá konum.
- Ég vildi að ég hefði haft hugrekki til þess að tjá tilfinningar mínar.
- Fólk bælir oft tilfinningar sínar í þeim tilgangi að halda frið við aðra og hæfileikar þess fá því oft ekki að njóta sín. Slíkt getur þróað veikindi sem afleiðing af biturleika.
- Ég vildi að ég hefði haldið betra sambandi við vini mína
- Oft gerir fólk sér ekki grein fyrir mikilvægi vináttunnar fyrir en í lokin og sakna þess að hafa tapað sambandi við góða vini fyrri ára.
- Ég vildi að ég hefði leyft sjálfum mér að vera hamingjusamari.
- Þessi eftirsjá var mjög algeng segir Bronnie. Margir gera sér ekki grein fyrir því fyrr en í ævilok að hamingja er líka val. Margir hafa fests í viðjum vanans og hafa óttast að gera breytingar í lífi sínu.
Langt mál má hafa um hverja og einstaka þætti en ekki eru tök á því í stuttum pistli. Þeim sem vilja kynna sér málið nánar er bent á að fjölda blaðagreina á netinu um þessa bók og viðtöl við Bronnie. Bókin fæst á Amazon bæði í prentuðu og rafrænu formi. Í bókinni er margar áhugverðar frásagnir sem höfða til okkar eigin reynslu. Með lestri bókarinnar á yngri árum má létta álagi vegna eftirsjár þegar líður að ævilokum.
Þessi áhugaverði pistill er úr safni Lifðu núna og birtist hér aftur örlítið uppfærður.