Tengdar greinar

Hvernig á að drepa fjölskyldu sína?

Hvernig á að drepa fjölskyldu sína eftir Bellu Mackie er satíra. Grace Bernard elst upp hjá einstæðri móður sem berst í bökkum en faðir hennar er forríkur auðnuleysingi sem hugsar um það eitt að skemmta sér og ákveður að gangast ekki við barninu sínu. Þegar móðir Grace deyr kemst hún að því að afi hennar og amma höfðu einnig ákveðið að hafna henni fer hún að leggja á ráðin um djöfullega hefnd.

En karma getur bitið fólk býsna fast í rassinn og þegar bókin hefst er Grace í fangelsi fyrir morð sem hún framdi ekki. Lesendur komast hins vegar fljótt að því að hún er alls ekki saklaus þótt þennan tiltekna glæp hafi hún ekki framið. Margir virðast mjög hrifnir af þessari bók en hún er alls ekki gallalaus. Þótt hér séu margar sniðugar hugmyndir og snúningar á sögunni vantar talsvert upp á að nógu vel sé unnið úr þeim. Textinn er langdreginn og persónur eru flestar of einsleitar.

Það má segja að Grace minni svolítið á Villanelle í Killing Eve. Hún sér hlutina algerlega út frá sínu sjónarhorni og virðist ekki hafa mikla samlíðan með öðrum. Fjölskyldumeðlimir hennar eru upp til hópa andstyggilegt og samviskulaust fólk líka svo það má segja að margt sé líkt með skyldum. Á hinn bóginn er hér líka verið að deila allhressilega á stéttskiptingu og það líferni sem hinir ofurríku virðast hvorki sjá neitt athugavert við né vera kallaðir til ábyrgðar á vegna afleiðinga gerða þeirra. Það á við hvort sem um er að ræða bræðurnar tvo, Simon (föður Grace) og Lee, sem báðir lifa hátt og notfæra sér konur miskunnarlaust eða áhrifavaldinn systur hennar sem rústar þjónum á veitingahúsum bara vegna þess að hana vantar efni og mælir hiklaust með vörum sem hún myndi aldrei nota sjálf. Það vantar hins vegar að skerpa á þessu og draga skýrari línur. Í bókinni eru samt kaflar sem er skemmtilegir og Andrew, frændi Grace er áhugaverður.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 10, 2024 07:00