„Þú verður að fá þér blund einhvern tíma milli hádegisverðar og kvöldverðar og ekkert hálfkák“, skrifaði Winston Churchill. „Háttaðu þig og leggstu í rúmið. Þetta geri ég alltaf. Þú munt verða fær um að afkasta meiru. Þú færð tvo daga fyrir einn, eða að minntsa kosti einn og hálfan“.
Mörgum finnst, rétt eins og Churchill, frábært að leggja sig á daginn. Raunar er það svo, að því eldri sem við verðum, þeim mun líklegra er að við fáum okkur blund á daginn. Kannanir sýna að meira en helmingur fólks sem er 75 ára eða eldra, fær sér blund að degi til að minnsta kosti tvisvar í viku.
Þetta virðist vera einfalt og meinlaust. En vísindamenn hafa í áratugi rannsakað þetta fyrirbæri, að fá sér blund á daginn, til að skilja hvernig það hefur áhrif á allt mögulegt, til dæmis heilsufar og nætursvefn manna. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt tengsl á milli þess að blunda og heilsufarsvandamála. Góðar fréttir er hins vegar að finna í nýlegum rannsóknum, sem sýna að menn verða skýrari í hugsun ef þeir blunda yfir daginn.
„Það er gott fyrir heilsuna að blunda og hefur jafnvel mikilvæga kosti í för með sér“, segir vísindamaðurinn Thomas J. Balkin. En til að njóta kostanna er mikilvægt að vita hvenær og hversu lengi menn eiga að fá sér blund.
Sjónminnið verður betra. Elizabeth McDevitt vísindamaður við Háskólann í Kaliforníu segir kannanir sýna að sjónminni fólks minnki almennt þegar líður á daginn. „Við uppgötvuðum að sjónminni fólks minnkar ekki þegar það leggur sig og sofnar. Það eykst frekar“.
Minnið batnar. „Þegar fólk blundar viðist það styrkja hæfileika heilans til að læra“, segir McDevitt. Hún telur líklegt að það geti minnkað hættu á að minnisleysi versni hjá fólki, ef það fær sér blund yfir daginn. En það hafi hins vegar ekki verið rannsakað ennþá.
Verða hæfari til að leysa vandamál. Það að blunda getur hresst uppá heilastarfsemina sem kemur sér vel fyrir ýmsar stéttir, svo sem flugumferðarstjóra og hermenn. Rannsókn sem gerð var hjá NASA, Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, á frammistöðu herflugmanna og geimfara í starfi, sýndi að 40 mínútna svefn að deginum bætti árangur fólks almennt um 34% og jók árvekni um 100%. Þar að auki, telja vísindamennirnir að hæfni fólks til að leysa vandamál á skapandi hátt, aukist ef það fær sér blund yfir daginn.
Google fyrirtækið býður starfsmönnum sínum uppá aðstöðu til að fá sér stuttan blund á daginn, alveg eins og það sér þeim fyrir líkamsræktar- og hugleiðsluaðstöðu. Fleiri stórfyrirtæki hafa farið að dæmi þeirra, segir í umfjöllunum þetta á bandarísku vefsíðunni aarp.org