Að festast í lit

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég gekk niður Laugaveginn á sunnudaginn, gjóaði augunum að búðarglugga og sá þar skærgrænan kjól. Einmitt snið fyrir mig, hugsaði ég. Langar ermar og fallegur kragi upp að hálsinum. Á sömu stundu rak ég tánna í gangstéttarhellu sem var hærri en hinar og flaug bókstaflega á hausinn. Ég er búin að vera blá og marin síðan, en óbrotin! Ég hef vorkennt mér mikið undanfarna daga enda óhentugt að geta ekki gert neitt með annarri höndinni. Í þessu ástandi mínu varð mér aftur hugsað til kjólsins. Hvenær keypti ég síðast eitthvað grænt?  Ég sannfærði manninn minn um að kjólinn yrði ég að eignast. Fallið rifjaðist upp fyrir mér þegar ég skrölti upp tröppurnar, inn í búðina og keypti þann græna. Umhverfisvæn bómull, til og með. Ég starði niður fyrir tærnar á mér á heimleiðinni til þess að gæta mín á gangstéttarhellunum, glöð með þann græna í umhverfisvænum bréfpoka.

Allt í einu áttaði ég mig á því að ég hafði ekki átt græna flík síðan á fyrstu árunum mínum í sjónvarpinu. Ég hafði nefnilega festst í bláum lit, að ógleymdum þeim svarta, sem okkar ástkæra Vigdís Finnbogadóttir segir að hæfi aðeins ekkjum, sem ég er ekki sem betur fer. Þegar ég horfi á fötin mín í fataskápnum blasa við mér fimm bláir kjólar og jafnmargir svartir. Að auki á ég nokkrar bláar peysur og blússur, pils, kápu og þrjá útijakka. Allt blátt en þó með smá blæbrigðum. Nokkur pör af bláum skóm eru fylgihlutir með þessu bláa fatasafni.

Í raun er ég orðin hundleið á þessum bláa fatabunka. Ég man ekki lengur hvernig bláa bylgjan byrjaði. Mér hefur aldrei þótt blátt sérstaklega fallegur litur og er alls ekki viss um að hann klæði konu á mínu aldri.

Ég er sannfærð um að ég er ekki eina konan sem hefur festst í lit. Þetta gerist hægt og bítandi. Eitt plaggið passar við annað og að lokum ertu orðin helblá. Ég á elskulega vinkonu sem fór í litgreiningu fyrir áratug eða svo. Eftir það hefur hún verið föst í brúnu og gulu, litir sem sérfræðingurinn sagði að pössaðu henni. Þeir fara henni líka mjög vel. Ég fór aldrei í litgreiningu og held að þessi kaldi, blái litur geri ekkert fyrir mig. Og nú er orðið allt of seint að fara í litgreiningu.

Ég fór út að borða í nýja græna kjólnum. Það hældi mér enginn og ekki kjólnum heldur. En samt kom ég glöð heim og ánægð með mig. Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér heiti á sjónvarpsþætti sem ég gerði fyrir áratugum. Hann hét Allt er vænt sem vel er grænt. Þetta var reyndar þáttur um hollar matarvenjur en ekki um fatnað. En kannski gæti þetta líka átt við ef kjóllinn góði verður til þess að opna nýtt litatímabil í mínu lífi. Ég er orðin skárri í höndinni og sú hugsun læðist nú að mér að fallið á Laugaveginum hafi ef til vill verið fararheill inn í nýja litaheim.

P.s Ég á líka bláan bíl.

 

Sigrún Stefánsdóttir október 31, 2022 07:00