“Ég sagði oft við fólkið mitt að ég ætlaði nú ekki að fara að ergja mig á einhverju sem hefði hent, það væri nægur tími til þess þegar ég væri orðin níræð,” segir Þóra Hallgrímsson og hlær en hún varð einmitt níræð fyrir skömmu. Hún segist ekki hafa átt von á því endilega að ná svo háum aldri, hefði bara nefnt nógu háa tölu til að geta ýtt frá sér leiðinlegu umræðuefni. En nú er sá tími kominn en hún ætlar nú ekki að fara að taka upp á því núna að velta sér upp úr leiðinlegum hugsunum. Þess í stað ver hún tímanum í skemmtilega hluti eins og að spila bridds vikulega með hópi kvenna sem einu sinni stunduðu leikfimi saman. “Við hittumst hálfsmánaðarlega heima hjá einhverri okkar og hina vikuna hittumst við á Hótel Sögu en þar er tekið á móti okkur í fundarherbergi og þeir senda okkur veitingar þangað um kaffitímann,” segir Þóra og augljóst er að þetta eru skemmtilegar stundir. “Ég er elst í hópnum en þær fylgja fast á eftir,” segir hún kankvís. Þóra er eiginkona Björgólfs Guðmundssonar athafnamanns.
Nú er það heilaleikfimin sem gildir
“Í gamla daga vorum við að hugsa um að halda líkamanum sterkum og liðugum í leikfimi en nú hugsum við meira um að halda höfðinu í góðu lagi,” segir Þóra og brosir. “Ég passa samt vel að hreyfa mig daglega, fer gjarnan í göngutúra í nágrenninu því þá líður mér miklu betur í líkamanum.”
Hefur ekki viljað binda sig í félagsskap
Þóra segist ekki hafa viljað binda sig í félagsskap þar sem hún hefði skyldum að gegna því hún hafi verið mikið á ferðalögum um ævina. Hún hefur látið leikfimi og bridds nægja því þar skiptir minna máli ef meðlimir mæta ekki alltaf því það er varamaður til taks. Hún segir að það sé hins vegar svo skemmtilegt að hitta “stelpurnar” að meðlimir mæti nánast alltaf nema um veikindi sé að ræða.
Þykir hún heppin
Þóru þykir hún vera heppin að vera uppi á tímum þegar við höfum dagblöð, útvarp og sjónvarp og manni þurfi þess vegna aldrei að leiðast. “90 ára er ekkert sérstakt” segir hún. “Ég man eftir manni sem varð 105 ára og hann var farinn að fá bréf eins og börnin á leikskóla fá,” segir Þóra og skellir upp úr. “Það er fyrst þá sem við getum farið að tala um gamalt fólk þegar kerfið getur ekki samþykkt aldurinn á manni. 90 er þess vegna ekki mikið,” segir þessi lífsglaða kona sem sannarlega nýtur lífsins og segist vera heppin manneskja í dag þrátt fyrir háan aldur og ýmis áföll sem lífið hefur fært henni. Svo hef ég heyrt kvartanir fólks um að þurfa að vera heima vegna covid faraldursins. Það er ekki eins og verið sé að biðja okkur um að fara út á vígvöll eða senda börnin okkar þangað heldur bara að halda okkur heima og smitast ekki og smita ekki aðra og það þykir mér vera lúxus,” segir Þóra sem man tímana tvenna.
Gott að búa á Íslandi
Þóra er mjög ánægð með að eiga heima á Íslandi. Hún eignaðist fimm börn um ævina en tvö þeirra eru látin. Dóttir hennar, Bentína, býr hér á landi og Björgólfur Thor býr í Englandi og Hallgrímur í Thailandi. Þóra var 21 árs þegar fyrsta barn hennar fæddist og segir að mjög algengt hafi verið að stúlkur eignuðust börn svo ungar þá. Nú kjósi konur oft að klára nám og koma sér fyrir á vinnumarkaði áður en farið er að huga að barneignum. Ein vinkona hennar hafi til dæmis verið komin vel yfir fimmtugt þegar fyrsta barn hennar fæddist og Þóra segir það vera til marks um hversu mjög tímarnir hafi breyst á ævi hennar. “Auðvitað hefur margt breyst, sumt gott en annað ekki.”
Dásamleg afstaða til lífsins
Þegar Þóra er beðin um að gefa fólki ráð eftir langa ævi segir hún að hún vilji minna alla á að reyna af fremsta megni að njóta hvers tímabils því alltaf sé hægt að sjá ljósu hliðarnar. “Lífið býður okkur upp á svo mismunandi aðstæður á mismunandi tímum,” segir Þóra. “Stundum hef ég hikað og hugsað með mér: „Ah, þetta er nú aðeins of mikið og hvað er nú ætlast til að ég læri af þessu? En þegar frá líður hefur yfirleitt komið í ljós að ég hef getað sagt við sjálfa mig: Já, það var sannarlega gott að ég upplifði þetta þótt það hafi verið erfitt á meðan á því stóð.” Niðurstaðan er því sú að Þóra lærði eitthvað af öllu því sem hefur hent hana um ævina. “Maður sér það bara ekki á meðan hlutirnir eru að gerast en öll él birtir upp um síðir. En um leið og ég segi það veit ég að auðvitað komast ekki allir farsællega út úr lífinu. Það eru til aðstæður sem við ráðum ekki við. En vonandi erum við svo lánsöm hér á Íslandi að geta hjálpað þeim sem þurfa á því að halda. Ég hef sjálf verið heppin.”
Dóttir um móður
“Mamma er óvenjulega jákvæð manneskja og hefur einstakan hæfileika til að leiða erfiða hluti hjá sér,” segir Bentína. “Lífið býður okkur upp á mismikið og mamma hefur alveg fengið sinn skammt. Henni hefur tekist að forgangsraða og sortera frá það sem skiptir máli og hún hefur náð mikilli tækni í að leiða hjá sér það sem hún hefur ekki getað gert neitt við sjálf. Sumir festast í reiði eða gremju en hún heldur bara áfram og kemur alltaf auga á það jákvæða þótt stundum hafi veröldin virst hafa hrunið í kringum hana,” bætir Bentína við. “Og þá kemur að lykilatriði sem er pabbi. Þau eru nefnilega svo ástfangin enn þá og vinna svo vel saman. Þegar hallar á annað þá er hitt alltaf reiðubúið að grípa. Þetta er í raun ótrúlegt því ýmislegt hefur gengið á en þau eru svo einstakt lið. Mamma er svo mikill unglingur í sér og hann er gömul sál svo það skiptir engu máli þótt hún sé svolítið eldri en hann,” segir Bentína og brosir og er augljóslega stolt af foreldrum sínum.
Þóra Hallgrímsson lést þann 27. ágúst 2020. Þetta viðtal við hana birtist á vef Lifðu núna í maí sama ár.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.