Fyrir þremur árum klifraði William Mamel upp stiga í íbúð Margaret Sheroff og gerði við bilaða viftu í loftinu. Þetta braut ísinn á milli þeirra tveggja og þegar William fór, kvaddi hann Margaret með kossi. Síðan þá hafa þau verið saman, hann er orðinn 87 ára og hún er 74. „Ég borða kvöldverð með Margaret flest kvöld og gisti oft hjá henni,“ segir William. Þrátt fyrir að þau eigi í ástarsambandi kjósa þau að búa sitt í hvoru lagi og tilheyra vaxandi fjölda eldri borgara í Bandaríkjunum og víðar sem kýs að vera í sambandi án þess að búa saman. Þetta er nýtt fjölskylduform sérstaklega hjá eldra fólki segir Laura Funk prófessor við Háskólann í Maitoba í Canada í nýlegri grein í Time. En um leið og fólk kýs að haga samböndum sínum á þennan hátt vakna óhjákvæmilega margar spurningar. Hvaða áhrif hefur þetta á heilsu og líðan eldra fólks? Samþykkja börn úr fyrri hjónaböndum þetta fyrirkomulag. Hvað gerist ef annað hvort verður veikt og þarfnast mikillar umönnunar. Fræðimenn eru í vaxandi mæli farnir að skoða sambönd af þessu tagi. Ekki er vitað um fjölda para í slíkri fjarbúð en samkvæmt rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum voru 7 prósent fólks á aldrinum 57 til 85 ára í sambandi án þess að búa saman fyrir 13 árum.
Jacquelyn Benson, aðstoðarprófessor við Háskólann í Missouri stóð fyrir rannsókn á fólki sem er í sambandi án þess að búa saman. Hún rannsakaði 25 sambönd fólks á aldrinum 60 til 88 ára og vildi fá að vita hvers vegna fólk kysi að vera saman án þess að gifta sig eða flytja saman. Eldra fólk sér þetta sem raunverulegt val. Fólk vill eiga í nánum samskiptum en eiga áfram sitt eigið heimili, vini, áhugamál og hafa sjálfstæðan fjárhag. Þeir sem höfðu skilið eða verið í óhamingjusömu hjónabandi vildu ekki binda sig aftur og töldu að hæfileg fjarlægð í sambandinu væri best í daglegum samskiptum. Nokkrar konur sem höfðu þurft að annast veika maka eða foreldra vildu líka forðast að þurfa að gera slíkt aftur eða að þurfa að stjórna heimilishaldi á nýjan leik. „Ég er búin að þessu öllu“ er viðhorf þessara kvenna. „Ég sá um manninn minn og ól upp börnin nú er kominn tími til að ég sinni mér,“ segja konurnar.
Að annast um aðra manneskju er flókið mál. Það hefur lítið verið rannsakað hvernig slíku er háttað í samböndum þar sem fólk kýs að vera saman án þess að búa saman. Eina þekkta rannsóknin á þessu sviði er hollensk. Samkvæmt henni ætlaði helmingur þeirra sem voru í sambandi án þess að búa saman að annast um félaga sinn ef hann yrði veikur eða mjög hrumur. Benson einn af aðstandendum rannsóknarinnar segir að menn gleymi því að fólk verði tilfinningalega skuldbundið hvort öðru þegar það er saman án þess að búa saman, því segist það ekki geta hlaupist undan merkjum ef annað missir heilsuna. Ýmsar flækjur geti komið upp í samböndunum sérstaklega þegar börn af fyrri samböndum vilja ekki samþykkja sambönd foreldra sinna eða leyfa félaga þeirra ekki að hafa neitt að segja um umönnun þeirra. Benson segir að stundum sé fólki ýtti í burtu af ættingjum og börnum, hafi það skoðun á hvernig eigi að annast um veikan félaga þess. Hún segir að gömul kona sem tók þátt í rannsókn hennar hafi verið mjög leið þegar hún komst að því að það var búið að flytja kærastann hennar á hjúkrunarheimili án þess svo mikið sem láta hana vita. Það var ekki fyrr en hún fór að spyrjast fyrir um hann, eftir að hún hætti að ná sambandi við hann heima, sem hún fékk að vita hvar hann væri.
Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á hvaða áhrif það hefur á lífsgæði fólks að vera saman án þess að búa saman. Í einni þeirra kom þó fram að að eldra fólk í slíkum samböndum taldi að það væri ekki jafn hamingjusamt og nyti minni stuðnings frá félaga sínum en þeir sem voru giftir. Þetta er þó ekki raunin hvað varðar hina 90 ára gömlu Luci Dannar sem hefur verið í sambandi við hinn 94 ára James Pastoret síðast liðin sjö ár. Þau hittust á dansleik í félagagsmiðstöð fyrir eldri borgara. Ég hafði á tilfinningunni að hann væri mjög sorgmæddur vegna andláts eiginkonu sinnar fimm mánuðum áður, segir Dannar en hún hafði misst mann og elstu dóttur 19 árum áður. Mér datt í hug að ég gæti hjálpað honum í gegnum sorgarferlið vegna reynslu minnar af því að missa fólk sem var mér svo náið.
Samband þeirra tveggja þróaðist en Dannar hafði ekki í hyggju að fara að búa með honum. Ég sagði honum að ég vildi ekki gifta mig aftur og hann sagði að honum væri líkt farið. Þau kusu að búa áfram í eigin íbúðum en á daginn kom að þau voru nágrannar. Mér líkar sjálfstæði mitt segir Pastoret. Hann borðar kvöldverð með með Dannar á hverju kvöldi en sefur heima hjá sér. Dannar segir að þau kunni vel að meta það að eiga sitt út af fyrir sig. Ólíkt mörgum öðrum í svipaðri stöðu, hafa Dannar og Pastoret rætt um framtíðina. Við ætlum að líta til með hvort öðru þangað til annað okkar fellur frá eða við þurfum að fara á hjúkrunarheimili, segja þau.
Ein íslensk kona hefur greint frá reynslu hennar og vinar hennar af því að vera saman án þess að búa saman. Það gerði Sigríður Halldórsdóttir í minningabók sinni Elsku Drauma mín sem Vigdís Grímsdóttir skráði. Sigríður kynntist Hans Kristjáni Árnasyni í byrjun þessarar aldar.
Einhvern veginn gerist það að í eitt skipti rekumst við eitthvað svo harkalega á að við höfum loðað saman síðan. Hosi er með skemmtilegri mönnum sem ég hef kynnst. Hann er líka skapgóður, en ákveðinn og á til óhemju frekju. En það vill til að það bitnar ekki á mér. Ég hlusta nefnilega ekki á það. Hann frekjast í sínu ef hann vill. Ég í mínu ef ég vil. Aðalmálið er að okkur finnst kvalitet að vera saman; það sem við gerum, það sem við lesum, það sem við leikum okkur, það sem við eigum saman, það er okkar elexír og undrameðal og við erum glöð að hafa kynnst.“ (214)
Okkur finnst ofboðslega gaman að ferðast saman um landið. Það er raunar mikið upp á okkur typpið þegar við skoðum hitt og þetta. Hittum kalla og kellingar og fræðumst um hvern hrepp og hérað.
Já við erum fullorðnar manneskjur sem högum gaman af návist og félagsskap, hvors annars; það er líka gott að halda sjálfstæði sínu. Við búum ekki saman þótt við séum mikið saman; ég er enginn nauðungarhúsfreyja og verð aldrei og hann er enginn skósveinn og verður aldrei.“ (216-217)