Bjarni Þór Jónatansson hefur hjólað til vinnu í um 35 ár og segir það hafa verið tilviljun að hann byrjaði að hjóla. Hann er nú sestur í helgan stein og sinnir því sem hann hafði ekki tíma til áður en hjólar enn allra sinna ferða ef hann mögulega getur, vetur, sumar, vor og haust. Hann segir margt hafa breyst á þessum árum til batnaðar en jafnframt að hraði á hjólastígum sé gjarnan of mikill sem bjóði hættunni heim auk þess sem mengun sé víða í borginni.
Bjarni Þór Jónatansson tónlistarmaður segir aðspurður að hjólreiðar sínar hafi hafist þegar hann og eiginkona hans, Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir, eignuðust tvíbura, sem nú eru löngu orðnar fullorðnar. Hann hefur hjólað nær óslitið síðan til vinnu og segist vera orðinn svolítið háður því að hjóla.
„Þegar ég ólst upp á Eyrarbakka var ekki mikið um hjól en ég átti samt alltaf hjól,“ segir Bjarni og nefnir að fáir hafi notað hjólið sem samgöngutæki fyrir 1960 þegar hann var að alast upp á „Bakkanum“. Það var þó einn og einn að sögn Bjarna. „Á Stokkseyri bjó Pálmar Eyjólfsson tónskáld. Hann átti mörg þekkt lög og skrifaði svo vel nótur að verkin hans voru prentuð með hans skrift. Pálmar var kvæntur konu úr Gaulverjabæjarhreppi, hann var með heimili á báðum stöðum í nokkur ár og hjólaði alltaf á milli. Þetta var fyrir 1960 og var töluverð leið og öll á malarvegum. Ég get ekki sagt að ég hafi hjólað neitt að ráði fyrr en ég flutti löngu seinna frá Akureyri, þar sem er náttúrlega mikið um brekkur, til Reykjavíkur, 1982. Ég bjó í Þingholtsstræti og byrjaði þá að hjóla. Ég átti 10 gíra GPS-hjól og hjólaði til vinnu í Nýja tónlistarskólann sem var og er á Grensásvegi, en ekki yfir bláveturinn fyrstu árin því þá var ekki hægt að fá nagladekk á hjól,“ segir Bjarni. „Eftir það gat ég hjólað allt árið. Ég flutti 1987 í Kópavog og hef síðan þá hjólað alltaf til vinnu.“
Gerðirðu þetta þér til heilsubótar? „Ég eiginlega veit það ekki. Við höfum alltaf verið með einn bíl og einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég fór að hjóla til vinnu. Það var enginn ásetningur að fara að hjóla.“ Hann tekur fram að þegar snjólétt hafi verið á veturna hafi hann getað hjólað alla daga til vinnu fyrir utan örfáa daga. „Ég var ekki nema um 20 mínútur að hjóla á milli. Jóna konan mín segir stundum að þó að mér standi bíllinn til boða þá nenni ég ekki á honum.“
Gríðarleg breyting fyrir hjólreiðafólk
Bjarni segir margt hafa breyst síðan hann fór að hjóla daglega og flest til batnaðar. Hjólastígar séu um allt en þar sé oft mikill hraði og fjöldi fólks. Hann segir líka að mengun sé víða mikil í borginni sem geti ekki talist hollt fyrir hjólandi fólk.
Hvað hefur breyst frá því þú byrjaðir að hjóla? „Það hefur orðið gífurleg breyting á þessum árum frá því að ég hóf hjólreiðar, það voru ekki margir sem hjóluðu þá en það voru þó alltaf einhverjir sem hjóluðu í vinnu. Það hefur hins vegar orðið sprenging í hjólreiðum í dag. Það voru til dæmis engir hjólastígar hér áður en þeim hefur fjölgað á hverju ári, gífurlega. Það eru hjólastígar milli borgarhluta og fleira,“ segir Bjarni.
En hvernig fannst þér að hjóla frá vinnustaðnum sem er við Grensásveg sem er mikil umferðargata og í Kópavoginn, það eru miklar umferðargötur á þessari leið? „Ég hef sneitt hjá umferðinni og alltaf hjólað sömu leiðina, farið stíga og ekki hjólað í umferðinni. Ég hef farið undan henni, hjólað stíga niður í Fossvogsdal úr Kópavogi, og sneitt hjá umferðinni,“ segir Bjarni með áherslu. „Það eru stígar út um allt núna og margir komnir á rafhjól svo fólk getur hjólað lengri leiðir.“ Bjarni segir aðspurður að öryggi hjólreiðafólks hafi aukist til muna með hjólastígunum, það sé hægt að hjóla meðfram umferðargötum nánast hvar sem er, slíkt hafi ekki verið hægt áður. „Það voru bara gangstéttirnar þar sem þær voru og þar gat hjólreiðafólk hjólað.“
Finnst þér nóg gert til að auka öryggi hjólreiðafólks og aðstæður til hjólreiða og finnst þér fólk hjóla á hæfilegum hraða? „Umferðin á hjólum er margfalt meiri nú en áður og samfara því er aukin hætta. Fólk er líka á hraðskreiðari hjólum þannig að það er stundum svolítil þrengsli á hjólastígunum, tala nú ekki um ef það er líka margt gangandi fólk eins og var í COVID-faraldrinum. Svo eru það rafskutlurnar, þær eru skildar eftir kannski á miðjum stígum og geta valdið slysum, maður sér þær ekkert fyrr en allt í einu kannski og þá of seint og svo eru þær alveg hljóðlausar. Stígarnir eru líka misöruggir en eins og ég sagði þá er hægt að hjóla milli borgarhluta, til dæmis upp í Grafarvog og alveg hringinn um Reykjavík og það er stöðugt verið að gera nýja.“
Bættar aðstæður hjólreiðafólks en mengun mikil
Bjarni segir að þrátt fyrir bættar aðstæður hjólreiðafólks hvað varðar stíga þá séu tvær hliðar á peningnum. „Það er verulega bætt í en það er spurning hversu hollt það er að hjóla í borginni því mengun er víða, til dæmis á Miklubrautinni þar sem hjólreiðafólk er ofan í umferðinni. Hún hefur margfaldast og þegar fólk þarf að fara til vinnu í mestu umferðinni þá er umferðin miklu meiri nú en áður.“
Finnur þú eitthvað fyrir menguninni sjálfur? „Ekki svo, ég er kannski ekki heldur að fara á milli á þeim tíma þegar flestir aðrir eru að fara til og frá vinnu.
Nú er verið að beina fólki mikið inn á þessa braut að hjóla sem er gott en bílaumferðin hefur líka aukist mjög mikið, skýtur blaðamaður inn í. „Já hér á Grensásveginum er stappa milli fjögur og fimm á daginn. Þetta er góð dagleg hreyfing og maður verður dálítið háður henni.“
Telur þú að hægt væri að auka hjólreiðar til samgangna í borginni? „Ef eitthvað væri hægt að fækka bílum með því að beina fólki á hjólin þá væri það gott en ég tel að hjólið verði aldrei verðugur arftaki bílsins, mér finnst frekar að bílum sé verulega að fjölga á götunum. Mér finnst líka margir kvarta yfir almenningssamgöngum að þær séu ekki nógu öruggar og fleira í þeim dúr. En þetta er líka lífsstíll að hjóla,“ segir Bjarni. Hann segir að margir sem hjóli í umferðinni séu á hraðskreiðari hjólum og að það fari ekki hjá því hjólreiðaslys geti verið mjög slæm og að ekki megi mikið út af bera en að ökumenn séu mun tillitsamari nú við hjólreiðafólk en áður.
Hann segist ekki leggja mikið upp úr að vera á dýru hjóli nú og það er ástæða fyrir því. „Ég hef látið það vera að fara undanfarin ár í fín hjólamerki, en það er búið að stela frá mér tveimur hjólum. Þannig að mér finnst best að vera ekki á of dýrum hjólum.“
Langar að hjóla Jakobsveginn
Hjólar þú þér líka til ánægju, t.d. úti í náttúrunni? „Ég hef nú lítið gert af því innanlands, fer frekar í gönguferðir. Ég hjólaði þó svokallaðan píslarhring kringum Mývatn á föstudaginn langa fyrir mörgum árum, gæti vel hugsað mér að hjóla erlendis, til dæmis Jakobsveginn,“ segir Bjarni. Hann segir marga hjóla þannig, nota hjólið ekki sem samgöngutæki heldur sér til tómstunda og telur að það sé miklu meira um það nú en áður.
Nú ert þú tónlistarmaður, hefurðu hjólað þegar þú ert að fara að spila á tónleikum eða við athafnir? „Það samræmist nú ekki mjög vel, tónleikaklæðnaðurinn og hjólagallinn,“ segir Bjarni og hlær. Hann segir suma gera það þó og við hlæjum létt enda þekkjum við bæði vel til tónlistarmanns sem lætur ekkert aftra sér í þeim efnum. „Hann hefur dressið mér sér í poka. Það kom þó fyrir að ég hjólaði til messu, til Reykjavíkur, en mér finnst það svolítið vesen að skipta um fatnað, satt að segja,“ útskýrir Bjarni.
Góðhjartaður hjólaþjófur
Þegar Bjarni er spurður hvort hann eigi einhverja skemmtilega sögu í tengslum við hjólreiðarnar, segist hann reyndar ekki muna eftir neinni sérstakri en segist hafa lent í góðhjörtuðum hjólaþjófi. „Ég var að vinna til sjö að ganga átta í skólanum þegar ég kom niður og hjólið var horfið. Ég keypti þá nýtt en það vildi ekki betur til en svo að nokkru síðar var hnakknum stolið og annar eldgamall og ryðgaður, ansi hár, skilinn eftir í staðinn fyrir mig. Þjófurinn hafði ekki brjóst í sér til að skilja hjólið eftir hnakklaust þannig að ég hjólaði á allt of háum hnakki heim. Ég keypti eftir þetta hnakklás og engu hefur verið stolið af mér síðan. Það var mjög mikið um hjólaþjófnað um tíma og ég held að þar hafi verið að verki atvinnuþjófar sem hafi selt hjólin úr landi. Það sást ekki til hjólanna meir. Það er ekki hægt að skilja eftir mörg hundruð þúsund króna hjól úti yfir daginn því allir lásar eru bara klipptir í sundur. En ég hef sem betur fer ekki heyrt svo mikið um hjólaþjófnaði í svolítinn tíma, segir Bjarni sem enn notar hjólið sem sitt samgöngutæki og hlúir að heilsunni um leið.“
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna