Ákvað ung við Berlínarmúrinn að verða diplómat

Sigríður Ásdís Snævarr á nú að baki vel yfir fjögurra áratuga farsælan feril í utanríkisþjónustunni, en í fyrra var þess minnzt að þá voru þrjátíu ár liðin frá því hún var, fyrst íslenzkra kvenna, skipuð sendiherra. Hún varð sjötug í gær, 23. júní, stendur á tímamótum fortíðar og framtíðar, mörg verkefni snúa að starfslokum og svo má ekki gleyma að huga að lífinu framundan. Af þessu tilefni veitti hún Lifðu núna viðtal um ferilinn og framtíðina.

Undanfarin misseri hefur Sigríður gegnt embætti sendiherra Íslands gagnvart Ástralíu, Páfagarði, Singapore og Malasíu, með aðsetur í Reykjavík. Hún hefur einnig sinnt sérstaklega nýjum mörkuðum, nýsköpun og tækni í samstarfi við Íslandsstofu. Sigríður er ein þeirra reyndu sendiherra í íslenzku utanríkisþjónustunni sem sinnt hafa fyrirsvari gagnvart fjarlægum ríkjum sem Ísland er í stjórnmálasambandi við.

Nýsköpun í milliríkjatengslum

Sendiherra Íslands gagnvart Ástralíu og Ástralíu gagnvart Íslandi, í Reykjavík nú í júní.

Þetta  fyrirkomulag  kallast „heimasendiherrar“ – því sendiherrann er búsettur í Reykjavík – og er í raun íslenzk nýsköpun: Pétur Thorsteinsson sendiherra (1917-1995) hafði kynnzt heimasendiherrum meðal nýfrjálsra ríkja í Afríku sem leystu þannig,  við rýran hag, diplómatísk samskipti við önnur ríki, nær og fjær. Á ellefu árum sem sendiherra í fjarlægum ríkjum tókst Pétri afburða vel að sinna sínu hlutverki, meðan samskipti Íslands við hin stóru ríki Asíu – Kína, Indland, Japan og fleiri voru rétt að hefjast.  Í dag eru mikil og vinnufrek samskipti við þessi ríki og ekki þykir veita af því nú að hafa íslensk sendiráð starfandi þar af krafti. „Sá veldur miklu sem upphafinu veldur og við búum enn að elju Péturs“, segir Sigríður um þennan læriföður sinn, en hann var heimasendiherra í 11 ár og lagði íslenskt net kjörræðismanna um alla Asíu.

Heimsfaraldurinn var mikil áskorun fyrir heimasendiherra eins og Sigríði, því enginn komst lönd né strönd. En þá kom til áhugi hennar á nýsköpun á öllum sviðum. Hún setti í gang fjarfundi meðal fólks úr sínum umdæmum og Íslendinga sem höfðu hagsmuna að gæta í þeim löndum. Hún notaði fjarfundi óspart og tengdi meðal annars Sveinsstofu í utanríkisráðuneytinu við norræna sendiherra í Kuala Lumpur í Malasíu. „Norrænir hádegisverðir með ræðumanni á vegum gestgjafa eru hluti af starfi allra Norðurlandanna í öllum ríkjum, en væntanlega var þetta fyrsti  fjarnorræni hádegisverðurinn og sá fyrsti án matar,“ segir Sigríður kímin. Ræðumanninn á vegum gestgjafa skorti ekki, því Már Guðmundsson fyrrum seðlabankastjóri fræddi gestina um verkefni sitt á vegum Seðlabanka Malasíu og var góður rómur gerður að, að sögn Sigríðar.

Fjarfundar-afhending trúnaðarbréfs með landstjóra Ástralíu í marz sl.

Annað dæmi um nýsköpun sem vakti athygli var þegar Sigríður afhenti landstjóra Ástralíu trúnaðarbréf sitt á fjarfundi í byrjun marz síðastliðins. Fjögur ár eru frá því Sigríður fékk samþykki sem sendiherra gagnvart Ástralíu en afhending trúnaðarbréfsins hafði í tvígang frestazt, fyrst vegna skógarelda í Ástralíu 2019 og síðan vegna heimsfaraldursins. Í heimsfaraldrinum voru það engin nýmæli að trúnaðarbréf væri afhent rafrænt, en fjarlægðin milli Íslands og Ástralíu er yfir 17 þúsund km og 11 klukkustunda tímamun. Afhending fór fram að kvöld 3. mars á Íslandi sem var morguninn 4. mars í Ástralíu!

Diplómatía í fjórum víddum

Sigríður segir að formleg milliríkjatengsl – öðru nafni diplómatía – samanstandi í grunninn af fjórum víddum: Menningu, viðskiptum, stjórnmálum og öryggismálum.  Þótt diplómatía skapi ekki ein og sér  frið, þá efli hún svo um munar samstarf og friðarvilja og leitist við að skapa ramma utan um samskiptin og þar með forsendurnar fyrir friðsamlegum samskiptum. Alþjóðakerfi fullvalda ríkja byggi á jafnri stöðu allra án skilyrða, óháð íbúafjölda, styrk hagkerfisins eða nokkru öðru. Ekki er um einn mælikvarða að ræða þegar styrkur ríkja er borinn saman. Lítið eyríki eins og Ísland skorar til dæmis hæst allra ríkja í jafnréttismálum (Global Gender Gap Report) í alþjóðlegum samanburði. Það þekkjum við öll, en það er magnað að sjá hve hátt við skorum  í alþjóðlegum samanburði t.d. á menningarsviðinu. Sigríður vitnar í tímaritið The Economist, sem hafi kallað Ísland „soft power empire“. Þessu til vitnis sé sú staðreynd að á alþjóðlegum lista yfir stöðu ríkja eftir markvissu áhrifavaldi eins og „Soft power“ er þýtt á íslensku (Global Soft Power Index) vermir Ísland 37. sætið, og skorar þar með hærra á þessum mælikvarða en til að mynda stórþjóðir eins og Pólland (40. sæti) eða Mexíkó (42. sæti).

Með eiginmanninum Kjartani Gunnarssyni á góðri stund.

Þessi góði árangur Íslands á menningarsviðinu sem birtist í alþjóðlegri stöðu landsins er að sögn Sigríðar ekki sprottinn upp úr þurru. „Hér á Íslandi, þar sem búa álíka margir og í einu borgarhverfi í London, hafa í áratugi verið reknir sjötíu tónlistarskólar. Öllum finnst sjálfsagt að skrifa bók, hvetja börn sín til að spreyta sig á skapandi sviðum, bjóða sig fram í kosningum, námsmenn leita menntunar utan landssteinanna og langflestir eiga góðan hóp erlendra vina og samstarfsmanna sem þeir halda sambandi við. Allt þetta skilar sér í mun meira alþjóðlegu áhrifavaldi!“

Sigríður bætir við að á þessum sterka menningarlega grunni byggi líka sjálft fullveldi þjóðarinnar. Og hún er bjartsýn fyrir hönd næstu kynslóða Íslendinga, sem erfa munu landið: „Þetta er heimsferðakynslóðin, það er kynslóðin sem lætur sér ekki Interrail lestarkortið um Evrópu duga, heldur horfir víðar,“ segir hún, og gengur reyndar lengra: „Ég sé svo mikla alþjóðatengingu í hverjum borgara þessa lands og unga fólkið mun sjá um að tengingin sé heimsskautanna á milli!“

Engin ævistörf lengur

Rýni Sigríðar inn í framtíðina hefur líka sannfært hana um „að það eru engin ævistörf lengur“. Fólk sem sé núna að fara inn á vinnumarkaðinn eigi eftir að stunda miklu meiri símenntun en fyrri kynslóðir og vera sveigjanlegra og aðlögunarviljugra hvað starfsvettvang snertir. Atvinnulíf framtíðarinnar muni krefjast slíks sveigjanleika.

„Það hefur allt breytzt,“ segir hún þegar hún hugsar til baka til þess tíma þegar hún var sjálf að hefja starfsferil sinn í þjónustu íslenzka ríkisins árið 1978. Þeir atburðir sem hún hafi sjálf upplifað á ferlinum sem hafi haft mest áhrif á hana sé tvímælalaust fall Berlínarmúrsins og járntjaldsins, það markaði endalok þeirrar djúpstæðu skiptingar heimsbyggðarinnar í austur og vestur sem hún og hennar kynslóð ólst upp við.

Utanríkisþjónusta er hugsjónastarf

Á þessum tíma, 1987-1991, starfaði hún í sendiráði Íslands í Bonn, þáverandi höfuðborg Vestur-Þýzkalands. Það hafi haft djúp áhrif á hana að fara um hinn sögufræga Checkpoint Charlie milli Austur- og Vestur-Berlínar, fyrst nýorðin 18 ára árið 1970, alein að spjalli við Berlínarbúa beggja vegna múrsins. Allir tala við þýskumælandi unga stúlku og trúa henni fyrir sögu sinni. Sársaukinn nýsti í hjartað þegar þau lýstu sorginni og söknuðinum að hafa misst sambandið við nákomna ættingja, bræður, systur, afa og ömmu sem búa í sömu borg. Þau voru aðskilin að því virtist til eilífðar, þrátt fyrir nokkurra metra fjarlægð. Hún upplifði svo sterkt, hve samskipti ríkja snerta einstaklinga djúpt og skapa venjulegu fólki örlög. Á því augnabliki ákvað hún að verða diplómat og dreymdi um að lifa þá stund að múrinn færi.

Sigríður með Haraldi Kröyer sendiherra við afhendingu trúnaðarbréfs hans í Moskvu 1979.

Örlögin höguðu því svo til að hún starfaði í sendiráði Íslands þegar múrinn féll og „aldrei gleymist nóttin eftir 9. nóvember 1989 og jáyrði ráðherra í Þýska alþýðulýðveldinu þegar blaðamaður spurði hann í beinni útsendingu hvort landamærin hefðu verið opnuð, hvort múrinn væri fallinn.“

Sigríður leggur áherzlu á að hún hafi alltaf litið svo á að starf sitt í utanríkisþjónustunni væri hugsjónastarf. „Það hefur alltaf verið mikil dýpt og alvara á bak við grínið og ævintýrin hjá mér,“ segir hún þessu til áréttingar. Hún sé stolt af því að hafa verið fyrsta konan sem skipuð var sendiherra. Hún segir það hafa verið að frumkvæði þáverandi utanríkisráðherra, Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem hún tók við embætti sendiherra í Stokkhólmi árið 1991. Hún standi í þakkarskuld við Jón Baldvin og lofar hann fyrir stórhug og framsýni.

Varð móðir og tók sér hlé frá störfum

Sigríður hefur þjónað víða og gegnt mörgum mikilvægum stöðum í utanríkisþjónustunni síðan: verið prótókollstjóri, sendiherra í  Stokkhólmi og París og fastafulltrúi gagnvart OECD, UNESCO og FAO og fleiri,  heimasendiherra meðal annars í Suður-Afríku, að ógleymdu framlaginu við samningu framtíðarskýrslunnar frá 2017. En á árabilinu 2007-2014 var hún í leyfi frá störfum í utanríkisþjónustunni.

Með Maríu Björk Óskarsdóttur, meðstofnanda Nýttu Kraftinn.

Árið 2007 eignaðist hún soninn Kjartan Gunnstein, sem er nú á fimmtánda ári. Í þessu sjö ára langa hléi frá þjónustunni stofnaði hún meðal annars fyrirtækið Nýttu Krafinn með Maríu Björk Óskarsdóttur sem sérhæfði sig í að þjálfa atvinnuleitendur í atvinnuleit. Hún hefur því sannarlega komið víðar við á ferlinum en á vettvangi diplómatíunnar.

Annað dæmi um það sem gerist utan við starfsvettvanginn, er að í maí voru hún og eiginmaðurinn Kjartan Gunnarsson gestgjafar stórs hóps lögfræðinga og fleira fólks sem heimsótti Rauðasand í tilefni af sviðsettri endurupptöku dómsmáls vegna morða á bænum Sjöundá þar í sveit árið 1802 (sbr. þessa frétt Mbl.is). Þau Sigríður og Kjartan hafa um árabil átt hið gamla höfuðból Rauðasandshrepps, Saurbæ, og dvelja þar mikið á sumrin.

Brennur áfram fyrir nýsköpun

En hvað tekur við hjá Sigríði sjötugri, sem greinilega er enn á bezta aldri? Hún svarar því til að fyrst og fremst vilji hún kveðja sinn kæra vinnustað með reisn og ganga standandi frá borði. Sigríður brennur fyrir nýsköpun og því að hlúa að framtíðinni, öllu ungu fólki á Íslandi. Hún segist eiga þá ósk heitasta að leggja lóð sitt á vogarskálarnar í því að Íslendingum auðnist að stækka sitt markaðssvæði, líti til fjarlægra markaða til að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni. „Hver veit nema ráðgjöf um markaðsstörf í Suðaustur-Asíu liggi í kortunum, það væri dásamlegt að nýta þekkinguna á því sviði. Og að hlúa að framtíðinni, öllu ungu fólki á Íslandi, fæddu hér eða annars staðar,“ segir hún.

Árin með atvinnuleitendum í Nýttu kraftinn 20008-2013 voru svo mögnuð segir hún, markmiðið hafi verið að missa engan mann frá borði, forðast langtímaatvinnuleysi og koma í veg fyrir að fólk missti móðinn í tímabundnum erfiðleikum. Aftur eru alþjóðamálin að snerta einstaklinga langt frá vígvelli, en stríðið í Úkraínu hefur markað djúp spor í hjarta Sigríðar. Sjálf var hún í Sovétríkjunum 1979 þegar Sovétmenn, þá líka flestum að óvörum, réðust inn í Afganistan.

Með syninum Kjartani Gunnsteini í Páfagarði.

Bjartsýnin er þó aldrei langt undan, víða séu tækifæri fyrir nýjungar sem til framfara horfi. Hún ætli líka að ferðast. „Svo vill svo til að ég á strák sem er að byrja í tíunda bekk í haust“ – unglingsmóðurhlutverkið geti verið krefjandi. „Mér finnst svo gaman þegar sagt er um fólk á aldri okkar hjónanna að við séum komin „í Slipp“. Við Kjartan eiginmaður minn finnum fyrir því eins og flestir. En uppáhaldsbókin mín þessa dagana er Younger Next Year – Live strong and fit until you are 80 and beyond eftir Chris Crawly og Henry S. Lodge.

„Þriðja aldursskeiðið sem við lifum, eftir að ævistarfi fer að ljúka og áður en við erum hjálparþurfi, er að margra mati mesta hamingjuskeið mannsins, ef heilsan leyfir,“ segir Sigríður. „Viljinn dugar ekki til að halda frá alvarlegum veikindum, en með hugrækt, mannrækt og líkamsrækt eigum við mörg góð ár fraumundan. Ég hlakka mikið til að eldast með reisn og geta varið meiri tíma með „strákunum mínum“ heima, eiga yndisleg ár með manninum mínum og fylgjast með Kjartani Gunnsteini breytast úr unglingi í fullorðinn og góðan mann sem nýtist okkar þjóðfélagi.“

Málþing í haust

Með Tom Fletcher í London.

Að lokum er vert að geta þess að til stendur að boða til málþings til heiðurs fyrsta kvensendiherranum sem þjónað hefur í næstum 43 ár í hinni 82 ára gömlu utanríkisþjónustu Íslands og náði því að kynnast frumherjum íslenzkrar utanríkisþjónustu, diplómötunum sem hófu störf í dönsku utanríkisþjónustunni fyrir 1940. Á málþinginu, sem væntanlega verður haldið í haust, mun að mati Sigríðar gefast einstakt tækifæri til að varpa ljósi á hlutverk utanríkisþjónustunnar. Málþingið gæti þannig kallast vel á við ráðstefnuna sem haldin var til að kynna svonefnda framtíðarskýrslu um utanríkisþjónustuna árið 2017, en Sigríður leiddi starfshópinn sem vann þá skýrslu. Aðalræðumaður þá var Bretinn Tom Fletcher, sem er m.a. þekktur fyrir bókina The Naked Diplomat. Hann er nú prófessor í Oxford og fékk Sigríði í maí síðast liðnum til að stýra þar málstofu um diplómatíu fyrir háskólanema í því fagi. Enn eitt dæmið um hvernig Sigríður helgar sig unga fólkinu og framtíðinni!

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn júní 24, 2022 07:00