Nýleg rannsókn á viðhorfum til eldra fólks á vinnumarkaði í Danmörku sýnir að fordómar í garð þess eru útbreiddir. Og að fordómarnir eru sannarlega einmitt það: tilhæfulausir fordómar. Öldrunarfræðingurinn Aske Juul Lassen stýrði rannsókninni, sem var gerð fyrir samtökin Ældre sagen.
Skýrslan „SENESKIFT – Når seniorer skal finde nyt job“ byggir á samtölum við fjölda eldra fólks sem á það sameiginlegt að hafa þurft að skipta um vinnu seint á starfsferlinum, og samtölum við mannauðsstjóra fyrirtækja og fulltrúa vinnuveitendasamtaka og verkalýðsfélaga í Danmörku.
Lassen sýnir í skýrslunni hvernig aldursmismunun lýsir sér á danska vinnumarkaðnum. Hann rannsakar líka nánar nokkra algenga fordóma sem vinnuveitendur og fleiri hafa sýnt sig að bera í brjósti gagnvart eldra fólki á vinnumarkaði.
Fólk öðlast verðmæta færni með reynslunni
Í skýrslunni eru birtingarmyndir fordómanna opinberaðar og sýnt fram á að á langri starfsævi þrói fólk sem er virkt á vinnumarkaði með sér verðmæta færni, ekki síst í mannlegum samskiptum, sem gerir að verkum að það munar sannarlega um framlag þess á hverjum vinnustað.
Í skýrslunni er athygli vakin á hinni ýmsu færni sem við tileinkum okkur með aldrinum og sem hefur í för með sér að eldra fólk er að mörgu leyti betri starfskraftar. Dæmi um slíka færni er kerfisbudnin hugsun, jafnaðargeð í álagsaðstæðum og betri hæfni til farsællar ákvarðanatöku.
Rannsóknir sýna einnig að almennt verðum við betri í samstarfi eftir því sem við eldumst, og það er oft eldra fólk sem stuðlar að manneskjulegu andrúmslofti á vinnustaðnum.
Skilaboðin skýr – það er skynsamlegt að ráða eldri starfsmenn
Skilaboðin eru skýr. Sértu atvinnurekandi er þér hollt að hafa í huga að ráða eldri starfsmann – ekki til að axla félagslega ábyrgð, heldur einfaldlega vegna þess að það er gott fyrir fyrirtækið.
Þeir eru ófáir aldursfordómarnir á vinnumarkaði, og það á við í Danmörku eins og víðast annars staðar. Meðal algengra fordóma er að eldra starfsfólk eigi erfiðara með að læra eitthvað nýtt, sé seint í snúningum, minna „mótiverað“, og stöðugt með hugann við starfslok sín. En samkvæmt rannsókninni stenzt enginn þessara fordóma nánari skoðun.
Lífaldur fólks hefur lítið að segja um hæfnina til að tileinka sér nýja þekkingu, svo lengi sem unnt er að setja hana í samhengi við fyrri reynslu. Sé maður t.d. með mikla reynslu á sviði tölvutækni þá kvað ekki vera neinn munur á hæfni yngra og eldra fólks til að tileinka sér nýja þekkingu á því sviði. Ferillinn frá hugsun til framkvæmdar getur stundur orðið hægari þegar við eldumst, en það getur oft reynzt kostur, þar sem síður er anað að ákvörðunum þar sem þær byggja á dýpri reynslu og þekkingu.
Eldra starfsfólk er alveg jafn „mótiverað“ og tilbúið til að taka þátt í breytingum og allir aðrir. Það vill gjarnan sækja sér símenntun, og margir hinir eldri endast lengur í sama starfi en hinir yngri.
Fólk hafi frelsi til að skipta um starfsvettvang – en neyðist ekki til þess vegna fordóma
Í skýrslunni er því lýst hvernig sumt eldra fólk getur neyðzt til að gera róttækari umskipti á starfsvettvangi sínum, þar sem það getur ekki fundið nýtt starf á sínu fyrra fagsviði. Meiri umskipti geta þýtt lægri laun, en oft gefur það eldra fólki líka tækifæri til að prófa eitthvað nýtt, sem er jákvætt. Forsvarsfólk Ældre sagen segir, að það eigi að vera frjálst val eldra fólks að skipta um starfsvettvang ef það langar til að sækja í áskoranir á nýjum vettvangi – en ekki að það neyðist til þess vegna aldursfordóma á vinnumarkaðnum.
Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnulífsins og samfélagsins alls – og ekki síður hvers og eins eldri starfskrafts á vinnumarkaði – að færni og framlag hvers og eins, sama á hvaða aldri hann er, fái að njóta sín og sé metið að verðleikum.