Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
Á mínum fréttamannsárum fór ég eitt sinn í heimsókn á Þjóðminjasafnið og fékk að skoða geymslurnar. Þar voru hlutir sem mér hafði ekki dottið í hug að væru efni í safngripi. Fótanuddtæki, hárþurrkur með poka, brauðristar og ótalmargt sem mér fannst heyra nútíðinni til. Starfsmaðurinn útskýrði þetta þannig að nútíminn væri upphafið að fortíðinni og því væri mikilvægt að byrja strax að safna.
Þetta rifjaðist upp þegar gamla klósettið okkar bilaði. Það var ekki hægt að sturta niður sem er mjög bagaleg bilun. Snjall viðgerðarmaður fann nýtt innvols í verslun á Selfossi! En svo bilaði greyið aftur. Núna var það setan sem brotnaði. Ég leitaði á netinu eftir loki á sænska öldunginn. Byko var svarið. Við pökkuðum brotunum vandlega í plastpoka og lögðum þrjú í leiðangur. Lipur starfsmaður mældi bæði lengd og breidd og sagði mæðulega: „Þessi er aldeilis gömul“. En kraftaverkið gerðist. Hann fann rétta stærð og við fórum heim alsæl með skínandi hvíta setu og lok, sannkölluð andlitslyfting á herra Gustavsberg.
Í kassanum var lítill plastpoki með yfir 20 smáhlutum. Ógreinileg teikning var utan á pokanum en ekki eitt orð til skýringar hvernig þessi stykki áttu að hanga saman. Við störðum á þetta í stundarfjórðung eða svo. Ég sagði við minn mann að við skyldum gleyma þessu og hringja í sonarson. Hann lofaði að koma um kvöldið og ég lofaði að kaupa handa honum eðalsteik og bjóða honum í kvöldmat. Hann er nefnilega alltaf svangur.
Hann hló þegar hann sá skýringarmyndirnar. Við urðum sammála um að þær væru nú ekki þær bestu í heimi. Á meðan ég steikti kjötið og útbjó annað meðlæti tókst unga manninum að raða bútunum saman. Loks þurfti hann að leggjast á bakið við hliðina á herra Gustavsberg til að koma öllu á réttan stað. Einfalt var þetta ekki.
Við áttum notalegt kvöld. Ég þakkaði mínum sæla fyrir að eiga svona hæfileikaríkt barnabarn. Hann fór með restina af steikinni heim og ætlaði að taka hana með sem nesti í skólann daginn eftir. Þetta endaði sem sagt mjög vel.
En hver er lærdómurinn af þessu? Jú, sænska eðalvaran hefur staðið sig í stykkinu í áratugi sem er frábært og enn er hægt að fá varahluti sem passa. En næst þegar líffærin í sænska herranum bila mun ég hringja í Þjóðminjasafnið og bjóða gripinn til varðveislu. Ég mun láta plastpokann með skýringunum fylgja með. Sjálf fer ég og kaupi nýja mublu og læt fagmenn setja hana upp.