Nýleg rannsókn á vegum vegum Raaj Metha við læknaskólann í Harvard og Andrew Shan við Massachusett General Hospital, leiddi í ljós að neysla sítrusávaxta dregur úr þunglyndi. Ástæða þessa er vísindamönnunum ekki fyllilega ljós en þeir telja að ávextirnir hafi sérlega góð áhrif á þarmaflóruna en áður hefur verið sýnt fram á náið samband milli heilbrigðrar þarmaflóru og góðrar andlegrar heilsu.
Svo virðist að þótt aðrir ávextir hafi ýmis jákvæð heilsufarsleg áhrif hafi þeir ekki sömu virkni og sítrusávextirnir þegar kemur að þunglyndi. Vitað er að sítrusávextir örva framleiðslu faecalibacterium prausnitzii í þörmunum en þessi tiltekna baktería gegnir lykilhlutverki í framleiðslu heilans á taugaboðefnunum serótóníni og dópamíni. Þessi vellíðunarboðefni létta lundina og gera okkur glöð.
Hversu margir ávextir eru nóg?
En vilji maður láta á þetta reyna og borða sítrusávexti í skammdeginu eða þegar einhvers konar depurð sækir að er nóg að borða eina meðalstóra appelsínu á dag í einhvern tíma og menn finna strax mun. Til að viðhalda árangrinum er nóg að borða fimm skammta af einhverjum sítrusávexti í viku hverri.
Þótt ávextir séu sannarlega góðir er margs konar önnur fæða einnig góð til að bæta andlega heilsu. Rannsóknir á svokölluðu Miðjarðarhafsmataræði hafa leitt í ljós að þar finna menn mun minna fyrir þunglyndi en fólk annars staðar í Evrópu. Vísindamenn vilja þakka það m.a. þeirri staðreynd að þar borða menn mikið af fiski, grænmeti, heilkorni, hnetum og olíum. Það tryggir þeim góðar birgðir af Omega 3 og Omega 6 fitusýrum en þær hjálpa mjög til við að draga úr kvíða og þunglyndi. Raunar eru þessar fitusýrru iðulega kallaðar besta heilafóðrið því þeir eru einnig sagðar auka einbeitingu, minni og skerpu hugans. Sýrt grænmeti hefur sömuleiðis mjög góð áhrif á bakteríuflóru þarmanna og þar með andlega heilsu okkar.
Það ætti ekki að koma neinum á óvart nú orðið að mataræði hefur mikið að segja þegar kemur að því að varðveita góða heilsa á öllum sviðum. Það er sjálfsagt að notfæra sér nýjar upplýsingar þegar þær koma fram og sérstaklega þegar um er að ræða eitthvað jafngómsætt og sítrusávexti og kannski ekki undarlegt að flestir séu glaðir á jólunum því þá er borðuð fleiri kíló af klementínum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.