Ástæða þess að þér gengur ekkert að léttast

Þú ert ekki eina manneskjan sem er að berjast við að léttast. Megrun er erfið og það bætir ekki úr skák að þjálfun skiptir ekki jafn miklu máli í þessu sambandi og margir halda.  Það sem þú borðar og drekkur stjórnar líkamsþyngdinni og það hversu miklu þú brennir. Ef þú innibyrðir meiri orku en þú brennir, þyngistu. Ef það er á hinn veginn að þú borðar minna en þú brennir, léttistu. Þetta virkar einfalt, en er hægara sagt en gert. Ef þú svo nærð að missa nokkur kíló, er það bara spurning um tíma þangað til þau eru komin aftur á sinn stað. En hvers vegna ná svona fáir að léttast?

Það er algengast að fólk þyngist

Í þróuðum samfélögum eru orkan og hitaeiningarnar á hverju strái. Alls staðar er ofgnótt af góðum mat og drykk, sama á hvaða tíma sólarhringsins er. Og það er mjög krefjandi að standast freistingarnar í þessu fitandi matarumhverfi. Matur og drykkur snýst ekki bara um líffræði. Sálfræði og menning skipta líka máli. Mataræði er grundvallar þáttur í lífi okkar og venjum. Við veljum oft það auðveldasta, það sem smakkast vel og lætur okkur líða vel.

Heilinn hrópar á mat

Okkur finnst gott að trúa því að það séum við sem stjórnum okkar eigin líkama, en það er heilinn sem stýrir nær öllu í líkamsstarfseminni, alveg án okkar íhlutunar. Heilinn stjórnar líka þyngdinni. Þegar allt er í lagi, fær heilinn upplýsingar um orkubúskapinn  meðal annars frá fituvef líkamans og þörmunum. Hann stillir af hungurtilfinninguna og tilfinninguna um að við séum södd þannig, að það magn matar sem við borðum sé í samræmi við  þörfina.  Ef heilinn biður um meiri mat, höfum við ekkert um það að segja. Fyrr eða síðar verðum við einfaldlega að borða.  Ef menn fara í megrun og minnka við sig mat, fer þetta kerfi af stað. Heilinn fer í gang og gefur merki um að við séum hungruð, þannig að við verðum að borða. Þá skiptir máli að borða hollan og mettandi mat.

Líkamsræktin skiptir minna máli

Margir telja að hreyfing sé mikilvæg ef fólk vill léttast. Þeir hafa rangt fyrir sér. Líkamsrækt eykur vissulega brennsluna en miklu minna en menn halda. Það er eins og líkaminn reyni að takmarka hversu mikilli orku fólk brennir. Í stað þess að auka brennsluna óendanlega, hefur meiri og meiri hreyfing þau áhrif að fólk nær því marki að það getur eki brennt meiru. Líkamsrækt eykur líka hungurtilfinninguna þannig að fólk borðar enn meira, þegar henni er lokið.

Þrátt fyrir þetta er það er hreyfingin nauðsynleg þannig að fólk nái sem bestri virkni og þeir sem hreyfa sig reglulega eiga einfaldlega auðveldara með að ráða við hið fitandi matarumhverfi sem fylgir nútíma samfélagi.

 

Þessi grein er af  norska vefritinu Vi over 60.

 

 

 

Ritstjórn júní 21, 2023 08:00