Elín Oddný Sigurðardóttir formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar og skipar 2. sæti á lista VG fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.
Við Vinstri græn viljum að Reykjavík sé aldursvæn borg þar sem fólk á öllum aldursskeiðum getur lifað góðu og gefandi lífi. Það er okkar sýn að eldri borgarar eigi að ráða sér sjálfir og öll aðstoð skuli taka mið af óskum og þörfum hvers og eins.
Hlustum á eldra fólk
Það er mikilvægt að við virðum reynslu, skoðanir og sjálfsákvörðunarrétt eldra fólks. Við verðum að stuðla að því að allt eldra fólk geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Það gerum við með því að huga að ólíkum aðgengisþörfum og gera eldri borgurum kleift að rækta fjölskyldu- og vinatengsl, með þátttöku í fjölbreyttu félags- og menningarlífi.
Vinstri græn vilja efla samvinnu við aðstandendur, hagsmunasamtök og notendur þjónustu. Öldungaráð borgarinnar, sem tók til starfa á kjörtímabilinu er mikilvægt skref í þá átt.
Við í VG leggjum áherslu á raunhæf skref til að mæta fjölbreyttum þörfum eldra fólks:
Menningar og lýðheilsukort aldraðra: Á þessu kjörtímabili höfum við í VG beitt okkur fyrir því að borgin bjóði upp á menningar- og lýðheilsukort fyrir aldraða, til að efla hreyfingu og félagsstarf. Nú veitir kortið ókeypis í sund, söfn borgarinnar og bókasöfn, auk verulegs afsláttar í strætó. Við viljum stórauka þá þjónustu sem kortið veitir aðgang að.
Fleiri hjúkrunar og dagvalarrými: Í samvinnu við ríkið viljum við tryggja nægt framboð af hjúkrunar- og dagdvalarrýmum fyrir eldra fólk í borginni.
Eflum heimaþjónustu og heimahjúkrun: Mikilvægt er að tryggja fjármagn frá ríkinu til að efla almenna heimahjúkrun og koma á fót sérhæfðri þjónustu, svo sem við heilabilaða og líknarmeðferð i heimahúsi.
Endurhæfing í heimahúsi: Ljúka verður innleiðingu endurhæfingar i heimahúsi í öllum hverfum. Bæta þarf sjúkra- og iðjuþjálfum ásamt næringarráðgjöfum við þann hóp fagfólks sem annast þjónustu við aldraða.
Nýtum velferðartækni: Ný tækifæri liggja á sviði velferðartækni og í rafrænum heimaþjónustukerfum.
Rjúfum félagslega einangrun: Á þessu kjörtímabili höfum við stutt aðgerðir sem stuðla að samveru kynslóðanna. Efla þarf verkefni á borð við að háskólanemum sé boðið upp á íbúðir í þjónustuíbúðakjörnum eldri borgara.
Allskonar eldra fólk: Þarfir eldri borgara eru allskonar, við þurfm að tryggja jafnan aðgang fátækra eldri borgara, innflytjenda og hinsegin fólks að þjónustu, stuðningi og ráðgjöf á vegum borgarinnar.
Það er forgangsmál okkar að bæta þjónustu við alla óháð efnahag. Það gerum við best með öflugri og fjölbreyttni þjónustu sem mætir þörfum fólks og rekin er fyrir fé úr sameiginlegum sjóðum.