Tengdar greinar

Átta atriði sem benda til að þú þurfir að drekka meira

Ofþornun er ekkert grín og þótt ótrúlegt megi virðast, eru það ekki aðeins þeir sem stunda afreksíþróttir eða eru veikir, sem geta átt á hættu að líkaminn þorni upp. Þetta gildir fyrir alla, ekki síst ef þeir eru í miklum hita, en með aldrinum minnka viðbrögð okkar við vatnsskorti. Þegar við þurfum meiri vökva og ættum að verða þyrst, lætur þorstinn á sér standa þegar árunum fjölgar. Þess vegna er rétt að hafa í huga þau merki sem gefa til kynna að við þurfum að drekka meira. Því eldri sem við verðum, þeim mun mikilvægara er að huga að þessu. Á systurvef Lifðu núna í Bandaríkjunum AARP er fjallað um einkenni sem sýna að líkaminn þarf meira vatn.

1.Þorsti

Ef þú ert þyrstur, ertu hugsanlega þegar farinn að tapa vökva, sérstaklega ef þú ert orðinn 65 ára eða eldri. Þegar menn verða eldri þarf meira til að þeir finni fyrir þorsta, en þegar yngra fólk verður þyrst. Vatnsskorturinn er því einfaldlega orðinn meiri þegar hann fer að segja til sín í elda fólki.  Jafnvel þótt menn finni ekki fyrir þorsta er þeim ráðlagt að drekka vel yfir daginn. Nefnd eru til sögunnar átta glös af vökva á dag og jafnvel meira hjá þeim sem eru í líkamlegri áreynslu. Fyrir utan venjulegt vatn er mælt til dæmis með safa, orkudrykkjum og vatni með bragðefnum.

2.Dökkt þvag

Því meira vatn sem menn eru með í líkamanum, því ljósara verður þvagið. Sérfræðingur sem rætt er við hjá AARP, segir að hjá þeim sem innibyrða nægan vökva eigi þvagið að vera næstum því í sama lit og vatn úr krana.  Ef þvagið verður dökk gult eða brúnleitt og lyktar meira en venjulega, er það líklega merki um að menn séu að þorna upp og þurfi að drekka meira vatn.

3.Svimi og yfirlið

Þótt svimi geti verið merki um ýmsa sjúkdóma, er hann dæmigert einkenni fyrir ofþornun. Ef menn eru að þorna upp hafa þeir ekki nægt vatn í æðunum og blóðflæðið til heilans verður ekki nógu mikið. Þess vegna fer fólk að svima.  Menn finna oftast fyrir svimanum, ef þeir standa upp, eftir að hafa setið eða setjast upp eftir að hafa legið útaf. Ef blóðflæðið til heilans minnkar mikið, fer fólki að sortna fyrir augum og það getur gefið til kynna að það sé að líða yfir það vegna ofþornunar.

4.Sinadráttur eða kraftleysi

Annað merki um ofþornun er þegar fólk finnur fyrir kraftleysi í ákveðnum vöðvum, eða alvarlegum sinadrætti. Sinadrátturinn getur stafað af því að rafleiðni í æðunum truflast og það minnkar blóðfæði til vöðvanna. Menn geta fengið sinadrátt þegar þeir eru að æfa, eða vaknað upp að nóttu til með sinadrátt í kálfunum. Hann getur verið svo slæmur að menn geta ekki sofið.

5.Harðlífi eða færri þvaglát

Vatnið hjálpar til við að losa líkamann við  úrgangsefni  og við að halda meltingarkerfinu í góðu lagi. Séu menn með nægan vökva í líkamanum, ættu þeir að losa þvag á tveggja til þriggja tíma fresti og rennslið ætti að vera reglulegt. Það getur verið merki um að vandamál sé í uppsiglingu, ef mönnum er ekki mál nema stöku sinnum.

6.Þurr húð og skortur á teygjanleika

Ofþornun hefur þau áhrif á húðina að hún verður þurr og innfallnir blettir myndast á ákveðnum svæðum, svo sem undir augunum. Húðin hættir líka að vera eins teygjanleg og hún er þegar allt er í lagi. Ef menn eru að sjá um einhvern sem er orðinn veikburða af einhverjum ástæðum, er hægt að skoða teygjanleika húðarinnar með því að þrýsta varlega á handlegginn á viðkomandi. Þá kann að sjást að hún hrekkur ekki tilbaka jafn auðveldlega og áður, það getur verið mjög áberandi hjá þeim sem hafa ekki nægan vökva í kerfinu.

7 .Munnþurrkur

Ofþornun dregur einnig úr framleiðslu munnvatns. Ef menn grunar að einhver sé orðinn of þurr, er ráð að skoða uppí munninn á honum. Tungan í fólki á að hafa ákveðinn gljáa. Ef þurrkurinn er orðinn alltof  mikill, geta í einstaka tilvikum myndast sár í munninum.

8.Þreyta, höfuðverkur og ruglingur

Of hægt blóðstreymi vegna þornunar getur valdið höfuðverk, þreytu og slappleika, jafnvel því að fólki finnst það ekki jafn klárt í kollinum og venjulega. Ef menn eru að sjá um einhvern sem virðist vera illa áttaður, ættu þeir að gera ráð fyrir að það gæti stafað af þornun. Það er margt sem veldur því að fólk finnur fyrir ruglingi. Það getur verið sýking, en það getur líka verið vegna þess að blóðþrýstingurinn hjá viðkomandi hefur lækkað. Það getur stundum gert kraftaverk að sjá tl þess að fólk drekki nóg.

Ritstjórn ágúst 18, 2022 07:00