Áhugi á ferðalögum hefur greinilega aukist að nýju og ferðaskrifstofur eru farnar að birta heilsíðuauglýsingar í blöðum með áhugaverðum tilboðum. Um helmingur þeirra 280.000 sem á að bólusetja gegn kórónuveirunni hér á landi hefur fengið einn eða tvo skammta af bóluefni. Þá eru rúmlega 62 þúsund manns fullbólusettar. Þetta fólk hugsar sér gott til glóðarinnar í utanlandsferðum í sumar og í haust.
Íslendingar sem eiga fasteign á Spáni eru margir hverjir farnir þangað, jafnvel þeir sem hafa eingöngu fengið fyrri skammt af bóluefni. Nokkrir einstaklingar sem Lifðu núna ræddi við ætla að snúa heim í sumar til að fá seinni sprautu og fara svo utan aftur.
Einnig er útlit fyrir að yngri hópar muni ferðast nokkuð utanlands í sumar og haust þó að þeir hafi einungis fengið fyrri skammt af bóluefni.
Ólíkt því sem áður var getur fólk nú breytt flugferðum sínum hjá Icelandair sér að kostnaðarlausu og með skömmum fyrirvara, en það gefur aukið frelsi og sveigjanleika til ferðalaga við þær aðstæður sem nú eru. Þetta á einnig við um einhverjar ferðaskrifstofur, t.d. Vita. Þeir sem kaupa sér flugferðir taka því minni áhættu en áður.
Spánn er annar vinsælasti áfangastaður ferðamanna í heiminum á eftir Frakklandi. Árið 2019 komu 83,5 milljónir erlendra ferðamanna til Spánar. Spánverjar gera ráð fyrir því að taka á móti 45 milljónum erlendra ferðamanna á þessu ári, sem er ríflega helmingur þess fjölda sem heimsótti landið árið 2019. Spánverjar líta einkum til Breta, en þeir hafa lengi verið helsta uppspretta tekna spænskrar ferðaþjónustu.