Þeir sem vilja geta búið til sitt eigið chilimauk þótt einfalt sé að kaupa það í verslunum. Þegar upp er staðið bragðast það heimgerða alltaf betur og þá veit maður líka hvert innihaldið er. Þetta chilimauk er einstaklega ljúffengt og gengur vel með til dæmis hreinum rjómaosti og kexi og svo er það tilvalið á ostabakkann, með lifrarkæfu, patéi og líka er gott að bera það fram með bæði kjöt og fiskréttum. Svo er þetta mauk tilvalið sem tækifæris gjöf þegar farið er í heimboð.
3 rauðar paprikur
8 rauð chilipiparaldin, fræin með
1 1/2 bolli borðedik
3 1/2 bolli sykur
5 tsk. sultuhleypir
Kjarnhreinsið paprikurnar. Blandið öllu hráefninu saman í matvinnsluvél og hafið fræin úr chilialdininu með og maukið vel. Látið í pott með ediki og sykri og sjóðið í 10 mínútur. Blandið sultuhleypinum saman við og sjóðið áfram í 1. mínútu. Ef maukið er sett í hreinar, heitar sultukrukkur og lokað strax geymist það óopnað mánuðum saman á köldum stað.