Pétur Emilsson er kominn á eftirlaun en starfar sem yfirsetufulltrúi í prófum í Háskólanum í Reykjavík. Hann vinnur líka við móttöku gesta hjá Listasafni Reykjavíkur, bæði á Kjarvalsstöðum og í Hafnarhúsi. Hann fer fyrir hópi yfirsetufulltrúa hjá HR, en þar starfa milli 30 og 40 manns sem eru komnir á eftirlaun, við að leggja fram prófgögn og að sitja yfir í prófum til að tryggja að allt fari vel og rétt fram. Hann segir að enn fleiri vinni sem yfirsetufulltrúar hjá Háskóla Íslands. Hann bendir á að margir eftirlaunamenn starfi svo sem leiðsögumenn fyrir erlenda ferðamenn, þannig að hópurinn sem þetta hefur áhrif á, sé býsna stór.
„Við erum brjáluð yfir því“, segir hann um lækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna eldra fólks. Það lækkaði um áramót úr 109 þúsund krónum á mánuði í 25 þúsund. „Það er mikil reiði og undiralda vegna þessa og menn ætla ekki að láta þetta yfir sig ganga, sætta sig hreint ekki við þetta“. Pétur segir að hann hafi rætt bæði við formann Landssambands eldri borgara og formann Félags eldri borgara í Reykjavík vegna málsins. Hann segist hafa tekið eftir því að í stjórnarsáttmálanum segi að frítekjumarkið verði hækkað. „En það er spurning um hversu mikið og hvenær, það gengur ekki að gera þetta á síðustu dögum kjörtímabilsins eftir fjögur ár“.
Hann segir að eftir að eftirlaunafólk sé búið að vinna sér inn 25 þúsund krónur, þá sé byrjað að taka af fénu sem það fær frá Tryggingastofnun. „Í Noregi máttu hins vegar vinna eins og þú getur ef þú ert eldri borgari, það hefur engin áhrif á almannatryggingarnar. Í Danmörku og Finnlandi er frítekumark vegna atvinnutekna um 490 þúsund krónur. „Hér er búið að lækka frítekjumarkið og það er 25 þúsund krónur. Það er ekki hægt að bjóða uppá þetta. Nú hafa menn farið yfir þröskuldinn og það er gríðarleg óánægja með þetta“ segir Pétur.
Hann segir að það þurfi að ræða þetta í hagsmunasamtökum eldra fólks og fylgja því eftir að frítekjumarkið verði hækkað innan 3-4 mánaða. Síðan þurfi að skrifa forseta Alþingis og formönnum allra stjórnmálaflokkanna bréf þar sem þess er krafist að þetta verði leiðrétt sem fyrst. „Þetta eru fyrstu viðbrögðin og ef ekki verður búið að leiðrétta þetta innan nokkurra mánaða, verður að grípa til annarra aðgerða því þetta er alveg glórulaust!“ segir Pétur að lokum.