Dapurlegt að vita ekkert um forfeðurna

Þetta forláta postulínsstell frá Staðarfelli hefur fylgt fjölskyldunni

„Ættfræðin er eins og púsluspil sem aldrei verður lagt til fulls“, segir Guðfinna S. Ragnarsdóttir menntaskólakennari og ritstjóri Fréttabréfs Ættfræðifélagsins, þegar blaðamaður Lifðu núna leit inn til hennar fyrir skömmu. „Markmiðið með öllu mínu grúski er að varðveita fróðleik um ættina mína á hvaða formi sem hann er, sögur, sagnir, myndir, kvæði, hluti og nöfn, og koma þekkingunni til fólksins míns“.  Það hefur hún gert alveg refjalaust og á fullar möppur af ljósmyndum og öðrum fróðleik, auk margra hluta úr sögu ættarinnar. Hún hefur líka gengist fyrir ættarmótum bæði í föðurætt sinni og móðurætt og útbúið þá möppur fyrir alla með ættarfróðleiknum.  „Ég held að án sögunnar værum við óumræðilega fátæk“, segir hún og bætir við að það sé dapurlegt þegar fólk viti ekkert um forfeðurna.

Helga sem drekkti sér í brunninum

„Það var þannig að bæði mamma, amma og allt mitt móðurfólk talaði endalaust um ættfræði, segir Guðfinna, þegar hún er spurð um ættfræðiáhugann. Hún segist hafa alist upp við að heyra sögur að vestan, frá Fellsströnd og Breiðafirði, en þangað kom hún þó ekki fyrr en hún var 13 ára gömul. „Þetta voru sögur af langalangafa mínum sem reið blekfullur um Bæjarhreppinn þyljandi vísur og kvæði, þannig að bændurnir hlupu úr slægjunni, Helgu sem drekkti sér í brunninum og langömmu mína sem átti 17 börn.  Forvitnin vaknaði af öllum þessum sögum“, segir hún.

Miðinn sem Guðfinna skrifaði 10 ára, saga púlts sem amma hennar gaf henni

Lét mig skrá ómældan fróðleik

Guðfinna segir að hún hafi verið svo ótrúlega heppin, að fóstra og náfrænka móður hennar Björg Magnúsdóttir ljósmóðir í Túngarði á Fellsströnd hafi orðið 98 ára. „Hún og Sigurbjörg amma mín kenndu mér vinnubrögð sem hafa fylgt mér síðan. Björg flutti suður árið 1951 og þegar ég var átta ára að bera út blöð í Híðunum, endaði ég alltaf hjá henni í Drápuhlíðinni þar sem hún beið mín með heitt kakó, kökur og brauð. „Hún sagði mér frá langömmu minni Vigdísi og lét mig skrá ómældan fróðleik“ rifjar Guðfinna upp.  Bæði börn Bjargar létust barnlaus og Guðfinna erfði allt innbúið hennar.  „Ég fékk alla gömlu hlutina sem eru mér svo kærir“, segir hún.

Kalla svefnherbergið Minjasafnið á Fellsströnd

„Þegar ég var 10 ára kallaði Sigurbjörg amma í mig á sumardaginn fyrsta til að gefa mér sumargjöf. Það var þetta púlt“, segir Guðfinna og tekur fram gamalt og máð púlt og dregur uppúr því gamlan handskrifaðan miða. „Amma lét mig setjast niður og skrá sögu púltsins á þennan miða“, segir hún. Og hér á eftir sjáum við textann sem Guðfinna skrifaði:

Púlt þetta er smíðað af Jóhanni Hannessyni, Bjarneyjum á Breiðafirði um 1880. Fyrsti eigandi þess var Soffía Gestsdóttir, síðar húsfrú á Staðarfelli á Fellsströnd og fékk hún púltið í fermingargjöf. Síðar gaf hún fóstursyni sínum og móðurbróður mínum Magnúsi Zófaníasi Guðfinnssyni púltið. Eftir að hann drukknaði við Hjalleyjar á Breiðafirði árið 1920 fengu foreldrar hans, afi og amma mín, Guðfinnur Jón Björnsson og Sigurbjörg Guðbrandsdóttir í Litla-Galtardal púltið. Gestur sonur þeirra hafði púltið til umráða á unglingsárum sínum en 1953 fékk núverandi eigandi þess Guðfinna Ragnarsdóttir það.

„Eftir þetta skráði ég alla gamla muni sem ég fékk og á orðið fjórar kynslóðir af skráningarbókum. „Svo uppgötvaði ég að ég verð ekki eilíf“, segir Guðfinna

og hlær. „Börnin mín hafa takmarkaðan áhuga á ættfræðinni og ættargripunum. Þau kalla svefnherbergið mitt  Minjasafnið á Fellsströnd!!! “. En Guðfinna heldur til haga öllum upplýsingum og munum og býst við að gefa margt á Byggðasafn Dalasýslu þegar fram líða stundir.

Skápurinn í svefnherberginu þar sem Guðfinna geymir gamla ættarmuni

Þá hlustaði ég

Guðfinna segir að faðir hennar Ragnar Jónsson hafi líka verið mjög fróður, sérstaklega um gömlu Reykjavík en hann var níundi ættliðurinn Reykvíkingur. „Hann settist með mér niður við Skúlagötu og sýndi mér Kolbeinshausinn og Klapparvörina, en þaðan réru afi minn og langafi“. Hún segist hafa haft á þessu takmarkaðan áhuga til að byrja með. „Svo fer ég til náms í Svíþjóð. Þar sá maður aldrei neinn sem maður þekkti þó maður væri umvafinn fólki. Þá fann ég hvað þetta bakland var mikils virði og það að þekkja sína sögu“. Eftir tuttugu ára búsetu í Svíþjóð flutti Guðfinna heim til Íslands með börnin sín tvö. „Þá hlustaði ég og svolgraði í mig allan fróðleik“, segir hún. „ Pabbi dó átta árum eftir að ég kom heim, en mamma lifði til hárrar elli. Ég skrifaði niður allt sem þau sögðu mér. Mamma var líka dugleg að fara með mér í heimsóknir til gamla fólksins og ég spurði og spurði. Ættfræðin varð mín ástríða og aðaláhugamál“.

Byrjuð að skrá eigin minningar

„Ég var að bauka í þessu fyrir sjálfa mig til að byrja með og sat uppá safni, en fannst svo mikils virði að koma þessu áfram til komandi kynslóða. Ég bauð fólkinu mínu heim í súpu einu sinni í mánuði yfir vetrartímann í tíu ár. Þá treysti ég ættarböndin, fræddi unga fólkið og kveikti áhuga hjá mörgum“, segir hún.  Guðfinna dreif sig svo á námskeið í ættfræði og gekk í Ættfræðifélagið.  Hún hefur skrifað ótal greinar um forfeður sína, sem margar hafa birst í Fréttabréfi Ættfræðifélagins. Hún segist líka safna öllum bókum þar sem fjallað sé um fólkið hennar.  Þannig hafi hún komist yfir alls kyns fróðleik um svæðið, bæina og fólkið.  „Ég er svo byrjuð að skrifa um líf mitt, fyrir börn og barnabörn en er bara komin á áttunda árið!“ segir Guðfinna sem er hvergi nærri hætt að grúska í málum sem tengjast fólkinu hennar. „Hver púslbiti er mikilvægur og gerir myndina heillegri.“  Ég hvet alla til þess að halda vel utan um ættarfróðleikinn, varðveita sögur og sagnir, merkja myndir og skrá sögu hlutanna. Það er dýrmæt gjöf til komandi kynslóða.“

 

Ritstjórn desember 27, 2016 12:42