Spurðu hvaða konu sem er um ömmubarnið og hún geislar af gleði eins og ung og nýástfangin kona. Ömmur eru nánast undantekningarlaust himinlifandi yfir hlutverkinu og það er kannski það eina sem við þurfum að vita. Við erum orðnar ömmur og það er algerlega frábært.
Fyrir ykkur sem veltið hlutunum aðeins fyrir ykkur er spurningin kannski af hverju? Hvað er það við þetta nýja hlutverk sem er svona frábært?
Þetta var til umfjöllunar á vefnum sixty and me og við stiklum á stóru í greininni.
Að njóta barnabarnanna
Byrjum á barnabörnunum. Þau eru frábær í öllum sínum stærðum og gerðum. Sum þeirra minna okkur á foreldra sína, og minna okkur þar með á liðna tíma. Önnur eru allt öðruvísi og mæta til leiks með ný áhugamál og allt öðruvísi persónuleika.
Og það er gaman að verja tíma með þeim. Hossa litlu barni á hnjám sér, liggja á gólfinu og púsla eða skella sér út á leikvöll. Fullt af hlutum sem við höfum gert hundrað sinnum áður, en bjuggumst ekkert endilega við að gera aftur. Og í raun urðum við kannski svolítið leiðar á þeim. Þarf ég virkilega að lesa þessa bók aftur? En í þetta skiptið höfum við tíma og eigum auðveldara með að sjá áhugann hjá barnabarninu.
Og ef það það leynist í þér kennari er yndislegt að kenna þeim ýmislegt um lífið og tilveruna. Það er svo mikið sem þau eiga eftir að læra og svo mikið sem þú veist. Þetta geta verið einfaldar staðreyndir, jörðin er kringlótt, eða leiðbeiningar um hvernig er best að lifa lífinu. Það er ótrúlega gefandi að geta leiðbeint barnabörnum með allri þinni reynslu.
Samgleðjumst foreldrunum
Að eiga barnabörn er svo miklu meira en bara að njóta þeirra. Það þýðir nefnilega líka að börnin þín fá að njóta þess að verða foreldrar. Þú hefur alltaf viljað þeim það besta, rætt við þau tímunum saman um hvað þau vilji fá út úr lífinu, hvaða leiðir þau vilji fara. Þú veist að það að eiga börn hjálpar fólki að vaxa og þroskast. Það er örugglega það sem þú hefur óskað börnunum þínum að upplifa hvort sem þú hefur gert þér grein fyrir því eða ekki.
Þýðing þess að vera amma
Það óvænta við að verða amma er það sem það gerir fyrir þig. Já, það er gaman að leika við barnabörnin og þú vilt að börnin þín séu hamingjusöm, en það er eitthvað meira en það. Að eignast barnabörn hefur dýpri þýðingu fyrir margar konur.
Mörgum líður eins og þær hafi kannski ekki staðið sig 100% í móðurhlutverkinu, kannski voru þær of ungar og reynslulitlar eða of uppteknar í vinnu eða námi. Þegar þú eignast barnabörn færðu tækifæri til að gera þetta allt aftur, gera það betur, þú færð annað tækifæri sem er frekar sjaldgæft í lífinu.
Eftir því sem þú eldist hugsar þú oftar um hvað gerist þegar lífinu lýkur. Hefur líf þitt skipt máli? Skilur þú eitthvað eftir þig? Barnabörnin eru tákn um framtíðina, það eru þau sem koma til með að muna eftir þér þegar þú hefur kvatt þetta jarðlíf. Eftir 20–30 ár munu eiga sér stað samræður sem byrja þannig: „Ég man að amma sagði …“
Að genin okkar lifi áfram hljómar kannski lítilvægt og við hugsum lítið um það. En fólk áttar sig oft á því þegar í ljós kemur að það mun ekki eignast barnabörn, að það skiptir máli.
Að lokum og það óvæntasta af öllu. Þú ert ánægð með sjálfa þig og líður vel þegar þú ert með barnabörnunum. Þetta er svo saklaust samband og ekki uppfullt af sektarkennd og kvíða foreldrahlutverksins. Þú getur slakað á og verið þú sjálf.