Mýrarstúlkan eftir Elly Griffiths er spennandi og vel skrifuð sakamálasaga. Mýrarflæmið í Norfolk þar sem sagan gerist er nánast eins og persóna í bókinni svo magnað er andrúmsloftið í hættulegu en jafnframt heillandi votlendinu. Þar er að finna jafnt fornminjar sem leyndarmál nútíma illvirkja.
Það má segja að ég hafi farið svolítið öfugt inn í þessar bækur því ég las þrettándu bókina um Dr. Ruth Galloway og Harry Nelson lögregluforingja fyrst, síðan þá síðustu og nú þá fyrstu. Það skemmdi samt ekkert að vita örlög allra aðalpersónanna því það er óskaplega gaman að kynnast þeim Harry og Rurth upp á nýtt og komast að því hvernig þetta óvenjulega rannsóknarteymi varð til.
Bækur Elly Griffiths eru persónudrifnar og ekkert er einfalt. Allir hafa sínar góðu og slæmu hliðar. Dr. Ruth Galloway er prófessor í fornleifafræði með bein að sérgrein. Hún bæði aldursgreinir beinin og les í þau sögu forfeðra okkar. Hún býr ein, á tvo ketti og er fyllilega sátt við að vera einhleyp. Harry Nelson er lögreglumaður af lífi og sál. Málin láta hann ekki í friði ef honum tekst ekki að leysa þau. Hann er fjölskyldumaður, á konu og tvær dætur.
Talið er að mýrin hafi verið helgur staður í augum fólks á járnöld. Þar mætast landið og sjórinn og vatnið í senn helgar landað og gleypir það. Dr. Ruth var tíu árum áður en sagan gerist hluti af fornleifateymi sem gróf upp ævafornt gerði mýrarflákanum. Þegar lík finnst í mýrinni leitar Harry Nelson til Ruthar og biður hana að aldursgreina beinin. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða unga stúlku frá járnöld. Það eru Harry vonbrigði því hann vonaðist til að finna líkamsleifar lítillar stúlku sem hvarf um svipað leyti og uppgröfturinn fór fram og óvissan um örlög hennar hafa nagað hann alla tíð síðan. Þegar önnur telpa á svipuðum aldri og hin var hverfur tekur málið nýja og óvænta stefnu. Ruth kemst að því að hún er bæði athugull og naskur rannsakandi og Harry tekst með hennar hjálp að leysa bæði þetta mál og fleiri.
Inn í þetta fléttast bréf sem hugsanlega voru skrifuð af morðingjanum með tilvitnunum í Shakespeare, T. S. Eliot, Biblíuna og fornleifafræði. Vísbendingarnar eru ótal margar og misvísandi. Ruth Galloway er stórskemmtilegur karakter, sjálfstæð, greind og alls ekki nein steríótýpa. Harry er skynsamur, jarðbundinn, hlýr og umhyggjusamur. Hvorugt er gallalaust og þau gera sín mistök. Þótt ég hafi fljótlega talið mig vita hver væri morðinginn, (það reyndist rétt), voru nægilega margir krókar og keldur að krækja fyrir á leiðinni að lausninni til þess að ég efaðist oft um að ég hefði rétt fyrir mér.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.