Ekkert er meira heillandi en heimsmynd lítilla barna sem heimurinn hefur enn ekki náð að spilla. Þau horfa í einlægni og sakleysi í kringum sig og vega og meta. Oft hrjótaþeim af vörum ótrúleg sannindi um lífið og tilveruna og fullorðnir geta margt af þeim lært. Líklega endurspeglar ekkert íslenskt bókmenntaverk þetta betur en Sálmurinn um blómið eftir Þórberg Þórðarson. Nú gefst tækifæri til að njóta þessarar skemmtilegu sögu á nýjan hátt í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þann 4. október næstkomandi verður frumsýnd sýning byggð á Sálminn um blómið. Það er Jón Hjartarson leikari og ljóðskáld sem hefur samið einleik upp úr verkinu og flytur það á loftinu í Landnámssetrinu.
Þessi einstaka saga um líf lítillar manneskju frá því hún er reifabarn þar til hún er orðin ung stúlka lifnar við í nándinni á loftinu yfir pakkhúsinu gamala í Borgarnesi. Jón Hjartarson mun túlka Sálminn í söguformi en Jón lék Þórberg í rómaðri uppsetningu Kjartans Ragnarssonar á Ofvitanum hjá Leikfélagi Reykjavíkur.
Jón mun bregða sér í líki Þórbergs og lillu Heggu, aðalsöguperónu sögunnar. Auk þess að túlka fjölda persóna sem fyrir koma, svo sem Mömmugöggu, Gvuð, nokkra krakka, stjörnur og steina sem tala og jafnvel drauga. Þórbergur lifir sig inn í hugarheim barnsins bæði í tali og þankagangi á einstakan hátt í þessari bók og útkoman er einhver skemmtilegasta lýsing á þroskasögu barns sem til er í bókmenntum heimsins.
,,Hann virti litlu manneskjuna eins mikils og fullorðna… Hann kunni aldrei að gera sér mannamun … Honum fannst allir menn vera bara krakkar, sumir litlir krakkar, sumir stórir krakkar. Og svoleiðis hafði hann mest gaman af að tala við fólk. En honum hætti líka við að tala af sér og segja óviðeigandi sögur, af því að honum fannst alltaf hann sjálfur vera krakki”.