Sumir eru fæddir með þá náðargáfu að geta lagað sig að aðstæðum í lífinu hverju sinni og alltaf fundið ánægju í því sem verður á vegi þeirra. Svanfríður Ingvadóttir er í þeim hópi. Hún hefur skapað sér sælureit á bænum Selá í Eyjafirði og er ekkert á förum þótt einhverjar tölur segi að hún verði sjötug á næsta ári.
Svanfríður og maður hennar, Pétur Einarsson, keyptu jörðina Selá og gerðu upp húsin þar algerlega sjálf. Þau ákváðu að setja þar upp gistiheimili eða athvarf (retreat) stað þar sem leitandi sálir gætu fundið frið og kærleika. Pétur lést úr krabbameini fyrir fjórum árum og síðan hefur Svanfríður rekið gistiheimilið ein. Það vekur athygli að allt í húsinu er endurunnið og endurnýtt.
„Ég er innanhúshönnuður,“ segir Svanfríður, „og markmiðið var að endurgera, endurnýta og endurskapa. Gripahúsin, fjós og hlaða, voru endurbyggð af Pétri sjálfum. Þau eru sambyggð við íbúðarhúsið og við ákváðum að gera þar gistiheimili.“
Og vissulega má sjá að húsgögnin hafi verið notuð en það hefur tekist listavel að halda í sjarma hins liðna, gefa gömlum hlutum andlitslyftingu án þess að drættirnir séu frosnir og óeðlilegir. Það er heldur engin lygi að andrúmsloftið einkennist af hlýleika. Það er hreinlega eins og húsið umfaðmi mann þegar gengið er inn. Húsfreyjan hefur líka sitt að segja, létt í spori og brosmild.
Draumarnir rætast
„Við Pétur kynntumst á Sauðárkróki, og lögðum hart að okkur verandi ástfangin upp fyrir haus við að endurgera elsta hótel á Íslandi, Hótel Tindastól. Um aldamótin 2001-2002 bjuggum við Pétur á Kýpur, og tókum okkur bara frí frá lífinu. Svo var heim haldið á Krókinn endurnærð. Á þessum tíma var Pétur annað slagið á Indlandi að láta drauminn sinn rætast sem rithöfundur að bók með efni sem hann vildi skilja eftir sig á þessari jörð.“
Það var einmitt á Indlandi sem Svanfríður og Pétur létu gefa sig saman í sálarsamband í athöfn að indverskum sið í einu allra helgasta hofi á Suður-Indlandi í Tiruvannamalai.
„Árið 2005 flytjum við Pétur til Cranfield á Englandi þar sem Pétur fór í nám. Ári seinna, þá er ég 51 árs, læt ég drauminn minn rætast og við flytjum til Flórens á Ítalíu, þar sem ég lagði stund á innhúshönnun. Áður en ég lauk náminu bauðst mér spennandi vinna í London og við flytjum þess vegna þangað. Þá er Pétur að skrifa bókina sína; Learning to Die, Dying to Learn. Yfirskriftin er Metasophy en það er orð sem hann bjó til sjálfur, samsett úr metaphysics og philosophy en bókin var gefin út á Amazon um það leyti sem við komum til Íslands 2011. Þetta er í raun bara hans heimspeki.“
Átti sér draum um sveitalíf
En svo fór þau að langa að koma heim eftir langa útiveru og settust að á Akureyri til að byrja með en svo rak Pétur augun í auglýsingu og þar með var teningum kastað.
„Það var svo 4. júlí árið 2013 að Pétur sér auglýsingu á bland.is, Hús í sveit til sölu. Hann hringir og honum er sagt að þetta sé Selá. Við vissum ekkert hvar þetta var, þekktum bara Selá í Vopnafirði en fórum að skoða. Hann hafði alltaf langað að færa sig í sveitina og vera úti í náttúrunni, helst við sjóinn með bát og hesta. Hann átti sér þennan fallega draum. Ég var ekki alveg komin þangað. Við höfðum áður gert upp Hótel Tindastól í Skagafirði en þetta var allt annað, bara fjós og moldargólf í hlöðunni,“ segir Svanfríður og skellihlær. „Allt í kringum húsið var kerfill og Pétur tók mynd af mér við einn innganginn og það varla sást í mig fyrir honum. En svo löbbuðum við niður að fossinum sem er hér í Selánni og þá hugsaði ég með mér, þetta er yndislegur staður. Við keyptum Selá og Pétur byrjaði strax að vinna í húsinu. Við vorum þá ekkert farin að velta fyrir okkur hvað við ætluðum að gera við þetta.
Ég var í sveit í mörg ár sem barn og unglingur á Þverá í Öxnadal og í dag elska ég mest að vera í ullarsokkum og gúmmístígvélum. Hér á Selá er náttúran undur og ég nýt þess að vera svona nálægt fjölbreyttu fuglalífi því hér eru ótal tegundir fugla. Ég ætla að njóta þess vel að ganga fjöruna því áður en þú veist af verða komin sjóböð í fjöruna okkar. Það er eins og við Íslendingar höfum afar lítið hugmyndaflug og allir ætla að græða á því sama. Firðirnir okkar fullir af laxeldi og fjörurnar af sjóböðum.“
Gestirnir veita gleði
Hvers vegna ákváðuð þið að setja upp gistiheimili? Það er kannski ekki allra að taka alltaf á móti ókunnugu fólki nánast inn á heimili sitt.
„Það var bara til að geta haldið áfram að endurnýja. Dóttur minni datt í hug það snjallræði að setja auglýsingu inn á airbnb til að við fengjum einhverja innkomu. Pétur vann hér nánast linnulaust, enda lærður húsasmíðameistari og lögfræðingur. Það voru ekki margar stundir aflögu og ekki margt annað gert. En það varð mikil gleði af gestunum.
Fólki líður hér svo vel og það er einhver andi í þessu húsi. Það er dásamlegt að vera hérna og við með Kaldbak hér beint á móti, með alla sína góðu orku. Auðvitað var þetta mikil vinna en hún var unnin af natni og umhyggju. Héðan fóru gestir í gær sem skrifuðu í gestabókina að það væri erfitt að yfirgefa þennan stað. Fólk finnur fyrir ást og kærleik, þannig er orkan í þessu húsi.“
Pétur veiktist árið 2019 og þau fengu að vita að hann væri með ólæknandi krabbamein.
„Við vissum svo sem ekki hve langan tíma við hefðum en við ætluðum að nota hann vel,“ segir Svanfríður.
Mánaðarlöng jarðarför
Mjög margir muna eftir færslum á facebook og krabbamein.is sem Pétur skrifaði meðan hann hafði orku.
„Hann var í raun að stúdera sjálfan sig,“ segir Svanfríður. „Við höfðum ár til að undirbúa dauða hans. Veturinn 2019 fórum við til Spánar og leigðum þar hús í þrjá mánuði. Pétur hafði þá ekki sama kraft og áður. Hann var líka að læra spænsku. Ég spurði hann hvort hann héldi að þeir töluðu spænsku á himnum. „Það er aldrei að vita,“ svaraði hann. En svona var hann. Það var aldrei dauð stund hjá honum. Hann var mjög meðvitaður um að halda heilanum við. Þess vegna var hann alltaf að læra, lesa og skrifa.
Hann var strax ákveðinn í að taka engin lyf. Hann ætlaði að fara í gegnum þennan sjúkdóm og upplifa hann með athygli. Við vildum vera hér á Selá þannig að þegar endirinn nálgaðist komu yndislegar konur frá heimahjúkrun. Það var búið að koma fyrir sjúkrarúmi inni í einu af herbergjunum og miklar pælingar farið fram um hvernig mætti koma öllu sem haganlegast fyrir. Þegar allir voru farnir sagði hann: „Hér sef ég ekki. Ég er búinn að sofa hjá minni konu í tuttugu og tvö ár og ég ætla að halda því áfram. Við fórum því upp í svefnherbergið okkar og sváfum þar til endaloka.
Þetta var mánaðarlöng kveðjustund eða eins og hann sagði: „Þetta er að verða mánaðarlöng jarðarför.“ Það komu hingað afkomendur okkar, vinir og fjölskylda til að kveðja og hér var tekinn upp þáttur fyrir N4. María systir mín stjórnaði honum og þetta var ótrúlegur þáttur þar sem hún talar við hann um dauðann. Sonur okkar er kvikmyndatökumaður sem vann m.a. fyrir N4 og var sá sem tók upp þátttinn á meðan við Blackie hundurinn okkar sátum hjá og horfum á upptökuna sem var eftirminnileg stund. Þessi þáttur hefur fengið ótrúlegt áhorf.“
Pétur var mjög heimspekilegur í hugsun og hafði þörf fyrir að kryfja innstu rök tilverunnar. Svanfríður er nákvæmlega eins að þessu leyti og þess vegna er fyllilega óhætt að segja að þau hafi verið sálufélagar.
„Já, þannig náðum við saman á sínum tíma,“ segir hún. „Hann hafði verið leitandi að sálufélaga alla ævi og fann mig á Sauðárkróki, af öllum stöðum. Það var svo ofboðslega gaman að tala við Pétur hann var svo fróður og alveg ótrúlegur karakter.“
Dásamleg heimför
Maður eins og Pétur gat auðvitað ekki kvatt á hefðbundinn máta og Svanfríður rifjar upp síðustu stundir hans og fögnuðinn yfir lífinu sem hann lifði.
„Hann sagði við mig: „Líkaminn mun alltaf berjast gegn því að deyja. Við getum til dæmis aldrei kæft okkur sjálf. Þessi barátta verður alltaf líkamleg en það er alveg sama hvort við erum að berjast við krabbamein eða aðra sjúkdóma sem munu draga okkur til dauða þá er sálin okkar tilbúin til að fara löngu áður en líkamann fer. Þetta vissum við og þegar hann var orðinn mjög veikur sagði hann að það erfiðasta fyrir hann væri að skilja mig eftir. Þegar ég var hjá honum og hélt utan um hann hvíslaði ég að honum: „Ástin mín, þú mátt fara.“ Ég sagði þetta þrisvar sinnum við hann og þá fór hann og tók sitt síðasta flug.
Hann vildi vera brenndur og það er bara hægt í Reykjavík. Flugfélag Íslands flaug með hann síðasta flugið, hann sem gamli flugmálastjórinn fékk far í kistunni. Þeir voru líka flugmenn sem flugu svona, low pass, yfir Selá til að kveðja hann áður en hann dó. Það var dásamlegt. Hann vildi hafa fimmtán daga frá dauða til kveðjustundar, sem átti ekki að vera kveðja heldur fögnuður yfir lífi hans. Það héldum við hér á Selá. Góður vinur hans, Máni, smíðaði tveggja metra bát úr endurvinnanlegu efni, brennanlegu.
Ég var búin að biðja barnabörnin að búa til pappírsblóm í mismunandi litum og hingað komu börnin okkar, vinir og ættingjar. Um morguninn settum við blómin í bátinn og eitt barnabarnið hans setti áttavita svo hann vissi hvert hann ætti að fara hinum megin. Svo voru skórnir hans frá Indlandi settir þar líka því hann dvaldi mikið þar að skrifa. Margir komu líka fyrir skilaboðum og svo báru strákarnir bátinn hérna niður í fjöru og ég bar öskuna í fallegu keri.
Báturinn var svo settur við stjóra hér við fossinn og haldin kveðjuathöfn. Síðan var kveikt í bátnum. Þetta var hálfindversk og hálf víkingaathöfn, sem var the dragon and the tail. Við spiluðum Sigling inn Eyjafjörð, sungið af pabba mínum, lagið er eftir afa minn, Jóhann Ó. Haraldsson og ljóðið eftir Davíð Stefánson frá Fagraskógi. Síðan var komið hingað heim og borðað og drukkið og haft gaman. Allir hjálpuðust að. Bjarni á Völlum og Haddí konan hans voru með matinn handa okkur og Kaldi gaf bjórinn. Þetta var allt eins og það átti að vera, alveg dásamleg heimför.“
Lætur gamla drauma rætast
Síðan að Pétur dó hefur Svanfríður búið ein á Selá. Er það ekkert einmanalegt eða erfitt?
„Nei, hér er yndislegt að vera og mér finnst svo gott að iðka þakklæti hér og samkennd með öðru fólki. Það einhvern veginn flæðir um þetta hús,“ segir hún. „Það er svo gott að vera hér í þessari kyrrð, ég tala ekki um niður við fossinn og ég var einmitt að láta draum Péturs um brú yfir Selána rætast. Þannig að gamlir draumar eru að rætast.“
Snjóþungt er í Eyjafirði á veturna og það getur reynst erfitt að halda opnu að Selá þegar þannig stendur á. Svanfríður segir það nóga líkamsrækt fyrir sig að moka leið að öllum sjö inngöngum inn í húsið þegar skaflarnir taka að hlaðast upp.
„Ég hlakka til hvers dags, verkefna sem bíða mín og fólksins sem kemur hingað til að njóta þessarar ómótstæðilegu orku sem liggur hér yfir öllu.“ segir hún. „Ég er oft spurð að því þegar ég hitti jafnaldra mína á Akureyri, krakkana því við verðum alltaf krakkar, hvort ég ætli ekkert að hætta að vinna en nei, nei ekki á meðan ég nýt mín svona. Ég er líka heppin að því leyti til að ég er danskennari og kenndi í mörg ár bæði hér og úti í Bretlandi. Ég fór ung til Reykjavíkur, aðeins sautján ára, að læra hjá Heiðari Ástvaldssyni. Ég hugsa um heilsuna og ég vil vera þannig að ég geti haldið á barnabörnunum mínum. Ég geri líka jóga og hef stundað hugleiðslu til fjölda ára.“
Guðspekin gott veganesti
„Ég er alin upp í guðspekifræðum,“ heldur hún áfram. „Mínar fyrirmyndir voru til dæmis ömmusystur mínar, Svava Fells og Sissa. Svava var gift Grétari Fells sem var forseti Guðspekifélagsins og hafði nærvera þeirra djúpstæð áhrif á mín mótunarár. Náttúrulækningafélagið var stofnað á Hótel Tindastól sem við Pétur síðan áttum og húsið þar fyrir ofan, Fögruhlíð sem mér finnst svo skemmtileg tilviljun, til..viljans eins og Pétur sagði alltaf.
Sissa var gift Eyþóri Stefánssyni tónskáldi. Þau voru til dæmis grænmetisætur eins og Svava og Grétar, svo það mætti segja að hugmyndafræði um næringu hafi verið forrituð í mig snemma sem skýrir kannski að vissu leyti áhuga minn á heilbrigði þó að ég njóti nú guðsveiga annað slagið, segir Svanfríður hlæjandi. „Þetta var í kringum 1940 og voru þessar hugmyndir framúrstefnulegar á þeim tíma. Ég var strax tólf ára farin að lesa öðruvísi bækur og þetta mótar mann og vildi ég óska þess að fleira ungviði í dag fengi þetta vegarnesti. Ef maður hefur grunn að einhverju fallegu fylgir það manni alla tíð. Svava og Grétar fóru til að mynda til Indlands og sátu undir tré í garði Guðspekifélagsins í Chennai, garði friðarins og hlustuðu á Khristnamurti. Það var minn draumur að koma þangað og mörgum, mörgum árum seinna kom ég þar og sat í sama stól og Svava frænka.“
Leggur frá sér bakpokann
Þú lýstir Pétri sem ótrúlegum karakter en það mætti alveg lýsa þér sjálfri þannig líka.
„Ég fæddist með gleðigenið,“ segir hún og hlær. „Mamma sagði að ég hefði fæðst brosandi og ég er afskaplega þakklát fyrir það. Pabbi kallaði mig Súper átta og þótt ég eins og aðrir hafi farið í gegnum dali og fjöll þá hefur minn innri styrkur komið mér á áfangastað. Ég er ekki þeirrar gerðar að ég gangi með hlutina í bakpoka á bakinu. Maður getur ímyndað sér að lífið sé eins og lest og þá leggur maður pokann frá sér. Auðvitað vitkast maður með árunum og sér hlutina öðruvísi en ég hef alltaf haft þennan kjarna í mér, þessa vissu fyrir lífinu og öllu í kringum okkur, þeirri orku sem við búum í,“ segir hún að lokum en það er kominn tími til að kveðja Selá og notalegt andrúmsloftið þar. Blaðamaður tekur undir með gestinum sem skrifaði í gestabókina að það væri erfitt að slíta sig frá þessum stað. Hins vegar er gott til þess að vita að hann verður áfram opinn gestum og Svanfríður er ekki á förum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.