Ekki ósýnilegar lengur

 

Margaret Manning

Margaret Manning

Í rás tímans hefur tíska verið talin fyrir hina ungu. Að einhverju leyti má segja að sú fullyrðing sé rétt því fyrr á árum hafði ungt fólk meiri möguleika á því að vinna sér inn peninga til að eyða í föt en þeir sem komnir voru með börn og buru. Samfélagið hafði líka þá skoðun að fólk ætti að eldast með reisn án þess að vera að eyða í tískufatnað, segir bandaríski tískubloggarinn Margaret Manning en hún heldur úti vefsíðunni sixtyandme.com  og er markhópur hennar konur sem komnar eru yfir sextugt.

Tískuheimurinn að breytast

Margaret telur hins vegar að tískuheimurinn sé að breytast. Eldri konur séu verðmætur hópur neytenda, sem vilja tolla í tískunni bæði hvað varðar farða og fatnað. Fyrirtæki bregðist við þessu með því að ráða eldri fyrirsætur og hafa á sínum snærum rýnihópa sem eiga að svara spurningunni: Hvað vilja eldri konur? Hún segir að tískuiðnaðurinn svari kalli og sé farinn að ráða eldri fyrirsætur og noti svör rýnihópanna til að átta sig á því hvað það sé sem eldri konum hugnist. Það gleðilega er að stjórnendur tískufyrirtækjanna séu farnir að átta sig á því að auglýsing með eldri fyrirsætu hafi jafnmikið gildi og auglýsing með fyrirsætu sem er mörgum áratugum yngri. Hönnuðir eru líka farnir að koma auga á þau verðmæti sem felast í útliti þroskaðra kvenna.  Þeir sem séu klókir í viðskiptum séu líka farnir að átta sig á þeirri staðreynd að konur á miðjum aldri og eldri séu mun fjáðari en fyrri kynslóðir og verulegur hluti auðæfa Bandaríkjamanna sé í þeirra höndum.

Snýst ekki bara um útlit

Lauren Hutton var uppgvövuð þegar hún var 57 ára.

Lauren Hutton er ein af elstu fyrirsætum heims.

Margaret segir að það að vera eldri fyrirsæta snúist ekki bara um útlit heldur einnig um útgeislun og persónutöfra. Dæmi um slíka konu er hin 63ja ára Jacky O‘Shaughnessy en hún er nýjasta andlit undirfatalínunnar American Apparel. Önnur kona sem Margaret dáist að er hin sjötuga Lauren Hutton en hún starfar enn sem fyrirsæta og hefur birst oftar á forsíðu Vouge en nokkur önnur kona eða 26 sinnum.  Þá sé það fyrirsætan Cindy Joseph. Hún er ötull talsmaður þess konur eigi að finna sjáfar sig upp á nýtt, vera fullar af sjálfstrausts og  nota náttúrulegar snyrtivörur.

Breytt markaðsetning

Nú þegar eldri konur eru orðnar stærri hópur neytenda á þessum markaði hafa fjölmargir hönnuðir, tímarit, framleiðendur og söluaðilar breytt markaðsetningu sinni. Bandaríska merkið TJ Maxx notaði nýlega myndir af venjulegum neytendum í markaðsátaki. Þar á meðal var 62ja ára fyrirsæta. Nokkru áður hafði Marc Jacobs valið hina 65 ára Jessicu Lange sem nýtt andlit fyrirtækisins. Fjallað var um Söru Wiley, 66 ára glæsilega fyrirsætu í tímaritinu Stella Magazine en hún hefur mikið að gera í fyrirsætubransanum eftir að hafa verið uppgvötuð 57 ára gömul.

Konur sextugar og eldri eru ekki ósýnilegar lengur

Uppgvötuð eftir fimmtugt.

Sara Wiley uppgvötuð eftir fimmtugt.

Jákvæðasta birtingarmynd þessara breytinga er ef til vill sú að konur sextugar og eldri eru ekki ósýnilegar lengur. Þær eru sýnilegri en nokkru sinni fyrr í samfélaginu. Þær taka þátt  í stjórnmálum, sitja í stjórnum stórfyrirtækja og eru jafnvel farnar að ráða heilmiklu í tískuheiminum sem hingað til hefur verið haldinn brjálæðislegri æskudýrkun og Margaret klikkir út með því að segja að hvort sem við höfum áhuga á tísku eða ekki voni hún að allar konur sextugar og eldri finni innblástur og hvatningu þegar þær sjá hversu vel eldri fyrirsætum er farið að vegna. „Okkur þarf ekki að líða eins og heimurinn sjái okkur ekki. Við höfum meiri völd og áhrif en nokkru sinni fyrr. Þetta er okkar tími,“ segir hún.

Jessica Lange

Jessica Lange verður fallegri með aldrinum.

 

 

 

Ritstjórn ágúst 26, 2015 11:15