Eldri borgarar hér á landi búa við viðamikið afsláttarkerfi í heilbrigðisþjónustunni og borga almennt lægra verð þar en hinn almenni notandi. Það er sérlega hagkvæmt fyrir þá að sækja sér þjónustu á heilsugæslustöðvar. Þetta kemur meðal annars fram í Upplýsingabanka Lifðu núna, sem settur hefur verið upp hér á síðunni. Honum er ætlað að greiða fólki leið að helstu upplýsingum sem snerta daglegt líf og réttindamál eldra fólksins í landinu. Upplýsingum, sem finna má á vefsíðum stofnana og fyrirtækja víðs vegar, en hagræði er af að hafa á einum stað, ekki síst fyrir þá sem eru minna tölvuvanir.
Upplýsingabankinn leggur ekkert mat á gæði heilbrigðisþjónustunnar eða aðgengi. Í honum er greint frá því hvaða þjónusta er í boði fyrir eldra fólk, á vegum opinberra aðila og annarra, og sitthvað um hvað hún kostar. Hér er krækja á Upplýsingabankann.
Eiga ekki að greiða meira en rúmar 47.300 krónur á ári
Þak er á greiðslum sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu, samkvæmt upplýsingum Sjúkratrygginga Íslands. Aldraðir og öryrkjar greiða minna en aðrir notendur eða að hámarki rúmlega 47.300 krónur á ári og aldrei meira en 16.700 krónur í sama mánuði. Fyrir almenna notendur er hámarkið á ári rúmlega 71.000 krónur og aldrei meira en 25.100 krónur í sama mánuði. Reiknireglurnar fyrir afsláttarkerfið eru býsna flóknar, afsláttarkort eru ekki lengur notuð, en fylgst er með greiðslum fólks í gegnum tölvukerfi heilbrigðisþjónustunnar.
Heilbrigðisþjónusta sem fellur undir kerfið er þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa og sjálfstætt starfandi lækna, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og talmeinafræðinga samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Undir kerfið heyra líka rannsóknir, geisla- og myndgreiningar og meðferð húðsjúkdóma sem er veitt af öðrum en læknum.
Sjúkrabíllinn kostar 6.700 krónur
Eldri borgarar 67 ára og eldri greiða helmingi minna fyrir komu á heilsugæslu en almennur notandi gerir, eða 600 krónur á meðan aðrir borga 1200 krónur. Ef fólk kemur á heilsugæsluna utan dagvinnutíma greiða það meira, eldri borgarar greiða 1500 krónur en aðrir fullorðnir einstaklingar borga 3.100 krónur
Sama gildir um vitjanir lækna í heimahús. Eldra fólk greiðir helmingi minna fyrir þær en almennir notendur. Á bráðamóttökunni greiða almennir notendur 6.400 krónur fyrir heimsóknina, en eldri en 67 ára greiða 4.200 krónur.
Eldri borgarar fá einnig afslátt í sjúkraþjálfun. En fyrir flutning á sjúkrahús eða af sjúkrahúsi greiða allir jafnt, 6.700 krónur.