Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, gagnrýnir það hvað viðmiðunarupphæðin vegna skerðinganna í almannatryggingakerfinu er lág, en þær byrja þegar fólk hefur 25.000 krónur í lífeyrissjóðs- eða fjármagnstekjur. Frítekjumarkið vegna atvinnutekna er svo 100.000 krónur á mánuði og hefur ekki hækkað síðan 2018. „Mér finnst þetta ömurlegt í einu orði sagt,“ segir Ingibjörg. „Þetta er líka svo mikið ófrelsi.“ Hún segir að eldra fólk veigri sér við að taka að sér verkefni sem það fær greitt fyrir vegna þess að það hafi svo lítið uppúr því. „Mér finnst þetta svo mikil niðurlæging, að fólk sem er komið á eftirlaunaaldur og hefur greitt skatta og skyldur alla sína ævi, skuli allt í einu komið í allt annað skattaumhverfi og farið að borga hæstu skatta allra í landinu. Menn eru orðnir annars flokks þegnar í samfélaginu, þegar skattar og skerðingar eru komin í rúm 73%“, segir hún.
Ef skerðingarnar hefðu ekki byrjað svona fljótt
Aðalmeðferð í máli Gráa hersins gegn ríkinu vegna skerðinganna, verður í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn 29. október klukkan 9:15. Þrír einstaklingar stefna ríkinu fyrir hönd Gráa hersins og er Ingibjörg ein þeirra. „Skerðingarnar koma svo bratt inn, það er spurning hvort farið hefði verið í mál vegna þeirra, ef þær byrjuðu við hærri tekjumörk. Kannski væri kergjan þá ekki jafn mikil. Ríkið notar lífeyrissjóðina til að þurfa ekki að borga meira til almannatrygginga, en sannleikurinn er sá að margir sem eru núna að fara á eftirlaun eiga ekki sérstaklega mikið í lífeyrissjóði, þar sem kerfið var ekki fullþroska þegar þeir byrjuðu á vinnumarkaðinum“, segir Ingibjörg.
Lítið mál að fá peningana tilbaka gegnum skattinn
Ingibjörg vill ekki spá fyrir um úrslit málsins, segir að þau komi í ljós þegar dómur falli í Héraðsdómi. Hún segir að dómara hafi fundist málið dómtækt og það sé númer eitt. Því hafi ekki verið vísað frá og nú standi aðalmeðferðin fyrir dyrum. Sú gagnrýni hefur komið fram á málaferlin að afnám skerðinga muni koma þeim eldri borgurum best sem hafi þegar bestu kjörin. Ingibjörg gefur ekki mikið fyrir þau rök. „Það er nú lítið mál fyrir ríkið að beita skattkerfinu til að ná þeim peningum til baka“, segir hún. „Kerfið er óþolandi og það er algerlega óásættanlegt að eldra fólk eigi að búa við önnur lög og aðrar reglur þegar kemur að því að greiða skatta til samfélagsins“.