Eldri borgarar hjálparþurfi eða bjargvættir

 

Frá fræðslufundi FEB

„Neikvæð umræða um eldra fólk er eyðileggjandi og mig langar að vinna gegn henni,“ segir Ingibjörg H. Harðardóttir lektor við Háskóla Íslands. Ingibjörg og Amalía Björnsdóttir prófessor við HÍ, hafa í tvígang gert rannsóknir á framlagi eldri borgara til samfélagsins. Fyrri rannsóknin var gerð fyrir tíu árum og leiddi í ljós að þátttakendur í þeirri rannsókn aðstoðu fjölskyldur sínar með margvíslegum hætti. Nú hefur hluti rannsóknarinnar verið endurtekin og það sama er uppi á teningnum vinnuframlagið er umtalsvert. Ingibjörg segir að umfjöllun um eldra fólk í fjölmiðlum sé oft tengd fjárhagslegri stöðu, bæði fjárhagserfiðleikum eldri borgara og kostnaði ríkisins af auknu langlífi þjóðarinnar.

Skemmir fólk

„Sjaldnar er fjallað um það hvað eldri borgarar leggja af mörkum til samfélagsins. Þessi neikvæði tónn í umræðunni er þó ekki að skapi þeirra eldri borgara sem telja stöðu sína ekki slæma, og í rannsókn frá 2007 lýsti einn viðmælandi því á eftirfarandi hátt: „Ég verð alltaf öskuvond þegar ég heyri þetta. Það er búið að tala svo mikið um þessa slæmu afkomu hjá gamla fólkinu og margt af því er búið að fá þetta inn á heilann sjálft þó það út af fyrir sig hafi kannski ekki yfir neinu að kvarta. Þessi neikvæða umræða skemmir svo mikið fólk.“  Ingibjörg og Amalía komu á fræðslufund hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík og kynntu niðurstöður rannsókna sinna.Úrtakið í seinni rannsókninni voru 1200 einstaklingar á aldrinum 67-85 ára og voru þeir valdir af handahófi úr þjóðskrá. Svör fengust frá 706, eða 59 prósent þátttakenda. Kynjaskipting var jöfn í úrtakinu.

Úr niðurstöðunum

Amalía Björnsdóttir á fundi Félags eldri borgara.

Mikill meirihluti þátttakenda í rannsókn Ingibjargar og Amalíu  átti afkomendur, eða 93% þeirra. Barnbörn eitt eða fleiri en ekki langömmu/afabörn áttu 29%, og 57% þátttakenda voru langömmur eða langafar. Niðurstöður benda til þess að framlag eldri borgara á Íslandi til barnagæslu og ýmiss konar stuðnings við fjölskyldu sína og aðra sé umtalsvert. Nær þrír af hverjum fjórum sem svöruðu spurningu um barnagæslu höfðu sinnt slíku, frekar konur en karlar, en þó hafa 69% karla sinnt barnagæslu. Um 29% þátttakenda hafa fylgt börnum eða keyrt á milli staða. Afar og ömmur taka við þegar formleg gæsla eða skólaganga barna nær ekki yfir allan þann tíma sem foreldrar eru bundnir í vinnu. Þarna eru eldri borgarar að aðstoða þegar barnagæsla er orðin púsluspil. Athygli vekur að þó að spurt sé um barnagæslu eftir að 67 ára aldri er náð, en ekki á til að mynda síðasta ári, eru eldri þátttakendur ólíklegri en þeir yngri til að segjast hafa sinnt slíku, undantekning er hópurinn 83 ára og eldri. Vissulega má vera að barnagæsla sé að verða algengari hjá eldri borgurum, en einnig má vera að þegar þátttakendur svara þessari spurningu hugsi þeir um síðustu ár en ekki tíu ár aftur í tímann, þegar þeir voru um sjötugt og voru að passa barnabörnin, eða jafnvel barnabarnabörnin. Þeir þátttakendur sem töldu heilsu sína góða eða mjög góða voru líklegri til að hafa passað börn, ýmist heima hjá sér, eða heima hjá þeim. Hins vegar voru þeir sem töldu heilsu sína lélega ólíklegri til að hafa passað börn. Fimmtungur þátttakenda hafði aðstoðað afkomendur sína eða aðra vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar. Ólaunað vinnuframlag var einnig nokkuð algengt, t.d. svöruðu 52% karla og 38% kvenna því játandi að þau hefðu veitt fjölskyldu sinni eða öðrum slíka aðstoð. Eins og fram kom í athugasemdum við spurninguna var þetta frekar hefðbundin kynjaskipting, til að mynda aðstoðuðu karlar við viðhald húss, en konur við saumaskap, sem sýnir að aðstoð var veitt við verkefni sem viðkomandi var vanur að sinna þegar hann var yngri. Þarna er um hulið vinnuframlag að ræða.

Af þessu má ráða að ólaunað vinnuframlag eldra fólks er umtalsvert.  Hér er hægt að kynna sér rannsókn Amalíu og Ingibjargar nánar.

 

 

 

Ritstjórn janúar 27, 2017 14:29